144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[11:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu og þakka hv. þingmönnum fyrir að greiða leið málsins á dagskrá hér í dag. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fresta nauðungarsölu að beiðni gerðarþola í þeim tilvikum sem umsækjandi um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána bíður endanlegrar niðurstöðu um umsókn sína. Lagt er til að heimildin verði tímabundin og falli niður 1. október 2015.

Í samræmi við aðgerðaáætlun í skuldamálum heimilanna var með lögum nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, sem gildi tóku 18. maí 2014 kveðið á um fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Nauðsynlegt þótti að fresta nauðungarsölum á meðan unnið yrði úr umsóknum um leiðréttingu og var sýslumönnum heimilað að fresta nauðungarsölum fram yfir 1. mars 2015 með lögum nr. 94/2014. Var þá gert ráð fyrir að meðferð allra leiðréttingarmála yrði lokið fyrir þann tíma. Ljóst er að lengri tíma hefur tekið að vinna úr umsóknum um leiðréttingu en upphaflega var gert ráð fyrir. Þrátt fyrir að 78% umsækjenda um leiðréttingu hafi nú samþykkt niðurstöðu ríkisskattstjóra eru enn umsóknir um 5 þús. einstaklinga óafgreiddar hjá embættinu. Þá hafa um 200 einstaklingar kært niðurstöðu ríkisskattstjóra til sérstakrar úskurðarnefndar og endanleg niðurstaða í þeim málum liggur ekki fyrir. Þykir því nauðsynlegt að fresta enn á ný nauðungarsölum í þeim tilvikum þar sem umsækjandi bíður niðurstöðu varðandi beiðni sína um leiðréttingu og því legg ég fram frumvarp þetta um áframhaldandi frestun nauðungarsölu.

Skilyrði fyrir því að sýslumaður geti frestað nauðungarsölu samkvæmt þessu frumvarpi eru öll þau sömu og samkvæmt lögum nr. 94/2014. Þannig er gert að skilyrði að um sé að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda, sem og að gerðarþoli eigi þar lögheimili og haldi þar heimili. Eins og áður getur gerðarþoli án samþykkis kröfuhafa óskað eftir fresti á því að framhald uppboðs verði ákveðið eða að það fari fram. Jafnframt verði með samþykki allra gerðarbeiðenda og hæstbjóðenda unnt að fresta uppgjöri til kröfuhafa á fasteign sem seld hefur verið við framhald uppboðs en er enn í svokölluðu samþykkisferli. Þar sem þessi frestun nauðungarsölu er sérstaklega ætluð þeim sem sótt hafa um leiðréttingu en hafa ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu er einnig gert að skilyrði að gerðarþoli bíði niðurstöðu ríkisskattstjóra á umsókn sinni um leiðréttingu eða að hann hafi fengið niðurstöðu og kært hana til úrskurðarnefndar.

Sýslumanni er heimilt að fresta nauðungarsölu í allt að þrjá mánuði í senn. Þannig er unnt að fá frestinn oftar en einu sinni að því tilskildu að viðkomandi sýni fram á að hann hafi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu. Lagt er til að heimildin falli niður 1. október 2015.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir frumvarpinu. Hjá sýslumannsembættunum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum þar sem nauðungarsölur eru flestar eru um 350 fasteignir á fresti þar sem gerðarþoli hefur sótt um leiðréttingu. Nauðungarsölur á þessum eignum munu hefjast strax eftir mánaðamótin. Það er því mikilvægt að frumvarp þetta fái skjóta úrlausn á Alþingi svo unnt verði að taka ákvörðun um frestun nauðungarsölu í þeim tilvikum þegar gerðarþoli uppfyllir þessi skilyrði um frestun.

Legg ég því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.