154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri.

52. mál
[15:56]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur einmitt lýst þessu ágætlega hér. Innkoman af rekstrinum er ekki það mikil að hún standi undir þeirri miklu fjárfestingu sem felst í því að taka yfir bú. Í tillögunni liggur einmitt að finna lausn á þessu. Af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um þessa hindranir þá voru ákveðnar lausnir til staðar á sínum tíma, þegar við höfðum lögin um ættaróðal og erfðaábúð. Markmið þeirra laga, eins og ég nefndi í minni ræðu, var einmitt að draga úr þeirri skuldabyrði sem fylgir því að ungir bændur kaupi jarðir af foreldrum sínum eða með erfingjum. Sú skuldabyrði olli því að kaupendur gátu oft litlu áorkað til umbóta á jörðum sínum. Eiginlega er nákvæmlega sama staða komin upp núna. Eftir brottfall þessara ákvæða á sínum tíma er heimild til stofnunar nýrra ættaróðala ekki til staðar lengur í jarðalögum. Við erum því eiginlega komin á svipaðan stað.

Ég sé fyrir mér að við horfum t.d. til regluverksins í Þýskalandi. Þar er heimilt að ráðstafa jörð til lögerfingja án greiðslu í því skyni að halda ákveðnum svæðum í landbúnaðarrekstri. Þar virkjast þessi tekjuskattskvöð ef viðkomandi hættir búskap. Þetta er ekki heimilt hér á landi og væri skilgreint sem gjafagerningur. Skatturinn hefur gert aðila afturreka með þá gerninga, sem eru einungis til þess fallnir að halda jörðum innan fjölskyldunnar og í áframhaldandi búskap. Því er svolítið sérstakt að hið opinbera skuli koma í veg fyrir að foreldrar styðji við sín börn með því að greiða fyrir því að þau geti eignast jörðina og tekið við búskapnum. (Forseti hringir.) En þetta er staðreyndin og þessi tillaga gengur út á að reyna að leysa þetta mál, sem ég tel vera brýnt.