135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[11:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu eru að aukast þessi árin þótt vissulega miði hægt. Ég held að ég muni það rétt að eitt af mínum fyrstu þingmálum eða málafylgju á Alþingi hafi verið að leggja til að framlög Íslendinga til þróunaraðstoðar yrðu hækkuð. Þau voru þá, og reyndar lengi síðan, að hjakka í kringum 0,1% af þjóðartekjum, iðulega á bilinu 0,08% og til og með 0,1%. Og satt best að segja þegar maður lítur til baka bráðum 25 ár þá hefur þetta gengið óskaplega hægt. Það hefur tekið okkur Íslendinga langan tíma að átta okkur á að við værum ekki lengur fátæk þjóð og þróunarríki heldur þvert á móti komin í hóp velmegunarríkja sem að sjálfsögðu ættu að leggja sitt af mörkum. Má ég þá minna á að aðrar Norðurlandaþjóðir, a.m.k. þrjár, hafa fyrir alllöngu náð því að verja um og yfir 1% af þjóðartekjum samanlagt til þróunaraðstoðar, þ.e. þegar lagður er saman hlutur hins opinbera og samtaka og einkaaðila. En þannig er viðmiðun Sameinuðu þjóðanna hugsuð að hið opinbera tryggi a.m.k. 0,7% af þjóðartekjum og vonast til þess að aðrir aðilar, hjálparstofnanir og samtök, bæti þar við a.m.k. 0,3%.

Ég vil í öðru lagi segja að ég er sammála hæstv. ráðherra um að ástæða er til að taka til skoðunar og endurskipuleggja framgöngu okkar, stofnanir og stjórnsýslu á þessu sviði. Það er tvímælalaust rétt að gera það í takt við aukin framlög til þessa málaflokks. Frumvarpið er jákvætt um mjög margt og í því fólgin framför og metnaðarfull markmið eru lögð til grundvallar en önnur atriði orka meira tvímælis. Ég mun fara aðeins yfir það.

Forsaga málsins er alllöng eins og hæstv. ráðherra rakti. Nægir að staldra við þá skýrslu sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra kynnti 6. mars 2007 en það er athyglisvert að bera saman ýmislegt í framsetningu þá og nú. Í inngangi þeirrar skýrslu var t.d. sagt að hagsmunarekstur á alþjóðavettvangi sé og verði grundvallarstoð íslenskrar utanríkisstefnu. Segja má að annað hljóð sé komið í strokkinn nú þegar talað er um að þróunarsamvinna sé orðin að einum helsta hornsteini íslenskrar utanríkisstefnu. Því fagna ég að sjálfsögðu. Öðruvísi mér áður brá þegar menn þurftu að byrja allar ræður sínar á því að hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu væri vera bandaríska hersins og aðild okkar að NATO.

En það var fleira áhugavert í skýrslu utanríkisráðherra frá 2007. Þar var t.d. ályktað sem svo að það væri siðferðisleg skylda okkar að hjálpa þeim sem minna mega sín en því bætt við að það væru líka hagsmunir okkar. Þá vaknar strax í málinu áhugaverð spurning: Hvort á að vega þyngra þegar eða ef hagsmunir og siðferðislegar skyldur rekast á? Þó að málin séu sett fram með öðrum hætti nú þá hefur sú grundvallarspurning ekki gufað upp og hana þarf að hafa í huga þegar við ræðum stjórnfyrirkomulag, stefnumótun og framkvæmd á þessu sviði. Það varð reyndar dálítill stormur í framhaldi af skýrslu fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra. Framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar og stjórn gagnrýndu hana og kom til nokkuð hvassra orðaskipta þar á milli eins og menn muna en nú eru málin komin í annan farveg.

Varðandi frumvarpið er að sjálfsögðu engin deila um það að hæstv. utanríkisráðherra fari með yfirstjórn alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands. Ég hef reyndar stundum varpað fram þeirri spurningu hvort við stöndum ekki frammi fyrir því að utanríkisráðuneytið, og allt sem undir það heyrir, sé að verða svo viðamikill málaflokkur að menn hefðu kannski frekar átt að skoða það að skipta því ráðuneyti upp þegar þeir voru að grauta í Stjórnarráðinu á síðasta ári, taka formlega upp embætti aðstoðarutanríkisráðherra eða hafa ráðherrana tvo og að annar þeirra færi sérstaklega með þróunarsamvinnumál, t.d. þátttöku Íslands í alþjóðasamningum á sviði umhverfismála og slíka hluti, einfaldlega vegna þess að þessir málaflokkar eru orðnir gríðarlega viðamiklir.

