154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:16]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er þessi tillaga sem við fjöllum um hér til umfjöllunar í fimmta skipti, ef ég fer rétt með, þannig að það hefur gefist nægur tími fyrir flutningsmenn að átta sig á áhrifum þessarar tillögu ef hún verður samþykkt og fjármálaráðherra leggur fram frumvarp eins og lagt er til hér í þingsályktunartillögunni, áhrifum á íslenskt launafólk. Því spyr ég hv. flutningsmann, hv. þm. Ingu Sæland: Hvaða áhrif hefur þessi breyting á lífeyrisréttindi meðallaunamanns ef við miðum við 30 ára starfsævi eða 40 ára starfsævi? Eftir fimmtu tilraun þá hlýtur hv. flutningsmaður að hafa áttað sig á því að einhver áhrif hefur þetta á lífeyrisréttindi launafólks. Því spyr ég: Hver eru þau, hv. þingmaður?