148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:37]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hafa ber í huga að margir sérfræðingar, og flestir, telja að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna afturvirkt vegna eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar af þegar teknum lánum. Þetta mun því engu breyta fyrir þá sem þegar hafa tekið verðtryggð lán. Við skulum passa okkur að vera ekki að blekkja fólk hvað það varðar.

Í öðru lagi bjóða lánastofnanir upp á valkosti um hvort fólk taki verðtryggt lán eða óverðtryggt eða blöndu af hvoru tveggja. Það er samningsfrelsi hvað þetta varðar.

Í þriðja lagi er ljóst að það eru helst tekjulægstir sem hafa eingöngu haft efni á löngu verðtryggðu lánunum. Þess vegna þarf að koma með mjög markvissar mótvægisaðgerðir ef menn ætla að banna slíkt samningsform. Hins vegar á meðan við búum við krónuna þurfum við að endurskipuleggja fjármálakerfið okkar út frá hagsmunum almennings. Nú vill svo til að 70% af fjármálakerfinu eru á höndum ríkisins og er því einstakt lag núna, sem gefst ekki aftur, að hugsa hlutina aðeins upp á nýtt.

Það er ein hugmynd sem ég vil varpa hér fram fyrir utan upptöku alvörugjaldmiðils en það er að reyna að fá beina erlenda samkeppni inn á fjármálamarkaðinn. Ísland er hluti af EES-samningnum, sem betur fer, sem gerir ráð fyrir frjálsri för fjármagns. Ég er sannfærður um að ef erlendur banki myndi hefja starfsemi hér, t.d. með óverðtryggðum útlánum til almennings, myndi samkeppnin stuðla að bættum kjörum fyrir almenning. Sjáið bara hvað Costco gerði fyrir dagvörumarkaðinn.

Vextir eru ekkert annað en verð á peningum. Á Íslandi eru peningar dýrir, m.a. vegna krónunnar og sveiflunnar í hagkerfinu. Verðtryggingin er ekkert annað en hækja krónunnar sem við munum ekki losna við fyrr en krónan okkar fær að setjast í helgan stein. Hennar tími er einfaldlega liðinn, herra forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)