Í 3. gr. er rætt um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem lögð verði fyrir Alþingi og því fagna ég. Ég held að það sé löngu tímabært fyrirkomulag að þessi stóri málaflokkur verði meðhöndlaður með svipuðum hætti og ýmis önnur viðfangsefni þar sem nú eru lagðar fyrir Alþingi framkvæmdaáætlanir eða stefnumótandi áætlanir með reglubundnu millibili. Inn í þessa áætlun á líka að taka áætlun um, og tiltaka það, hlutfall framlaga til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu af vergum þjóðartekjum sem við ætlum okkur að verja á komandi árum og þetta er að sjálfsögðu gott.

Í 4. gr. er fjallað um samstarfsráðið, sem setja á á fót, sem er blanda af kjörnum fulltrúum á Alþingi og fagaðilum. Mörg ágæt rök eru færð fyrir því að slíkt ráð eigi að koma til sögunnar og ég tel reyndar að það geti verið sjálfstætt ákvörðunaratriði óháð öðrum skipulags- og fyrirkomulagsatriðum í þessu. Ég held að þetta gæti orðið ágætur vettvangur og það sé gott fyrir pólitíkina eða stjórnmálalífið annars vegar og fagaðilana hins vegar að geta skipst á skoðunum og átt sér slíkan samstarfsvettvang.

Síðan koma atriði sem ég hef meiri efasemdir um. Í 6. gr. er talað um starf í þágu friðar. Þar er verið að fjalla um íslensku friðargæsluna svokölluðu eða friðargæsluverkefni og vísað í ákvæði sérlaga um friðargæsluna. Það tengist því að í 7. gr. er fjallað um skipulag Þróunarsamvinnustofnunar og í fylgiskjölum með málinu og þeirri skýrslu eða greinargerð sem fylgir með, um skipulag þróunarsamvinnu Íslands, eru þessir skipulagsþættir nánar ræddir. Ég hef miklar efasemdir um að fella niður sjálfstæða stjórn Þróunarsamvinnustofnunar. Ég held að stjórnin hafi í fyrsta lagi skilað ágætu starfi. Ég held í öðru lagi að sjálfstæð stjórn gefi stofnuninni meira sjálfstæði og sjálfstraust en ef hún er án stjórnar og ég held í þriðja lagi að sjálfstæð, þverpólitísk stjórn fyrir Þróunarsamvinnustofnun sé ein allra besta tryggingin sem við getum fengið fyrir því að þessi málaflokkur njóti þverpólitísks stuðnings, hann sé bakkaður upp og hafinn yfir deilur í gegnum það að honum er tryggt þverpólitískt bakland í stjórn framkvæmdastofnunarinnar á viðkomandi sviði. Auðvitað má segja að að einhverju leyti geti þetta komið í gegnum samstarfsráðið og að einhverju leyti í gegnum það hlutverk sem utanríkismálanefnd og Alþingi er ætlað en það kemur ekki í staðinn fyrir og þarf ekki að rekast á við það að Þróunarsamvinnustofnun heyri áfram undir sjálfstæða stjórn.

Ég hef miklar efasemdir um þá hugsun að blanda verkefnum íslensku friðargæslunnar saman við þróunarsamvinnuna eins og hér á að gera. Ég held að það sé ákaflega dýrmætt fyrir hina hreinu þróunarsamvinnu að hún sé hafin yfir allan vafa hvað það snertir að hún sé á sjálfstæðum, faglegum forsendum og hagsmunagæslu fyrir okkar hönd að öðru leyti eða verkefnum sem tengjast pólitík og deilumálum og jafnvel hernaðarátökum sé ekki blandað þar saman við. Þess vegna gagnrýni ég áform um að breyta skipulagi innan utanríkisráðuneytisins þannig, eins og vikið er að í greinargerð sem tekin var saman fyrir ráðherra af Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, að skrifstofa þróunarsamvinnu, sem verður nýtt svið innan ráðuneytisins, fari bæði með þróunarsamvinnumál og málefni íslensku friðargæslunnar.

