133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[15:26]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að Samfylkingin fagnar frumvarpi því sem hér er til umræðu vegna þess að Samfylkingin vill leita sátta um skýra farvegi fyrir náttúruvernd og skynsamlega nýtingu náttúrugæða. Þess vegna knúðum við það fram að sú nefnd sem samdi frumvarpið yrði sett til starfa. Það kostaði ítrekuð átök á Alþingi en að lokum náðist það eftir það sem sumir þingmenn hafa leyft sér kalla málþóf, en var málefnaleg umræða og gagnrýni á fáránlegt fyrirkomulag geðþóttaákvarðana og ábyrgðarleysis gagnvart náttúru landsins, meðferð auðlinda í þjóðareign og vali á aðilum til að nýta verðmætin.

Það hefur hins vegar vakið athygli landsmanna að Framsóknarflokkurinn hefur kynnt þetta mál sem víðtæka þjóðarsátt um nýtingu auðlinda og verndun náttúru. Slík lýsing er auðvitað fjarri sanni. Það sem hér er á ferð er mikilvægur hluti af heildarlausn til framtíðar, en frumvarpið dugar engan veginn til að ná tökum á ástandinu sem uppi er núna. Samfylkingin hefur hins vegar lagt fram tillögur sínar um rammaáætlun um náttúruvernd og fylgifrumvarp með henni sem dugar til að stjórnvöld geti tekið ábyrgð á og náð tökum á þessum málum í heild. Skoðun okkar er að það eigi að vera eitt af helstu markmiðum stjórnvalda á hverjum tíma að vernda náttúrugæði og nýta skynsamlegar auðlindir í sátt við náttúruna og þjóðina sem byggir landið.

Sitjandi ríkisstjórn hefur lengi brugðist því hlutverki og þrátt fyrir harkalega gagnrýni og kröfur um skynsamlega stefnumörkun og skýra farvegi fyrir þessum gríðarlega mikilvægu málum hefur hún móast við fram að þessu og viðhaldið ógagnsæju fyrirkomulagi, hentistefnu og stjórnsýslulegu sukki. Í stað skýrra reglna sem byggjast á stefnumörkun um náttúruvernd og nýtingu náttúrugæða og jafnræðis þegnanna til að nýta þau, hefur ríkt fyrirkomulag ráðstjórnar og ráðherravalds. Við þekkjum það af sögu síðustu ára hvernig málin hafa þar gengið til.

Þetta ástand hefur lengi verið uppspretta ósættis um verndun náttúru og nýtingu auðlinda. Stjórnvöld hafa í raun stungið tillögum auðlindanefndar frá árinu 2000 undir stól. Sama er að segja um niðurstöður rammaáætlunar um vatnsafl og jarðvarma frá árinu 2003. Sú staðreynd segir allt sem segja þarf um þann vilja sem núverandi stjórnvöld hafa haft fram að þessu til að viðhalda ógagnsæi og handstýrðu valdi í höndum sér.

Samfylkingin hefur beitt sér af alefli fyrir því að af þessari braut verði snúið og leitað sátta um skýra farvegi fyrir náttúruvernd og skynsamlega nýtingu náttúrugæða. Sú barátta bar þann árangur á síðasta þingi að nefnd sem undirbjó þetta mál var sett til starfa. Ég átti sæti í þeirri nefnd og vil segja um starf nefndarinnar, að í henni tókst mjög gott samstarf og einhugur um að líta á verkefnið sem hluta af heildarlausn til framtíðar á málefnum sem tengjast nýtingu náttúrugæða, hvort sem sú nýting felst í algerri friðun eða annarri nýtingu.

Nefndin skilaði niðurstöðum í haust og nú hefur hæstv. iðnaðarráðherra vonum seinna flutt frumvarp sem nefndin samdi en þó hafa breytingar verið gerðar á því og kem ég að þeim síðar.

Ég sé alveg sérstaka ástæðu til að leggja áherslu á að nefndin hafði skilgreint og takmarkað hlutverk en til að ná tökum á þessum málum þarf auðvitað heildstæða lausn. Samfylkingin hefur með þingsályktunartillögu sinni um rammaáætlun um náttúruvernd og fylgifrumvörpum með henni, sem ég nefndi áðan, markað slíka heildarstefnu. Með samþykkt þeirra mála tekur Alþingi fulla stjórn og ábyrgð á því hvort, hvar og hvenær verður ráðist í framkvæmdir, ef það er niðurstaða að virkja stórt eða auka stóriðju í landinu. Samfylkingin hefur jafnframt lýst því yfir að slíkum áformum eigi að fresta þar til rammaáætlun um náttúruvernd liggur fyrir.

