132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt að menn afvegaleiði ekki þessa umræðu. Það vekur athygli mína af hve lítilli alvöru talsmaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Hjálmar Árnason, tekur varnaðarorð Seðlabanka Íslands og alþjóðamatsfyrirtækisins Fitch Ratings. Í greiningu þessa fyrirtækis segir m.a. að hrein erlend skuldastaða Íslands sé hærri en nokkurs annars lands sem metið er af fyrirtækinu. Bent er á ósjálfbæran viðskiptahalla, hratt vaxandi erlendar skuldir og ríkisfjármálin. Þar eru menn að sjálfsögðu fyrst og fremst að vísa til stóriðjustefnunnar. Menn eru ekki að tala um framlag hér til öryrkja eða til einstakra málaflokka. Menn eru að tala um ríkisfjármálin í stóru samhengi.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að þetta hafi að mörgu leyti komið á óvart, eða þannig skildi ég hann. Þetta er hins vegar í samræmi við ábendingar og varnaðarorð, ekki aðeins frá Seðlabanka Íslands, ekki aðeins frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hér á Alþingi, heldur frá atvinnulífinu í heild sinni á Íslandi, sjávarútveginum, ferðaþjónustunni, hátækniiðnaðinum. Og þessar raddir hafa farið hækkandi í seinni tíð.

Staðreyndin er sú að vandann má rekja til rangrar efnahagsstjórnunar á Íslandi. Með efnahagsstjórn sinni, og þá sérstaklega stórfelldum ríkisafskiptum af uppbyggingu stóriðju og yfirlýsingum um að þar á verði framhald, hefur ríkisvaldið haft áhrif á væntingar varðandi gjaldmiðilinn á komandi árum sem síðan hefur örvað innstreymi fjármagns á íslenskan lánamarkað og valdið þenslu. Þarna er samhengið að sjá í því sem nú er að gerast.

Nú er spurningin til ríkisstjórnarinnar: Verður gerð grundvallarbreyting á? Megum við vænta breyttrar efnahagsstjórnunar (Forseti hringir.) á Íslandi á komandi tíð? Og þar er ekki síst vísað til stóriðjustefnunnar.