152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[17:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott andsvar og góðar ábendingar. Ég get verið hjartanlega sammála. Það er nefnilega þannig að það skortir mjög mikið á allt gagnsæi; gagnsæi þegar kemur að lánum, gagnsæi þegar kemur að þóknunum á hinum og þessum stöðum í fjármálakerfinu og gagnsæi í því hvernig verið er að fjárfesta lífeyrinum okkar. Ég veit að það er önnur Evrópusambandsreglugerð á leiðinni í gegnum þingið, mál sem búið er að samþykkja út úr utanríkismálanefnd, sem fjallar um svokallaða greiðslureikninga. Ég þurfti nú að fletta því upp hvað væru greiðslureikningar en það eru einfaldlega bankareikningar einstaklinga sem þú getur t.d. notað til að borga reikninga með, eins og nafnið hefði kannski átt að segja mér. En eitt af því sem er í því máli er að auðvelda þér að skipta um banka og flytja þjónustu á milli, líka að þú getir auðveldlega fengið þessa þjónustu ef þú flytur á milli landa án þess kannski að þurfa að eiga sérstaka kennitölu á Íslandi. En þar er líka ein stutt lína sem skiptir neytendur máli og það er að gjaldskráin fyrir alla þá þjónustu sem fylgir greiðslureikningum sé á tæru. Þegar ég lærði um banka og bankareikninga fyrir 150 árum, eða þegar ég var ungur, þá var mér alltaf sagt að bankar væru reknir á því með því að hafa mismun á innvöxtum og útvöxtum. Svo einn daginn ákváðu þeir að leggja líka á okkur alls konar þjónustugjöld og þóknanir (Forseti hringir.) og í dag er það þannig að við erum (Forseti hringir.) í raun að borga fimm- eða sex- eða tífalt það sem fólk erlendis borgar fyrir nákvæmlega sömu þjónustu.