Í frumvarpinu felst mikilvæg stefnubreyting og stefnumörkun til betri vegar. Í stefnubreytingunni felst fyrirheit um að í framtíðinni verði tekið heildstætt á náttúruvernd og nýtingu náttúrugæða. Stefnubreytingin byggir bæði á niðurstöðum auðlindanefndar frá árinu 2000 og rammaáætlun um vatnsafl og jarðvarma. Nái frumvarpið fram að ganga leysast mörg af þeim helstu vandamálum í framtíðinni sem nú ríkja á sviði verndunar og nýtingar náttúrugæða.

Í fyrsta lagi verður til farvegur framtíðarstefnu þar sem hægt er að meta og ákveða hvort landsvæði og auðlindir skuli nýtt með verndun eða með orkuvinnslu, námustarfsemi eða annarri nýtingu. Í öðru lagi gildir, á meðan þessi stefnumótun fer fram, afmarkaður rammi byggður á fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, öllu heldur á hluta af þeirri stefnumörkun sem þar er gerð, utan um þær leyfisveitingar til rannsókna og nýtinga á auðlinda sem lögin ná til.

Um þetta vil ég segja að ég gerði fyrirvara við þetta í minni bókun. Ég tel að Alþingi verði að fjalla um rammaáætlunina, þann hluta hennar sem hér er gert ráð fyrir að notaður verði til viðmiðunar og afstaða verði tekin til þess hvaða virkjanakostir eigi þarna að vera.

Í þessu sambandi minni ég á í fyrsta lagi að í rammaáætluninni um orkunýtingu er fjallað um tiltekin virkjunaráform. Þar eru sjálf landsvæðin eða náttúrufyrirbrigðin ekki metin á eigin forsendum, þó vissulega gefi umhverfisgildin vísbendingu um verðmæti náttúru á einstökum svæðum.

Rétt er einnig að minna á að Alþingi hefur ekki fjallað um niðurstöður rammaáætlunarinnar, eins og ég sagði áðan, og hlýtur því að fjalla um þennan hluta sem ég nefndi. Í frumvarpinu felst hins vegar að Alþingi staðfesti allar ákvarðanir þeirrar langtímastefnu, ég endurtek það, langtímastefnu um verndun og nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls sem mótuð verður.

Það væri ekki í samræmi við það sem nefndin leggur til ef ekki yrði farið yfir rammaáætlun um náttúruvernd að því leyti sem talað er um að láta hana gilda á þeim tíma sem líður þangað til að búið er að fara yfir þessi mál, eins og hér er lagt til.

Ég vil sérstaklega taka fram að þó nú séu einungis liðin þrjú ár frá því að verkefnisstjórn fyrsta áfanga rammaáætlunar um vatnsafl og jarðvarma lauk störfum geta verið áhöld um hvort einstök svæði eða auðlindir í a- og b-hluta hennar eigi að vera til ráðstöfunar til rannsókna og nýtingar á meðan fyrrnefnd stefnumörkun á sér stað. Það var ekki á færi nefndarinnar að meta þetta. Alþingi verður að taka ábyrgð á því núna við umfjöllun málsins.

Ljóst er af þessu að fara verður afar varlega við úthlutun leyfa á grundvelli rammaáætlunarinnar. Þess vegna er eðlilegt að Alþingi meti hvort einstakir kostir a- og b-hluta umhverfisflokkanna njóti biðverndar til viðbótar þeim sem nefndin leggur til að verði útilokaður með almennum og hlutlægum hætti.

Hér vil ég nefna sem dæmi umdeilda virkjunarkosti sem eru í a- og b-hluta rammaáætlunar, Innstadal og Villinganesvirkjun. Þá má líka nefna að ef þessi tillaga hefði verið samþykkt áður en menn tóku ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun hefði hún aldrei verið byggð. Því hér er miðað við a- og b-hluta rammaáætlunar og að frádregnum þeim kostum sem gerðar eru athugasemdir við vegna umhverfisáhrifa, en umrædd virkjun, Kárahnjúkavirkjun, lenti hvorki í a- né b-hluta. Hún lenti ekki í c-hluta, ekki í d, heldur í e-hluta. Það sjá því allir hvernig hefði farið fyrir þeim kosti ef menn hefðu verið búnir að samþykkja það sem stendur í frumvarpinu og tillögum sem því fylgja.

