146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:24]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Já, mig hættir eiginlega ekki að undra að fylgjast með og velta fyrir mér hvaða augum hv. stjórnarliðar líta starf sitt. Þeir virðast líta svo á að ofan úr ráðuneytum komi einhverjir pappírar sem þurfi svo að fara í eitthvert ferli sem felst í því að við, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, tölum dálítið um það, þeir geti verið einhvers staðar annars staðar á meðan, það sé hægt að hafa smávegis skoðun á einhverju en ekki leggja fram breytingartillögur. Svo er pappírinn frá ráðuneytinu stimplaður og verður að lögum.

Þetta er önnur lýsing en ég fékk á þingmannsstarfinu. Við erum hér að ræða mál sem trekk í trekk hefur verið talað um sem mikilvægasta frumvarp þessarar ríkisstjórnar, þessa kjörtímabils. Hafa hv. stjórnarliðar engan áhuga á því sem þessi ríkisstjórn ætlar að gera? Hafa þeir áhuga á stjórnmálum yfir höfuð?