152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:58]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það gleður mig að heyra að hann sé ekki að leggja til að við tökum upp mannréttindastefnu á borð við Sádi-Arabíu. Ástæðan fyrir því að ég las það út úr svari hans er sú að það eru þessi ríki sem eru ekki að taka á móti flóttafólki. Að þeim frátöldum eru ríkin í kringum stríðslönd að taka við langflestu flóttafólki. Samkvæmt tölum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru 73% flóttamanna í heiminum í nágrannaríkjum. Þá erum við að tala um aðliggjandi ríkjum, ríkjum sem eiga landamæri að því ríki sem fólkið er að flýja. 73%. Það er mjög lítið hlutfall sem leitar lengra en það eða kemst lengra og sannarlega kemst stór hluti af því fólki ekki á leiðarenda þó að það leggi upp í ferðalagið. Ég átta mig ekki alveg á því hvort hv. þingmaður sé að segja að við eigum að taka okkur Sádi-Arabíu til fyrirmyndar sem er að ýta öllum frá eða Danmörku sem virðist ætla að fara svipaða leið og Sádi-Arabía. En þess má geta að Danmörk hefur gert gríðarlega mikil mistök í sinni innflytjendastefnu sem lýtur fyrst og fremst að mistökum sambærilegum þeim sem mér heyrist hv. þingmaður vera að leggja til, mistök sem leiða til útskúfunar, sem leiða til aðgreiningar í samfélaginu, sem leiða til jaðarsetningar flóttafólks sem aftur leiðir til andfélagslegrar hegðunar, sem aftur leiðir til meiri fátæktar, vítahring sem veldur því að annarrar og þriðju kynslóðar flóttamenn ná ekki að festa rætur í samfélaginu. Þessi staða sem hefur komið upp á ákveðnum svæðum í Danmörku er afleiðing rasískrar útlendingastefnu Danmerkur, ekki öfugt. Og ég spyr hv. þingmann hvort hann sé að leggja til að við förum sömu leið.