145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

styrkur til kvikmyndar um flóttamenn.

[15:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er vitanlega rangt hjá hv. þingmanni að farið sé fram hjá öllum almennum reglum og leikreglum og jafnræði og slíku í þessu máli. Það er búið að þekkjast í mörg ár að ráðstöfunarfé frá ríkisstjórn sé nýtt í að styrkja góð verkefni. Við styrktum til dæmis barnaóperuna Baldursbrá, óperuna Ragnheiði, það fór af þessum fjárlagaliðum. (Gripið fram í.) Það er nú þannig, til upplýsingar fyrir hv. þingmann … (VBj: Þróunarsamvinnuverkefni …) — Ef hv. þingmaður leyfir nú ráðherranum að tala hér gæti hún fengið upplýsingar um það. Það er nefnilega þannig að hið svokallaða DAC-batterí, sem við þekkjum ágætlega úr umræðum fyrr á þessu ári og því síðasta, gerir … (Gripið fram í: Allt of vel.) — allt og vel, já, kannski, hv. þingmaður — gerir ráð fyrir því að ákveðnir fjármunir séu nýttir til upplýsingagjafar og til þess að deila upplýsingum um hvað menn séu að gera í þróunarsamvinnu. Þetta er akkúrat dæmi um það. Þarna er verið að dreifa upplýsingum. Þarna er verið að búa til efni, myndefni, sem nýtist okkur, nýtist Íslendingum og nýtist vonandi alþjóðasamfélaginu líka, (Forseti hringir.) til að sjá hvernig tekið er á móti flóttamönnum, hvernig líf þeirra mun stökkbreytast til hins betra á Íslandi.