143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Einhvers staðar stendur „orð skulu standa“ og mér finnst það eiga við í þessu tilfelli, að það samkomulag sem gert var fyrir ellefu dögum standi. Mér finnst stjórnarmeirihlutinn vera ótrúlega taktlaus í þessu máli öllu, að halda að hann geti dregið stjórnarandstöðuna á asnaeyrunum í þessu máli og það standi ekki steinn yfir steini um það sem sagt er. Ef menn ætla sér að koma einhverjum málum hérna í gegn sem ég reikna með að stjórnarmeirihlutinn vilji gera fyrir vorið held ég að það sé eins gott að dusta rykið af heiðarlegum vinnubrögðum og ræða við menn þegar þeir segjast ætla að skoða þetta mál með stjórnarandstöðunni og reyna að setja í einhvern sáttafarveg.

Þá verða menn líka að virða það á báða bóga sem sagt hefur verið og telst samkomulag. Annars er það ekki samkomulag.