152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Varðandi efnisatriði 2. gr. þar sem reynt er að ná utan um skilgreiningu á samræmdri móttöku einstaklinga með vernd þá segir þar, með leyfi forseta:

„Fjölmenningarsetur skal veita móttökusveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna samræmdrar móttöku einstaklinga með vernd.“

Síðan segir hverjir séu einstaklingar með vernd í skilningi þessa ákvæðis og þar eru taldir upp fimm liðir. Einn þeirra er sá hópur sem í dag er sá hópur sem fellur innan kvótaflóttamannakerfis Sameinuðu þjóðanna. Ég endurtek að Fjölmenningarsetur skal veita móttökusveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna samræmdrar móttöku einstaklinga með vernd. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra svaraði því til að nú væri verið að fella alla hópana undir hatt réttinda kvótaflóttamanna þá er rétt að skoða hver réttindin eru í því samhengi. Um það segir:

„Flóttafólk á rétt á sérstakri aðstoð að lágmarki í eitt ár frá komu þess til landsins. Aðstoð sú sem flóttafólkið á rétt á, sbr. þó önnur ákvæði þessa kafla, er:

a. Fjárhagsaðstoð. b. Félagsleg ráðgjöf. c. Húsnæði, ásamt nauðsynlegu innbúi og síma. d. Menntun, einkum íslenskukennsla, móðurmálskennsla og samfélagsfræðsla. e. Leikskólakennsla. f. Tómstundastarf. g. Heilbrigðisþjónusta og tannlækningar. h. Þjónusta túlka. i. Aðstoð við atvinnuleit. j. Önnur nauðsynleg aðstoð.“

Að þessari upptalningu lokinni kemur fram að þetta fjalli um svokallað kvótaflóttafólk, sem er auðvitað óskaplega leiðinlegt hugtak en það er hugtak sem kerfið notar um þá sem hingað koma á þessum forsendum.

Það sem ég tel að þingið þyrfti að fá upplýsingar um er hver þessara réttinda, sem er sérstaklega tilgreint að kvótaflóttafólk njóti, hinir fjórir hóparnir munu njóta. Þeir eru taldir upp í þessari samræmingarupptalningu í frumvarpinu og eru, með leyfi forseta:

„a. einstaklingar sem fengið hafa stöðu flóttamanna skv. 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016,

b. einstaklingar sem fengið hafa dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann sem fengið hefur stöðu skv. 37. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016,

c. einstaklingar sem fengið hafa synjun um alþjóðlega vernd en fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016.“

Svo ætla ég að fara hérna yfir í e-lið, sem eru ríkisfangslausir einstaklingar, og í d-lið eru einstaklingar sem íslenska ríkið hefur boðið að setjast að hér á landi í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Það er í rauninni hópurinn sem rammar inn þau réttindi sem hér um ræðir.

Þannig að þarna eru fjórir hópar, eins og þeir eru skilgreindir í lögum, að fá þau réttindi sem kvótaflóttamenn njóta í dag. Með vísan í þessa upptalningu sem ég fór með hér rétt áðan, a–j-lið, sem snýr að kvótaflóttamönnum eins og regluverkið er í dag, þá sé ég ekkert í frumvarpinu um það hver viðbótarréttindin verða fyrir þá sem þeirra munu njóta. Það er auðvitað ekki boðlegt að setja okkur þingmenn í þá stöðu að þurfa, án þeirra forsenda, að taka afstöðu til máls sem hefur jafn umtalsverð áhrif, bæði á réttindi og þar með kostnað hins opinbera vegna þeirra sem hér eru þegar og eru á leiðinni, ef svo má segja, og sömuleiðis þeirra viðbótarumsókna sem líklegt er að verði á grundvelli þeirra breytinga sem hér um ræðir. Því það er alveg ljóst að þessi upptalning mín hér áðan á liðum a–j um hina ýmsu þjónustu sem kvótaflóttafólk á rétt á í að lágmarki eitt ár frá komu þess til landsins, eru viðbótarréttindi a.m.k. til einhverra þeirra hópa sem taldir eru upp í a–e-lið í 2. gr. Það er alveg nauðsynlegt, af því að ég renndi í gegnum framsöguræðu hæstv. ráðherra og þar kemur ekkert fram um þetta. Alþingi verður beinlínis að fá tækifæri til að glöggva sig á þessum áhrifum. Það er í rauninni miklu (Forseti hringir.) auðveldara að ná utan um þau heldur en þau afleiddu áhrif (Forseti hringir.) sem ég hef verið að kalla eftir að reynt verði að leggja mat á. En ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur í ræðu.