154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu Flokks fólksins um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði og a.m.k. hefur þetta farið fyrir brjóstið á einum hv. þingmanni, Óla Birni Kárasyni. Ég ætla bara að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, um að þetta muni — 50 milljónir sagði hann að myndu hverfa ef þetta væri gert. Það bara stenst ekki vegna þess að ég er alveg sannfærður um að þessar 50 milljónir hverfa nú þegar í skerðingu, 45,5% skerðingu. Það er smá nýkomið, 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrissjóði og það er alveg fáránlega lág tala sem er látin standa óbreytt. Þetta segir okkur strax að staðan er þannig í dag að það er útvalinn hópur fólks sem heldur fullum eftirlaunum. Hvað þá? Af hverju erum við með hóp af fólki sem heldur fullum eftirlaunum þegar hann fer á lífeyri við starfslok? Jú, það eru einhverjir sem eru á háum launum og halda þeim áfram. Þeir þurfa ekki að láta Tryggingastofnun ríkisins vera með rannsóknaraugun ofan í öllum sínum fjármálum. Þeir geta líka gert annað: Þeir geta farið út á vinnumarkaðinn og unnið, geta unnið eins og þeir vilja eftir að þeir eru komnir á lífeyri, sem aðrir geta ekki. Þar eru frítekjumörk sem banna fólki að vinna, refsa því fyrir að vinna ef það vill og getur unnið. Á sama tíma eru verkamenn eða verkakonur að fara á eftirlaun sem eru á lágmarkslaunum, 450.000–500.000 kr. launum. Þessir einstaklingar fara út á vinnumarkaðinn og fá kannski 230.000 eða 270.000 kr. úr lífeyrissjóði fyrir skatta. Hvernig í ósköpunum eiga þeir einstaklingar að lifa á þessu þegar við taka skattar og skerðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins? Þess vegna erum við að tala um að skatta inngreiðslur í lífeyrissjóð.

Síðan höfum við líka spurt: Hvað eigum við að gera í framtíðinni við að missa þessar tekjur? Við verðum að átta okkur á því að í hruninu á sínum tíma þá töpuðust — ef við færum að uppreikna það í dag þá er ég alveg sannfærður um það að sennilega hafa tapast um 1.000 milljarðar. Þarna inni eru 300–400 milljarðar í skatttekjur. Er það á einhvern hátt eðlilegt að lífeyrissjóðir séu að gambla, leika sér, liggur við, á markaði með yfir 7.000 milljarða og þar af skatttekjur? Vegna þess að það hefur sýnt sig að það sem er á markaði getur hrunið. Þá tapast það. Þess vegna er alveg lágmark að við sjáum til þess að það sé greiddur skattur við innborgun í lífeyrissjóðina.

Lífeyrissjóðirnir eru búnir að fjárfesta í sjálfum sér kerfisbundið innan lands og eiga orðið nærri því hvert einasta fyrirtæki sem hreyfist á markaði. Það er galið í sjálfu sér að skattleggja ekki inngreiðslur lífeyrissjóða og líka séreignarsparnaðinn því að með því myndum við örugglega ná inn 100 milljörðum kr. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn reiknar ekki út raunverulega framfærslu, hvað þá hvað þarf til að lifa á Íslandi. Ég get alveg sagt ykkur það strax að 250.000 kr. duga ekki, það er alveg á hreinu. Við vitum það öll.

Ég verð að segja alveg eins og er að það er stórfurðulegt að við skulum vera með sárafátækt fólk, börn, fjölskyldur árið 2023 og vera ekki þróaðri en það að vera með fátæktarkerfi þar sem við setjum veikt fólk og börn í biðraðir til hjálparsamtaka til að ná sér í mat. Hvernig í ósköpunum getum við leyft okkur það? Og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum eru þeir flokkar sem hafa látið þetta viðgangast áratug eftir áratug enn við völd? Þeir lofuðu í kosningum að þeir ætluðu að breyta þessu en gera það síðan ekki.

Persónuafsláttur á ekki að vera fyrir þá sem eru á góðum launum, persónuafsláttur á að hverfa með hækkandi launum. Aftur á móti myndi ég segja að það að hækka persónuafslátt þeirra lægst launuðu, þannig að þeir þurfi ekki að borga skatta og verða fyrir skerðingum á sultarlaunum, er grundvallaratriði að sjá til þess að lífeyrislaun og lágmarkslaun dugi til framfærslu svo enginn þurfi að svelta. Við getum gert það með því að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði og nota þá peninga til þess.