Í þessu sambandi vil ég taka fram, þó það eigi nú að vera sjálfsagt, að þó að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að ekki sé hreyft við rannsóknar- og nýtingarleyfum sem þegar hafa verið veitt, var ekki af minni hálfu eða flokks míns tekin nein afstaða til þeirra framkvæmda sem þau kunna að leiða til. Enda hefur Samfylkingin flutt frumvarp þar sem ábyrgðin er flutt til Alþingis, ákvörðunarvaldið um stóriðju er flutt til Alþingis, ásamt nýjum ákvörðunum um rannsóknir og nýtingu þar til rammaáætlun um náttúruvernd hefur hlotið staðfestingu Alþingis.

Við í Samfylkingunni segjum að heildstæða stefnumörkun þurfi í þessum efnum. Það frumvarp sem hér er til umræðu getur ágætlega verið hluti af þeirri heildstæðu stefnumörkun. En að slá ryki í augu þjóðarinnar með því að halda því fram að hér sé verið að klára málin með einhverri þjóðarsátt um þau umdeildu og gríðarlega mikilvægu málefni sem hér er verið að tala um er auðvitað ábyrgðarlaust og ekkert annað en keilusláttur.

Í þriðja lagi felast í frumvarpinu skýrar reglur um þá stjórnsýslu sem snýr að leyfisveitingu til rannsókna og nýtingar náttúrugæða. Sérstaklega er fjallað um auðlindir í almannaeigu og þá stjórnsýslu sem um þær eiga að gilda. Hún verður opin og gagnsæ og byggð á jafnræði þegna landsins til nýtingar auðlinda í þjóðlendum og í ríkiseigu. Sú tillaga hlýtur að teljast fordæmi fyrir meðferð annarra auðlinda í þjóðareign í framtíðinni.

Ég vil, hæstv. forseti, vitna í 13. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að jafnaði er skylt að taka gjald fyrir nýtingu auðlindar í eignarlandi í eigu ríkisins og í þjóðlendu. Við leyfisveitingu semur forsætisráðherra um endurgjald vegna auðlindanýtingar í þjóðlendum en landbúnaðarráðherra vegna auðlindanýtingar á jörðum í eigu ríkisins, að höfðu samráði við Orkustofnun.“

Þarna segir skýrt og klárt, skal semja um endurgjald. Þær reglur sem nefndin leggur til að gildi um þetta eru allar byggðar á því að þar sé réttindum komið með opnum og hlutlægum hætti í hendur þeirra sem ætla að nýta og fá tækifæri til þess. Þarna verði jafnræðis gætt og þarna verði verðmætanna gætt fyrir hönd ríkisins, fyrir hönd þjóðarinnar. Auðvitað með sama hætti og einstaklingar gæta sinna hagsmuna þegar þeir eru að selja, leigja eða nýta réttindi sem þeir eiga og vilja fá verðmæti fyrir, sem vissulega er breytilegt á hverjum tíma.

Ég tel að þarna sé vegvísir sem menn geti ekki litið fram hjá í framtíðinni og hljóti að leggja til grundvallar öðrum ákvörðunum um auðlindanýtingu, þótt þær séu ekki undir þeim lögum sem hér er verið að leggja til að verði sett. Þetta frumvarp er afrakstur af sameiginlegri stefnumörkun. Það er fagnaðarefni og ætti að geta verið þessi mikilvægi vegvísir sem ég talaði um. Það er þó ástæða til að kvarta yfir því að hæstv. iðnaðarráðherra skyldi taka þetta frumvarp og gera á því breytingar. Ég tel að mjög varasamt hafi verið að gera það, einfaldlega vegna þess að sú nefnd sem sett var upp hafði hlutverk sáttanefndar hvað þau málefni varðar sem hún hafði með að gera.

Það var hins vegar vegna togstreitu milli iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis sem upp kom eftir að nefndin hafði skilað af sér sem sú niðurstaða sem hér birtist varð og segir sína sögu um hvernig kaupin gerast á eyrinni í Stjórnarráðinu. Ég tel að vel hefði verið hægt að fara þá leið sem nefndin komst að niðurstöðu um. Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra hefði ekki átt að taka það upp hjá sjálfum sér að gera slíkar breytingar. Ef þær eiga eða áttu að verða var eðlilegt að þær yrðu gerðar hér á hv. Alþingi.

