154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

skráning menningarminja.

97. mál
[17:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka flutningsmanni, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, fyrir ágætisræðu. Hún gerði mjög vel grein fyrir þessu góða máli. Það er prýðilegt í alla staði en sá galli er á gjöf Njarðar að það eru blikur á lofti um að breytingar séu að eiga sér stað á umgjörð minjaverndar og minjaeftirlits á Íslandi. Í umsögnum sem komu hingað inn, m.a. frá Þjóðminjasafninu, Minjastofnun Íslands og Félagi fornleifafræðinga sem fagna tillögunni, er talað um að rík ástæða sé til þess að skráning menningarminja nái einnig til mannvirkja og húsa, auk þess sem talið er að hún eigi best heima hjá Minjastofnun Íslands, ef ég skil rétt. Ég ákvað að koma hingað upp vegna þess að fyrr á árinu kynnti ráðherra að ráðist yrði í umfangsmikla sameiningu ríkisstofnana, en fyrirhugað er að tíu stofnanir sem nú heyra undir ráðuneytið verði að þremur. Minjastofnun, sem fer einmitt með minjavernd, er á meðal þeirra stofnana sem breytingin snertir. Samkvæmt áformum á að sameina Minjastofnun við svið náttúruverndar Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarðinn á Þingvöllum, og yrði þetta að náttúruverndar- og minjastofnun.

Það er alveg full ástæða til að óttast þessa sameiningu út frá sjónarhorni minjaverndar. Í fyrsta lagi er ekki algerlega augljóst hverjir sameiginlegu snertifletirnir eða viðfangsefnin eru svona almennt þegar kemur að Minjastofnun og hinum þremur stofnununum. Í öðru lagi er líka ástæða til að hræðast að Minjastofnun, sem er minni og ólík hinum að eðli og uppbyggingu, gæti drukknað í hinni nýju stofnun. Það sem kom fram í kjölfar þessarar kynningar ráðherra er auðvitað forkastanlegt, að það hefði ekkert verið hlustað á sjónarmið starfsfólks Minjastofnunar í öllu sameiningarferlinu. En það er nú kannski að verða hálfgerð regla í verkferlum ráðherra þessarar ríkisstjórnar að eiga ekkert samráð við hlutaðeigandi aðila í sameiningarferlum.

Frú forseti. Það þarf ekkert að fjölyrða um mikilvægi minjavörslu og húsverndar. Þetta er gríðarlega stór og mikilvægur þáttur í menningararfleifð þjóðarinnar. Þessu hefur verið sinnt nokkuð vel í áratugi, þótt ég taki heils hugar undir með hv. þingmanni um að það megi gera enn betur. Árangurinn ætti ekki að fara fram hjá nokkrum manni sem ferðast um landið þar sem við sjáum hverja perluna á fætur annarri sem fyrir örfáum árum eða áratugum lá undir skemmdum og var lýti staðanna. Nú eru mörg þessi mannvirki orðin alger staðarprýði og kannski lykillinn að uppbyggingu ferðaþjónustu. Af því að frú forseti situr hér aftan við mig þá nægir nú kannski bara að nefna Fáskrúðsfjörð sem hefur á fáum árum orðið einn fallegasti bær landsins, ekki síst með tilstuðlan Minjastofnunar sem gerði upp franska spítalann með miklum myndarbrag. Sami árangur hefur í rauninni náðst með skráningu fornminja um allt land. Ég, líkt og hv. þingmaður og flutningsmaður, átta mig í sjálfu sér á athugasemd sem kom frá Samtökum iðnaðarins, sem ég tek fram að voru líka nokkuð jákvæð í garð málsins. Þetta er auðvitað bara hluti af því að skipuleggja og byggja mannvirki. Það er vissulega orðið aðeins flóknara heldur en var þegar fólk stikaði út grunninn sjálft og gerði þetta svona nánast eftirlitslaust. Það er mjög brýnt að strax í upphafi tímaferilsins við deiliskipulagsvinnu hafi Minjastofnun tök á því að koma og skrásetja og finna út hvort eitthvað er í veginum, jafnvel hvort þurfi að taka einhverjar lóðir úr stærra skipulagi og koma í veg fyrir að þar verði byggt.

Nú á að setja starfsemi Minjastofnunar inn í stærri stofnun sem er að sinna allt annars konar vinnu, hvort sem um er að ræða faglega eða vísindalega nálgun hlutanna. Það er miklu nær að Minjastofnun verði áfram sjálfstæð stofnun, hún styrkt til muna eins og tillagan leggur til og væri undir ráðuneyti menningarmála. Þar finnst mér að hún ætti miklu frekar heima en í umhverfisráðuneytinu. En auðvitað er það kannski aukaatriði ef þessu er bara sinnt. Ég held að það sé raunveruleg hætta á því að minjavernd, sem þessari ágætu þingsályktunartillögu er ætlað að styrkja, verði þvert á móti hornreka og veikist.

Frú forseti. Sameiningar geta vissulega verið góðar, þær geta verið nauðsynlegar og eiginlega ákjósanlegar á köflum. En það verður að standa rétt að þeim og þær verða að vera til þess fallnar að styrkja allar stoðirnar sem eiga á endanum að mynda nýja stofnun. En sameiningarblæti þessarar ríkisstjórnar er að verða okkur býsna skaðlegt. Af því að við erum hér að tala um minjar, mannvirki og húsagerð þá nægir náttúrlega að nefna að fyrir nokkrum árum lagði ríkisstjórnin niður Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, sem mig minnir að hafi runnið tímabundið inn í Nýsköpunarmiðstöð sem var svo líka lögð niður og allt rann þetta inn og sameinaðist Íbúðalánasjóði í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Hvað á sér stað þar inni? Það er a.m.k. ekki gæðaeftirlit og vottun á byggingum. Þetta hefur algjörlega horfið, vonandi tímabundið.

Hér var ágætismál áðan sem laut að því að tryggja veru dýralækna um allt land. Ég styð það mál líka, en vilja menn ekki hafa eftirlit með húsum og mannvirkjum sem eru auðvitað ekki fyrst og fremst einhver stofustáss sem á að horfa á utan frá, þó að það skipti auðvitað máli að þau sé laglega gerð? Þetta eru líka bara híbýli og vistarverur fólks. Það hefur verið talsverð umræða hér síðustu mánuði og ár um hollustuhætti húsa og myglu og við erum búin að leggja niður allar rannsóknir á þessu, a.m.k. opinberar rannsóknir. Við skulum ekki gleyma því að húsagerð í dag mun væntanlega verða viðfangsefni einhverjar minjastofnunar í framtíðinni.

Þetta er auðvitað svolítill útúrdúr en tengist málinu, bæði varðandi hugmyndir um þessa sameiningu sem ég tel að sé líkleg til að veikja Minjastofnun og minjavernd í landinu og síðan er þetta bara hin hliðin á sama peningnum. Þetta snýst um menningu okkar og manngert umhverfi. Um leið og ég lýsi því yfir að ég styð þessa tillögu heils hugar og mun auðvitað greiða atkvæði með henni ef og þegar hún kemur til afgreiðslu, af því að mér er annt um minja- og húsvernd, þá óska ég þess á móti að hv. flutningsmaður, Steinunn Þóra Árnadóttir, beiti sér líka með einhverjum hætti gegn mjög óráðlegri sameiningu hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.