149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staðan á vinnumarkaði.

[13:58]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa fyrirspurn. Skoðun mín frá því að Alþingi var sett á haustdögum hefur ekkert breyst. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum að stuðla að sem mestum jöfnuði í íslensku samfélagi. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum að bæta kjör þeirra hópa sem búa við lægstar tekjur og það er líka gríðarlega mikilvægt að þeir sem eru í efstu lögunum taki á sig auknar byrðar og séu tilbúnir til þess. Skoðun mín á því hefur ekkert breyst.

Þess vegna fagna ég mjög að bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa tekið undir að mikilvægt sé að grípa til aðgerða gagnvart hækkunum launa bankastjóra ríkisbankanna og við bíðum eftir upplýsingum frá Bankasýslunni varðandi það. Ég hef sagt það og stend við það hér að tillögur eða áherslur stéttarfélaganna um að bæta kjör tekjulægstu hópanna eru gríðarlega mikilvægar. En það er líka mikilvægt að geta gert það þannig að hagkerfið haldi áfram á því skriði sem það er vegna þess að við viljum ekki fá verðbólguskot eða óðaverðbólgu.

Ríkisstjórnin hefur lagt til fjölmargar aðgerðir, ekki bara í skattamálum, heldur líka 40 aðgerðir í húsnæðismálum sem ræddar hafa verið milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar undanfarið um frekari útfærslur sem munu m.a. hafa mjög mikil áhrif á stöðu þeirra sem eru á leigumarkaði og þeirra sem búa við lægstar tekjur. Við höfum líka verið með aðgerðir sem snúa að félagslegum undirboðum og voru aðgerðir í tíu liðum nýlega kynntar fyrir velferðarnefnd. Við höfum sagt að það séu fleiri mál sem ríkisstjórnin sé tilbúin að skoða, m.a. varðandi vexti og verðtryggingu og stuðning við fyrstu kaupendur og tekjulága um kaup á fyrstu fasteign.

Ég ætla að koma betur inn á það í seinna andsvari mínu hvaða áhrif það hefur á börn en ríkisstjórnin er búin að kynna fjölþættar aðgerðir. Hún er tilbúin með fleiri aðgerðir og að koma á auknu samtali, en til þess að það gerist verða stéttarfélög og atvinnurekendur að ná saman sín á milli.