Umboð nefndarinnar sem samdi frumvarpið var bundið við þau náttúrugæði og auðlindir sem lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu ná til. Nefndarmenn gátu því ekki gert víðtækari tillögur. Þó taldi nefndin skyldu sína að miða tillögurnar við að þær gætu verið hluti af alhliða stefnumörkun. En þær ná af þessum ástæðum einungis til auðlinda í jörðu og vatnsafls og afmarkast við 115 metra frá stórstraumsfjöru við strendur landsins og við vatnsafl á yfirborði þess. Nefndin gerði af þeim ástæðum sem ég nefndi ekki tillögur um meðferð neinna annarra náttúrugæða og auðlinda.

Þess vegna er það verkefni Alþingis að bæta úr þessu með þeim hætti að heildstæð stefnumörkun um vernd og nýtingu allra náttúrugæða verði til á grundvelli skilgreindra rannsókna. Eðlilegur hluti slíkrar heildarstefnu er fyrirliggjandi fyrsti hluti rammaáætlunar um vatnsafl og jarðvarma og væntanlegur annar hluti hennar. Tillaga Samfylkingarinnar um rammaáætlun um náttúruvernd í stefnumótun flokksins um Fagra Ísland, verður að mínu mati mikilvægur hluti af slíkri stefnumörkun. Í henni segir, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni:

„Tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu.

Gera „Rammaáætlun um náttúruvernd“ sem nái til allra náttúrusvæða landsins. Þar komi fram tillögur um skipan verndarsvæða og áætlun um það hvernig verndun þeirra skuli háttað. Tryggðar verði fjárveitingar til helstu grunnrannsókna á náttúrufari landsins á næstu missirum þannig að áætlunin geti legið fyrir á komandi kjörtímabili.

Að rammaáætlunin verði lögð til grundvallar við gerð hugsanlegs landsskipulags og aðalskipulags sveitarfélaga.

Að ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir verði frestað þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.

Að heimild til að veita rannsóknar- og nýtingarleyfi vegna virkjunaráforma verði færð úr höndum iðnaðarráðherra til Alþingis á meðan unnið er að gerð áætlunarinnar. Ákvörðunarvald um nýtingu losunarheimilda samkvæmt „íslenska ákvæðinu“ í Kyoto-bókuninni verði einnig fært til Alþingis.“

Þetta þýðir nákvæmlega það sem ég sagði áðan, að Samfylkingin telur að heildarstefnumótun þurfi í þessum efnum og er með þær tillögur fyrirliggjandi á hv. Alþingi.

Nefndin sem samdi þetta frumvarp taldi það ekki á sínu verksviði að leggja til úrlausnir á því ófremdarástandi sem nú ríkir gagnvart áformum um nýjar stóriðjuframkvæmdir í landinu sem hægt er að hefja að óbreyttu án aðkomu stjórnvalda. Til að sátt geti ríkt á þeim tíma sem stefnumörkunin tekur til, verður Alþingi að smíða sér verkfæri sem duga til að í sölum þess verði tekin full ábyrgð á því, hvort, hvar og hvenær verði ráðist í stóriðjuframkvæmdir í landinu.

Þetta hefði maður nú talið að allir ættu að skilja. Það virðast allir skilja þetta nema hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutinn á Alþingi. Hæstv. ríkisstjórn heldur því fram að engin stóriðjustefna sé í gangi. Hæstv. ríkisstjórn virðist bara ætla að vera áhorfandi að þeirri framtíð sem stóriðjufyrirtækin vilja sjá í landinu. Ekki hafa neina skoðun á því. Enga stefnu um hvenær, hvar eða hvort eigi að reisa iðjuver í landinu. Það á bara að vera uppi einhver allsherjar, fyrstur kemur, fyrstur fær aðferð. Kjörbúð með endalausum vörum handa þeim aðilum.

Ég vil segja, hæstv. forseti, um þetta mál í heildina séð að það er mikilvægt að menn skilji um hvað það snýst og að menn átti sig vel á því að einungis hluti af þeim vandamálum sem hafa verið í umræðunni er leystur með frumvarpinu sem hér er lagt fram. Þetta frumvarp er mikilvægt og það er full ástæða til þess að leggja áherslu á þau mál sem hér er tekið á og hefði þurft að taka á fyrir mörgum árum en um þessi málefni hafa verið átök árum saman.

