152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:08]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Nei, ég held að ég hafi ekki verið að lýsa yfir neinni stefnubreytingu Pírata en með þessum athugasemdum mínum er ég kannski svolítið að reyna að fylgja henni eftir. Það sem skiptir miklu máli í meðferð persónuupplýsinga eru tæknilegar hliðar málsins. Þegar ég var að renna yfir greinargerð og önnur gögn í tengslum við þetta mál sýndist mér vera nokkur meðvitund um þá þætti.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af er ekki endilega löggjöfin heldur það að stjórnvöld geri sér raunverulega grein fyrir því hvaða þýðingu það hefur að afhenda persónuupplýsingar um einstaklinga. Ég fann það í mínu starfi hjá Rauða krossinum að oft gat ég fengið persónuupplýsingar sem ég átti lögum samkvæmt engan rétt á, einfaldlega með því að kynna mig sem fulltrúa Rauða krossins. Það er tilhneiging í okkar samfélagi til að treysta, sem er að mörgu leyti mjög gott, og gera ráð fyrir að fólk sé ekki að biðja um eitthvað sem það á ekki rétt á. Þetta er að breytast sem betur fer, bara með almennu hugarfari.

Ég tek mjög fast undir það með hv. þingmanni að það skiptir gríðarlegu máli að við hugsum ekki öðruvísi um þennan hóp en annað fólk í samfélaginu en það er mikil tilhneiging til þess. Það er mikil tilhneiging til að halda að allt aðrar reglur gildi um íbúa hér sem tala ekki íslensku eða eru af öðrum uppruna. Það sér maður í mjög mörgum þáttum og það er æviverkefni að berjast við það, þ.e. að fólk taki réttindi fólks alvarlega, þar á meðal réttindi til persónuverndar.

Ástæðan fyrir því að ég taldi ekki rétt að gera formlega breytingartillögu við þetta er sú að Persónuvernd gerir ekki athugasemd við framsetninguna eins og hún varð á endanum í frumvarpinu. Persónuvernd vinnur eftir mjög strangri löggjöf um persónuvernd og ég legg kannski að einhverju leyti traust á að virkt eftirlit verði með því að lögunum sé fylgt og að hægt sé að fara einhverjar leiðir til úrræða ef svo er ekki.