142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er óneitanlega sérstakt að við skulum hér vera í umræðu um lækkun veiðigjalds á sama tíma og ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er óþreytandi við að lýsa því yfir hvað þeim hafi komið á óvart að það væru ákveðin vandamál tengd ríkisfjármálum á Íslandi. En ríkisstjórninni þykir sjálfsagt að hafa það forgangsverkefni nú þegar á sumarþingi að lækka veiðigjald á íslenska útgerð. Ekkert bólar hins vegar á boðuðu frumvarpi um hækkun lífeyrisgreiðslna til ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega þó að fjármálaráðherra sé ákaflega hneykslaður á Samfylkingunni að endurflytja frumvarp frá fyrra þingi um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Það er ágætt að þessi nýja hægri stjórn er svona grímulaus í forgangsröðun sinni, þá er kjósendum það strax ljóst hvað í vændum er næstu fjögur árin.

Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að verði þetta frumvarp að lögum muni það þýða rýrnun tekna ríkissjóðs um 3,2 milljarða á yfirstandandi ári og 6,4 milljarða á því næsta. Bendir skrifstofan á að staða ríkissjóðs muni versna umtalsvert vegna þessarar tekjulækkunar og verði það til muna lengri leið að jöfnuði í heildarafkomunni en gert var ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun sem fylgdi fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013.

Einhvern veginn virðist vera tekin við algjör óstjórn í ríkisfjármálunum eftir fjögurra ára aga og festu. Því ber að bæta við að fyrir helgi var skrifað undir bindandi samning um Norðfjarðargöng, þessi Norðfjarðargöng sem fjármagna átti með m.a. tekjum af veiðigjaldi, þannig að ríkisstjórnin er ekki bara að afsala sér tekjum upp á 6,4 milljarða á næsta ári heldur er hún jafnframt með ófjármögnuð útgjöld í bindandi samningi sem nema Norðfjarðargöngum sem mun þá leggjast við reikninginn af þessum vildargjörningi.

Í andsvari mínu fyrir helgina vitnaði ég í virtan fræðimann, Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla, sem er óþreytandi við að benda á hvað þetta sé óheppileg ráðstöfun. Hann segir m.a. að þessi lækkun um 3 milljarða á þessu ári og rúma 6 milljarða á því næsta skapi ekki sérstakan hvata til fjárfestingar í greininni enda sé hvatinn, eins og hann orðar það, með leyfi forseta, „ævintýralegur“ og til þess að veiðigjaldið fari að hafa neikvæð áhrif á fjárfestingu í greininni þurfi það að verða í kringum 50 milljarðar.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur undir það að þessi lækkun á veiðigjaldi muni ekki auka hvata til fjárfestingar þannig að þarna eru aðilar sem eru sammála um að þetta sé ekki þjóðhagslega hagkvæm aðgerð.

Svo ég haldi áfram að vitna til dósentsins telur hann eftir útreikninga þar sem dreginn er frá allur rekstrarkostnaður í greininni og áætlaður 8% arður á eigið fé, standi eftir 56 milljarðar kr. fyrir árið 2011 sem sé auðlindaarður, arðurinn af því að fá að fénýta þá auðlind sem fiskurinn í sjónum er, og að á árunum 2008–2010 hafi hann verið á bilinu 38–46 milljarðar.

Ég ætla ekki að efast um það í eina mínútu, herra forseti, að það má deila um hvernig útreikninga eru gerðir og hvað eru réttar tölur og hverjar eru rangar. Ég ætla þó að segja að ég treysti því að þessir 56 milljarðar séu í námunda við það sem hægt væri að sammælast um að væri arðurinn af nýtingunni á auðlindinni. Jafnvel þó að við værum með skekkjumörk upp á 5–10 milljarða eru þetta umtalsverðir fjármunir. Ef við tölum um 56 milljarða skila 18% af auðlindaarðinum sér til þjóðarinnar, sem lögum samkvæmt á auðlindina þó að það eigi eftir að festa slíkt í stjórnarskrá, á meðan 82% renna beint í vasa útgerðarinnar og er hún þá jafnframt búin að fá arð af því fé sem hún hefur lagt í reksturinn. (Gripið fram í.) Þetta eru því gríðarlegir fjármunir, herra forseti, og ég verð að segja það að það er fráleitt að vera í umræðu sem snýst um að lækka veiðigjaldið í stað þess að hún snúist um að hækka veiðigjaldið, sérstaklega af því að við fórum í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn um það hvort frumvarp stjórnlagaþings ætti að verða grunnurinn að nýrri stjórnarskrá. Þar voru nokkrar spurningar teknar út. Þar voru kjósendur spurðir að því hvort þeir teldu að þær auðlindir, eins og t.d. fiskveiðiauðlindin, fiskurinn í sjónum, ættu að vera þjóðareign og hvort fyrir ætti að koma fullt gjald vegna nýtingar. Töldu 83% kjósenda á Íslandi að svo væri. Mér finnst það mikil dirfska af nýrri ríkisstjórn að ögra kjósendum með þessum hætti, (BirgJ: Heyr, heyr.) að bjóða upp á þetta frumvarp í upphafi ríkisstjórnartíðar sinnar.

Herra forseti. Það er ekki minni dirfska í ljósi þess að niðurstöður úr BA-ritgerð þar sem skoðaður var fjárstuðningur til stjórnmálasamtaka sýna að það eru núverandi stjórnarflokkar sem njóta langt umfram aðra flokka fjárhagslegs stuðnings frá þessari atvinnugrein, sjávarútveginum. Þær upplýsingar hvíla náttúrlega sem skuggi yfir umræðunni og án þess að ég ætli að leyfa mér að vera með dylgjur um það frekar þá segir það okkur ekki bara sem stjórnmálamönnum heldur sem venjulegu fólki með „common sense“, með leyfi forseta, ég sletti, að það er ástæða til þess að horfa á frumvarp sem þessi skuggi hvílir yfir með einstaklega gagnrýnum hætti.

Herra forseti. Ég vil ljúka ræðu minni á því að segja að í fyrsta lagi er óeðlilegt að ætla á skömmum tíma án ítarlegrar yfirlegu að draga úr því gjaldi sem sjávarútvegurinn þarf að greiða fyrir not af sameiginlegri auðlind okkar.

Í öðru lagi er ábyrgðarleysi að leggja slíkt fram án þess að fyrir því liggi gild rök þegar staða ríkissjóðs er eins og hún er og búið er að fara í bindandi samninga um t.d. útgjöld sem tengjast þessum tekjum.

Í þriðja lagi tel ég að ástæða sé til að gjalda varhuga við tillögum sem lúta að atvinnugrein sem hefur með svo afgerandi hætti styrkt stjórnarflokkana umfram aðra stjórnmálaflokka hér á Alþingi.

Ég ítreka það í lok ræðu minnar, herra forseti, að þetta er í andstöðu við yfirlýstan vilja kjósenda í atkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012 þegar 83% kjósenda vildu að auðlindir yrðu í þjóðareign og að fyrir notkun af þeim kæmi fullt gjald.