152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:31]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vil þó aðeins taka til máls. Mér fannst nokkuð langt gengið hjá hv. framsögumanni að tala um að hér kæmu hagsmunaaðilar sem ætluðu að ræða þetta dýraníð. Ég er ekki hagsmunaaðili í þessu máli, ég hef engra annarra hagsmuna að gæta en að í landinu sé eðlilegt atvinnulíf sem heldur sig við þær reglur sem gilda. Hv. þm. Inga Sæland hélt blóðheita ræðu og fullyrti að allir hestamenn væru á móti því sem væri að gerast með þessar blóðmerar. En ég fullyrði á móti að það er ekki alveg rétt. Ég held að skoðanir séu skiptar í þeim hópi, eins og víðar í samfélaginu. Ég vil taka það fram, áður en lengra er haldið, að í orðum mínum felst enginn stuðningur við dýraníð, enginn stuðningur við það sem kom fram í umræddri mynd, enginn stuðningur við það að ekki sé farið að lögum um vernd dýra. Við erum öll þar. En við getum alveg haft ólíkar skoðanir á því hvernig atvinnulífið á að vera.

Ég verð að segja að það er með ólíkindum ef við ætlum í þessum sal að setja alla þessa 119 bændur undir einn hatt. Hafi einn bóndi, sem er einum of mikið, gerst brotlegur við lög — eða tveir eða fleiri, ég veit ekki hvað þeir eru margir, ég vona að þeir séu ekki fleiri, en þá er það tveimur of mikið — getum við ekki dæmt heila stétt, heila grein innan landbúnaðarins, úr leik út af mistökum eins aðila. Það er ekki hægt. Við látum ekki erlenda aðila hóta okkur. Við búum endalaust við það að erlendir aðilar séu að hóta okkur. Hve oft hafa Bandaríkjamenn ekki hótað okkur í sambandi við hvalveiðar? Þeir sem veiða sjálfir mest af hval í heiminum. Það er ekki hægt að hlusta á svoleiðis menn. Við verðum að fara varlega í að hlusta á hótanir. Við erum ekki að hóta hvert öðru hér í þessum sal og við látum ekki hóta okkur hér, engan. Við tökum ekki þátt í því.

Eins og mér þykir vænt um framsögumann þessa máls finnst mér langt gengið í greinargerðinni að segja: Á Íslandi sæta fylfullar merar mismiklu og misgrófu ofbeldi við blóðtöku. Á öðrum stað er talað um ofbeldi og illa meðferð. Hingað kom ágætisbóndi áðan, hv. þingmaður, og lýsti þessu aðeins og ég ætla ekki að fara út í það. Ég segi bara: Það má ekki setja alla undir sama hatt. Það má alls ekki gerast og við verðum að hafa þor til þess að komast í gegnum þennan reyk og ræða þessi mál eðlilega. Ég held að leiðin í þessu máli sé að um þetta verði sett sérstök reglugerð og að maður verði að fá leyfi til að stunda þessa grein; að það verði settar reglur um það hvaða aðbúnað þarf og hvernig þarf að standa að þessu og menn skili einhverjum gögnum um það. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig þetta er í dag en ég veit að þetta er ekki leyfisskylt. Ég tel að það væri góð byrjun að gera þetta leyfisskylt.

Ég vek líka athygli á því að meðal þeirra 119 bænda sem stunda þessa grein eru margir sem ná endum saman í búskapnum með þessu. Ég veit að hjarta framsögumannsins slær þannig að hún vill ekki ráðast að þeim sem minnstar hafa tekjurnar og lökust hafa launin. Þannig er það nú að bændastéttin leitar leiða til þess að komast af og þarna eru a.m.k. 100 bændur sem gera það. Við förum ekki að taka björgina frá þeim en við verðum að ræða þessi mál og ég treysti hv. atvinnuveganefnd til að gera það í framhaldi af þessu. Ég held að það sé kannski ekki svo góð hugmynd að ætla að setja upp myndavélar við þessa iðju. Það er nú bara þannig að í atvinnulífinu til sjávar og sveita gerast hlutir sem eru ekki alltaf voðalega glæsilegir. Við sem höfðum unnið víða og tekið þátt í ýmsu vitum að margt sem gerist t.d. á sjó er óhugnanlegt fyrir fólk að sjá, margt sem vekur upp hræðslu og ónotatilfinningu hjá fólki. Ég er ekkert viss um að myndir af sauðburði, eða þegar kálfur kemur í heiminn, séu eitthvað sem allir vilja sjá þótt það sé í sjálfu sér mjög fallegt og allt gott um það að segja. En það gerast alls konar hlutir í sveitinni og í atvinnulífinu sem eru ekki endilega þægilegir fyrir þá sem þekkja ekki til staðhátta.

Ég hvet til þess að við förum í þessa umræðu af meiri hæversku en hér hefur verið blásið til. Ég veit að framsögumaður er blóðheit í málflutningi sínum og vill ná sínum málum fram. En ég segi: Förum varlega, skoðum þetta mál rækilega áður en við förum að samþykkja þetta frumvarp.