141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrst örstutt varðandi EES-samninginn. Hann er byggður á tveggja stoða kerfi og við vitum það sem sitjum á Alþingi að Alþingi á síðasta orðið um innleiðingu tilskipana og reglugerða Evrópusambandsins. Umræðan er því byggð á ákveðnum misskilningi, að Íslendingar og önnur aðildarríki EES-samningsins úr EFTA-hópnum taki einfaldlega við löggjöf í gegnum faxtækið. Það er ekki svo.

Forsætisráðherrann er áfram bjartsýnn á að Íslendingar geti fengið meiri háttar undanþágur eins og allt aðildarferlið virðist byggja á. Þá vaknar auðvitað upp sú spurning: Hvers vegna á að fresta þeim köflum fyrst menn eru svona bjartsýnir? Af hverju er ekki haldið áfram með þá? Hvers vegna á að setja þá á ís, stinga þeim inn í kælinn? Ættu menn ekki núna í aðdraganda kosninganna einmitt nota tækifærið og sýna fram á að hægt sé að ná svona stórum áföngum eins og menn eru greinilega vongóðir um og menn eru enn bjartsýnir um að geta náð fram þrátt fyrir allt sem gerst hefur síðustu tvö og hálft ár í aðildarviðræðunum (Forseti hringir.) og sagt var síðast í gær?