152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég vona að þér afsakið það að ég var aðeins of fljótur á mér áðan þegar ég boðaði það að í næstu ræðu mun ég fara yfir lausnirnar, því að ég var ekki nógu langt kominn í því að fara yfir viðfangsefnið. Það er mjög mikilvægt þegar menn ætla að finna lausnir sem virka, að vera þá búnir að komast til botns í því við hvað er að eiga. En þessi þróun sem ég hef verið að ræða hér í síðustu ræðum er farin að hafa veruleg áhrif á stjórnmál á Vesturlöndum og við sjáum það m.a. með aukinni togstreitu innan Evrópu og m.a. hefur Schengen-samstarfið verið í rauninni sett í ákveðið uppnám. Ríki eru aftur farin að beita landamæravörnum, jafnvel á milli Norðurlandanna eins og nýleg og viðvarandi dæmi sýna, svoleiðis að sú von margra Evrópumanna eða Evrópusambandsins a.m.k. að landamæri væru orðin óþörf þar í álfunni, hefur ekki ræst og orðið verulegt bakslag hvað varðar þessi markmið Evrópusambandsins. Það er ekki hvað síst vegna þessa máls sem við ræðum hér og ólíkra aðferða, ólíkra lausna ríkjanna varðandi það að fást við þetta mál. Ég rakti hér áðan að straumur flóttafólks frá ríkjum myndi aukast eftir því sem lífskjör bötnuðu þangað til að þau næðu ákveðnu marki og þar má m.a. vísa í rannsóknir Alþjóðabankans og mjög áhugaverðrar rannsóknar eða samantektar þróunarhagfræðingsins Michael Clemens sem bendir á þegar árstekjur, kaupmáttarjafnaðar árstekjur, fara í rúma 600 bandaríkjadali á ári, eins og t.d. staðan var í Eþíópíu fyrir nokkrum árum, þá byrjar straumur fólks frá landinu að aukast verulega og ekki fer að draga úr straumnum aftur fyrr en árstekjurnar, kaupmáttarjafnaðar, eru komnar í 7.500 bandaríkjadali. En þá einungis byrjar að draga úr straumnum, hann stoppar ekki. Hann heldur áfram þangað til landið er orðið mun betur statt. Svoleiðis að annars vegar liggur það fyrir að lausnir eru aðkallandi. Þetta er þegar byrjað að valda óróa innan ríkja Evrópu og á milli þeirra. Það liggur líka fyrir að umfang viðfangsefnisins mun aðeins aukast um fyrirsjáanlega framtíð. Þá dugar lítið að bregðast við með innihaldslausum frösum eða yfirlýsingum um að það eigi einfaldlega að taka á móti öllum sem vilja koma til landsins, þessa lands eða annarra.

Ég gat aðeins hér áðan um áhrif upplýsingatækninnar á þessa þróun alla en þau áhrif eru gríðarlega mikil og ekki hægt að líta fram hjá þeim. Það er annars vegar aukin tækni og möguleikar í að ferðast en einnig upplýsingatæknin og það hversu hratt upplýsingar dreifast. Við höfum aðeins imprað á því hér og notað dæmið um Finnland til að sýna hvað tiltölulega lítil breyting getur ótrúlega hratt haft gríðarlega mikil áhrif. Eitt þeirra landa í Afríku sem einna flestir hælisleitendur koma frá er Nígería. Yfir 90% íbúar landsins eiga farsíma og hátt í helmingur á snjallsíma. Oft mæta þessi lönd ákveðnum fordómum Vesturlandabúa sem hafa þá mynd í huganum að þessi þróunarlönd séu langt á eftir í allri tækni og slíku. Það á alla vega ekki við hvað varðar fjarskiptatækni og um alla Afríku er fólk búið að tileinka sér þá tækni og getur fylgst vel með þróun mála. Fyrir vikið leitar það í mjög auknum mæli leiða … (Forseti hringir.)

Herra forseti. Nú verð ég að stoppa í miðri setningu því ekki vil ég fara mikið fram yfir tímann en bið yður fyrir vikið að skrá mig aftur á mælendaskrá.