152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:49]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna frá hv. þm. Sigmari Guðmundssyni. Nú þekki ég ekki til á 119 bæjum, ég þekki kannski til á 80 af þeim. Get ég verið viss um að þetta sé einstakt frávik? Nei, það get ég ekki verið, því miður, hv. þingmaður. Ég get ekki svarað hlutunum öðruvísi en svo að ég get ekki vitað með vissu að þetta sé einstakt frávik. En ég virði aftur á móti við þá sem að þessu koma — jú, vissulega var það mjög seint í rassinn gripið, verð ég að segja, að fá fréttatilkynningu í morgun um að þessum samningi hafi verið rift, og það er kannski engin tilviljun því þetta mál kom á dagskrá hér í dag. En aftur á móti þá tel ég að sú umræða sem hefur átt sér stað í þessum sal og í samfélaginu geri það að verkum að menn fari nú að hugsa sinn gang og þar sem þessi frávik eru til staðar, þeim verði þá bara kippt út. Það verður að vera þannig ef þessi starfsemi á yfir höfuð að halda. Þá verða menn bara, eins og ég sagði áðan í ræðu, að hækka rána og gera enn meiri kröfur til þeirra sem stunda þennan búskap, hvort sem það er í þessum búskap eða einhverjum öðrum.