Það er ömurlegt til þess að vita að við skulum vera búin að vera í sex ár á þingi og alltaf að hamra á þessu en það breytist lítið sem ekkert, að við skulum vera, eins og ég sagði áðan, í þjóðfélagi þar sem við erum að láta fólk bíða í röðum eftir mat og að við skulum vera í þjóðfélagi þar sem við erum með ákveðinn hóp fólks sem getur ekki bjargað sér og fjölskyldu sinni vegna atvinnuleysis eða vegna veikinda eða er bara að verða aldrað á lífeyrislaunum. Það er ömurlegt að við skulum vera í þessari stöðu af því að við getum gert svo miklu betur. Við getum það með þeim skattpeningum sem við tækjum úr lífeyrissjóðunum vegna þess að það er öruggt að þeir koma til góða hjá þeim verst settu núna. Við vitum ekkert hvað gæti skeð í framtíðinni eins og t.d. bankahrunið sýndi okkur. Við vitum hvað við getum gert við peningana núna.

Ef verkalýðshreyfingin er ekki tilbúin til þess að láta fólk fá 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust útborgað og einnig lágmarkslaunin í landinu, 400.000 kr., yrðu skatta- og skerðingarlaus — er hún sammála því að það eigi að skatta þau laun? Er hún sammála því að þegar fólk fer á eftirlaun eigi ákveðinn hópur að lifa í fátækt og eymd og volæði en aðrir eigi að hafa það rosalega gott? Ég hef enga trú á svoleiðis kerfi. Er það eðlilegt samfélag þar sem við erum með heilbrigðiskerfi þar sem börn þurfa að fara á biðlista til að komast á biðlista til að komast á réttan biðlista? Er alveg eðlilegt að við séum með heilbrigðiskerfi þar sem eldri borgarar sem þurfa að komast á hjúkrunarheimili þurfi að fara á biðlista til að komast á biðlista? Það eru yfir 2.000 milljarða skatttekjur nú þegar í lífeyrissjóðakerfinu og um 100 milljarðar sem við gætum náð út strax ef við skattleggjum inngreiðslurnar. Þeir eru að leika sér með 200 milljarða skattgreiðslur á markaði. Þetta er það sem við eigum að gera, við eigum að koma hlutunum í lag í dag. Við erum að valda fólki stórtjóni andlega, líkamlega og fjárhagslega í dag og peningar í framtíðinni gagnast því ekkert. Við vitum hvað varð t.d. um bótasjóð Sjóvár. Hann hvarf, hann lenti á Cayman-eyjum eða Tortóla og endaði sem lúxusíbúð í Kína og kom svo til baka og endaði sem veð í sundlauginni á Álftanesi. Hann hvarf. Þarna hurfu ekki bara lífeyrisgreiðslur og annað heldur líka bætur þeirra sem höfðu lent í tjóni.

Við eigum að sjá til þess að allir geti lifað mannsæmandi lífi á Íslandi. Við eigum að sjá til þess að allir geti haft það gott. Höfum við hugsað út í það hvaða afleiðingar það hefur fyrir þá þjóðfélagsþegna sem við erum með hérna í fátækt, jafnvel sárafátækt, ekki bara í örorkukerfinu heldur líka í ellilífeyriskerfinu? Það er búið að rannsaka þetta. Það er búið að sanna að þeir sem eru í þessari aðstöðu eru að tapa árum úr lífi sínu. Við vitum að það hefur gífurleg áhrif á fólk að hafa ekki efni á að fara til tannlæknis, hafa ekki efni á að fara til læknis, hafa ekki efni á mat. Það er ömurlegt til þess að vita að við skulum vera með 7.000 milljarða, að við séum að dæla 300 milljörðum inn í lífeyriskerfið en á sama tíma yppum við öxlum yfir því að það sé sjálfsagt að það sé stór hópur þarna úti af fólki sem hefur ekkert gert af sér en er dæmt til þess að geta ekki séð sér framfærslu, getur ekki framfleytt börnum sínum sómasamlega heldur þarf að fara í biðröð eftir mat. Þetta er okkur til háborinnar skammar en við getum breytt þessu. Peningarnir eru til. Það þarf ekki að hækka skatta, það þarf bara að ná í þá með því að borga strax staðgreiðslu af inngreiðslu í lífeyrissjóð, ná þar um 100 milljörðum kr. Hugsið ykkur hvað við getum gert með það. Við getum tekið 400.000 kr. framfærslu, skatta- og skerðingarlaust, við getum komið heilbrigðiskerfinu, getum komið biðlistakerfi barna — við getum komið fólki úr fátækt og það eigum við að gera.