149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hv. þingmaður er þekktur fyrir að vera hrifinn af og reyna gjarnan að stunda hina fornu list, rökræðulistina, og vill gjarnan rökræða mjög djúpt hlutina þegar færi gefst á því. Það má með sanni segja að stundum vanti það einmitt í þennan sal að menn rökræði málin til hlítar, þó verð ég að segja að þakka má réttilega hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir andsvar hans við hv. þingmann áðan, þar sem menn rökræddu þetta mál sannarlega.

Þó er enn mikill skortur á því að hér komi þingmenn upp og reyni að selja okkur þá hugmynd að samþykkja þetta blessaða mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef ætti að draga saman — ég veit að það getur verið erfitt fyrir mann sem þykir rökræðulistin skemmtileg — í mjög knappt mál eða eina setningu hver innsti kjarni þessa máls er væri mjög mikilvægt að fá það fram vegna þess að það gæti kannski auðveldað að menn kæmu hingað og tækju til máls. Hver er innsti kjarninn í því að málið getur ekki náð fram að ganga eins og það er útlistað í dag?

Til vara: Hver er orsökin fyrir því að menn koma ekki hingað upp og reyna að selja okkur hinum stuðning við málið? Getur hv. þingmaður svarað því? Aðallega vil ég reyna að draga fram, eins og hv. þm. Ólafur Ísleifsson kallaði það, innsta kjarna málsins.

Það sem er mikilvægt að árétta líka, og kom fram í svari hv. þingmanns við spurningu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, er að það er ekki verið að búa til neitt nýtt í rauninni, eins og ég hef skilið þetta. Það er bara verið að þynna út þær ákvarðanir og reglur sem (Forseti hringir.) samþykktar voru 2015.