152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar frá var horfið var ég að lýsa þeim aðferðum sem smyglgengi nota til að auglýsa starfsemi sína. Í fyrsta lagi snýst þetta auðvitað um blekkingar hvað varðar áfangastaðinn og að búa til óraunhæfar væntingar til fólks. Enda hvers vegna skyldu menn annars greiða 10.000 evrur fyrir hættuför upp á von og óvon? Það er meira að segja logið til um með hvaða hætti fólk ferðist, það er t.d. áhugavert að skoða margar þessara síðna á Facebook, og það getur í rauninni hver sem er gert það, þar sem birtast oft myndir af skemmtiferðaskipum eða snekkjum til að gefa til kynna að ferðalagið fari fram með einhverjum slíkum farartækjum. Ef hæstv. forseti hefur áhuga á að kynna sér þetta þá bendi ég honum á heimasíðu mína, sigmundurdavid.is, þar sem ég birti myndir af þessu, reyndar fyrir nokkru síðan, svoleiðis að hæstv. forseti þarf að fletta einhverjar síður aftur í tímann.

Í fyrrnefndri ferð minni til að kynna mér það sem við er að eiga, ferð til Möltu og Líbanons, hitti ég m.a. fólk í stjórnstöð evrópskrar stofnunar sem er stolið úr mér í svipinn hvað heitir en sér um að hafa eftirlit á Miðjarðarhafinu og veita björgun. Íslenska Landhelgisgæslan var reyndar á þessum tíma að sinna þarna hlutverki, hafði verið ráðin í það að lána skip og áhöfn til þess að vakta Miðjarðarhafið. En þeir mega eiga það, þeir sem ég hitti í þessari stofnun, að þeir voru hreinskilnir, sögðu hlutina hreint út og voru afdráttarlausari en ég hefði trúað. Þeir bentu mér til að mynda á það, bara til að lýsa því hvað við væri að eiga, að það væri ekki óalgengt til að mynda í Afganistan, ef hjón ættu fjóra syni, að það væri einfaldlega skipt með þeim verkum. Einn væri sendur í herinn, einn væri sendur í talibanana, einn væri sendur til að vinna til að mynda við framkvæmdir í Persaflóaríkjunum, byggja háhýsi og eitthvað slíkt, og einn væri sendur til Svíþjóðar. Þannig var þetta orðað, það er auðvitað ekki í öllum tilvikum Svíþjóð og ekki í öllum tilvikum nákvæmlega með þessum hætti. En þetta var nefnt sem dæmigerð staða í Afganistan, og svo myndu menn einfaldlega sjá til hverjum þessara sona vegnaði best og hann ætti að sjá fyrir fjölskyldunni. Það er staðreynd að börn eru, í auknum mæli virðist vera, send ein af stað eða falin hjá einhverjum sem tekur að sér fyrir greiðslu að fara með þau til Vesturlanda til að sækja um hæli fyrir hönd fjölskyldunnar. Þetta fólk sem vann við þetta alla daga, að taka á þessu ástandi og hjálpa fólki, bjarga því úr Miðjarðarhafinu, varaði sérstaklega við því að sett yrðu lög sem veittu sérstakt svigrúm eða sérstaka möguleika ef börn mættu ein. Fólkið sagði: Með því eruð þið ekki að gera annað en að stuðla að því að fleiri börn verði send ein af stað í þessa hættulegu ferð þar sem þeim er jafnvel rænt eða lifa jafnvel ferðina ekki af. Þið getið ekki, stjórnvöld — væntanlega myndu þeir ekki segja þetta opinberlega, en þeir voru þarna að ræða við forsætisráðherra Íslands og sögðu: Stjórnvöld geta ekki leyft sér að setja reglur sem stuðla að því að börn séu send ein af stað eða með vafasömu fólki í slíka hættuför. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég er nú rétt að hefja þennan kafla ræðunnar og bið yður því að setja mig aftur á mælendaskrá.