148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni prýðisræðu. Hv. þingmaður fór hér mjög vel yfir hagsöguna og vitnaði í nýútkomna skýrslu starfshóps um endurbætta peningastefnu. Ég vil taka það fram að ég hef ekki lesið skýrsluna til enda, aðallega fyrstu blaðsíðurnar og niðurstöðurnar, og hef ekki mikið annað til að byggja á. Það er reyndar athyglisvert sem hv. þingmaður kom inn á að það eru tveir möguleikar í stöðunni. Ég lít svo á að það sé fræðileg nálgun að ganga bara út frá því að hér séum við með íslenska krónu eins og í dag. Þá eigum við tvo möguleika; að halda áfram með núverandi fyrirkomulag og sjálfstæða peningastefnu sem hefur verðbólgumarkmið að leiðarljósi, eða hinn möguleikann, að festa varanlega gengi krónunnar með myntráði þannig að innlend seðlaútgáfa er þá dreifð með erlendum gjaldeyri. Viðreisn og væntanlega hv. þingmaður hafa talað fyrir þeirri leið. Hefur hv. þingmaður farið dýpra í skýrsluna en sá er hér stendur? Starfshópurinn metur það svo að þessi leið yrði stórhættuleg fyrir fjármálalegan stöðugleika. Hvernig metur hv. þingmaður þá niðurstöðu út frá stefnu Viðreisnar í þessum efnum?