Það hefur ekki verið vansalaust fyrir stjórnvöld í landinu að það fyrirkomulag skuli hafa verið uppi við leyfisveitingar hvað varðar rannsóknir og nýtingu auðlinda í landinu, að því hefur verið handstýrt og háð geðþóttavaldi ráðherra hverjir hafa fengið leyfin í hendur. Það hefur ekki verið vansalaust að ekki skuli hafa verið komið á eðlilegu verðmati á þeim náttúrugæðum og orkulindum sem hafa verið settar í hendur á fyrirtækjum.

Það hefur heldur ekki verið eðlilegt að það hafi ekki farið fram heildarmat á þeim náttúrugæðum sem fórnað er í hverju tilfelli. Það hefur auðvitað verið fáránlegt að menn skuli ekki einu sinni hafa farið yfir þó þær rannsóknir og undirbúning sem hefur falist í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og lagt það til grundvallar ákvörðunum sínum. Ekkert af þessu hefur verið í neinu horfi sem hægt hefur verið að sætta sig við.

En í þessu frumvarpi er verið að taka á þessum málum. Og ég tel að menn verði að eiga það sem þeir eiga en þeir eigi ekki að skreyta sig með þeim fjöðrum sem þeir eiga ekki.

Hér er ríkisstjórnin að bregðast við áralangri gagnrýni og koma til móts við sjónarmið sem eru eðlileg um það hvernig fara skuli með þessi mál. Ég tel ekki ástæðu til þess að hún sé óskaplega hreykin af því að hafa þvælst svona lengi fyrir því að tekið hafi verið á þessum málum eða að menn mæti í fjölmiðla til þess að auglýsa að komin sé þjóðarsátt um þessi mál vegna þess að þeir hafi nú vitkast og gefið eftir hvað hluta málsins varðaði.

Það dæmir sig sjálft. Ég vona sannarlega að sú umræða sem fer fram í dag leiði fólk í sannleikann um það hvernig þetta mál stendur. Það dregur ekkert úr gildi þessa frumvarps þó að það sé hluti af slíkri heildarlausn. Það er mikilvægur hluti heildarlausnar en það leysir ekki þau stóru vandamál sem eru uppi.

Og menn þurfa að horfa yfir málið með svipuðum hætti og Samfylkingin hefur gert með tillöguflutningi sínum og verða að horfast í augu við það að ef menn vilja í raun og veru vilja ná fram heildstæðri þjóðarsátt um þessi málefni þá hlýtur hún að felast í því að menn klári málið í heild. Að menn komi þessu í þann farveg sem hér er verið að tala um, eins og Samfylkingin hefur lagt til, þ.e. með rammaáætlun um náttúruvernd, og að á þeim biðtíma sem verður þangað til þá verði fjallað um þessi málefni með eðlilegum hætti og það verði í gildi reglur sem hægt er að sætta sig við.

Þær reglur hljóta að verða að vera þær að Alþingi beri ábyrgðina á því hvort, hvar og hvenær verður ráðist í stóriðju í landinu. Það verði til stefna sem fólkið getur séð skýrt og klárt hjá þeim stjórnmálaflokkum sem vilja fá að ráða því hversu langt menn ætla að ganga hvað þetta varðar. Þeir svari ekki út og suður, vísi því ekki til Hafnarfjarðar eða Húsavíkur, heldur standi í lappirnar og segi sjálfir hvað þeir ætla að gera. Og þannig verði framtíðin klár í þessu efni, pólitískt.

Það er auðvitað niðurlægjandi fyrir pólitíska umræðu í landinu að menn skuli ekki getað talað skýrt um þá hluti sem hér eru á ferðinni. Svo mikilvægir eru þeir. En það höfum við mátt þola í umræðum á undanförnum árum og í þeim hafa menn þumbast við og lítið viljað segja og viljað halda málunum í því horfi sem þau hafa verið. En þær umræður hafa þó meðal annars orðið til þess að þetta frumvarp er loksins orðið til.

Ég ætla mér ekki að hafa ræðu mína lengri núna. Ég tel að það sé ágætt að fá fram góða umræðu. Ég tel ekki ástæðu til að vera með lengri umræðu um þetta málefni. Ég mun örugglega taka til máls aftur og halda seinni ræðu mína þegar ég hef hlýtt á ræður þeirra sem ætla að tala á eftir. En þetta er mikilvægt mál.

Að lokum endurtek ég það enn einu sinni: Það er einungis hluti af þeim vandamálum sem Alþingi Íslendinga þarf að leysa núna, í þessum mikilvægu málum sem hér eru til umræðu.