Það er löngu tímabært að stofna sjálfstætt svið eða skrifstofu innan ráðuneytisins um þróunarsamvinnumál en þar á þróunarsamvinnan ein að vera. Að vísu má segja að tillagan sé málamiðlun vegna þess að eins og réttilega er bent á í greinargerðinni hafa þær hugmyndir verið uppi að leggja Þróunarsamvinnustofnun einfaldlega niður og færa verkefnin inn í ráðuneytið. Ég fagna því að horfið er frá þeim hugmyndum. Það er m.a. rökstutt með því að segja að þó að menn hafi talað um skort á samræmingu málsmeðferðar og samhæfingu í framkvæmd stefnu í málum er varða tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu hafi komið fram sú tillaga að fella starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar inn í utanríkisráðuneytið. Hér, þ.e. í greinargerðinni, í þessum tillögum til ráðherra er lagst gegn þessari leið og það er gert í ljósi þess að ýmis almenn rekstrar- og stjórnunarverkefni, sem fylgja framkvæmd tvíhliða samvinnu, samrýmast illa hlutverki og vinnuumhverfi ráðuneyta en einkum þó vegna þeirra áhrifa sem slík sameining getur haft á stefnumótunarvinnu í málaflokknum. Þessi rök eru mjög gild og veigamikil og ef þau eru yfirfærð á stjórnsýsluna, sem þarna á að taka upp, þá teikna þau í þá átt að Þróunarsamvinnustofnun sé áfram mjög sjálfstæð og öðrum verkefnum sé ekki blandað saman við hana. Það er gríðarlega viðkvæmt að halda á því inni í einu og sama ráðuneytinu og undir einni og sömu stjórninni að tryggja annars vegar algerlega faglega, sjálfstæða og óháða framkvæmd og framvindu og framlag okkar á þessu sviði til þróunarsamvinnu og hins vegar alla hagsmunagæsluna og pólitíkina sem svífur um sali í utanríkisráðuneytinu eins og skýrsla fyrrverandi utanríkisráðherra frá því í mars 2007 er mjög berorð um. Þar var ekkert verið að skafa utan af því að þarna blönduðust saman ríkir hagsmunir og pólitík.

Tökum friðargæsluna aðeins aftur og verkefnið í Afganistan. Er það virkilega svo að menn séu öruggir um að heppilegt sé að hafa það á sama sviði utanríkisráðuneytisins og þróunarsamvinnumál? Hvað stóð í leiðara eins af dagblöðunum í dag? Að gefa og þiggja í NATO. Þar er m.a. sagt að á fundi Scheffers og forsætisráðherra hafi Íslandi verið hrósað fyrir framlag sitt í Afganistan og það sé framlag Íslands sem ekki hafi her til að gera sig gildandi innan NATO. Leiðarahöfundur segir að við getum ekki búist við að hin aðildarríkin séu tilbúin að verja mannskap og fjármunum til eftirlitsflugs við Ísland nema við leggjum eitthvað af mörkum til sameiginlegra aðgerða NATO. Ég veit að vísu ekki betur en við eigum að borga þetta allt sjálf en það er önnur saga. En það langalvarlegasta í leiðaranum, ef satt er, er þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Enda var samhengi í því þegar Geir H. Haarde fór á sínum tíma fram á atbeina NATO til að tryggja eftirlit í íslenskri lofthelgi og hét um leið auknum framlögum til friðargæslunnar í Afganistan.“

Þarna er eins kristaltært og nokkuð getur verið að framlag okkar til friðargæslunnar í Afganistan er hugsað sem pólitískt og hagsmunatengt mál inn í NATO-samhengið og þetta á ekkert skylt við faglega þróunarsamvinnu. Þessu á ekki að grauta saman. Að mínu mati þarf að huga mjög vel að þessum þáttum málsins. Svo ágætt sem frumvarpið er að mörgu leyti og markmiðin jákvæð þá áskil ég mér a.m.k. rétt til að beita mér fyrir því á vettvangi utanríkismálanefndar að þetta verði athugað mjög rækilega og Alþingi fyrir sitt leyti hafi skoðun á því hvernig málaflokknum verður best fyrir komið og leyfi sér líka að hafa skoðun á því hvernig heppilegast væri að þessu væri stjórnsýslulega fyrir komið innan utanríkisráðuneytisins af því að það er mjög vandasamt að gera það svo vel fari.

Að öðru leyti vil ég segja um frumvarpið að það þarf að huga að mínu mati að ansi rúmum reglugerðarheimildum ráðherra því ekki einasta á ráðherra, skv. 7. gr., að setja Þróunarsamvinnustofnun reglugerð og nánari reglur, sem eðlilegt er, heldur er í 11. gr. ákaflega rúm reglugerðarheimild sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Utanríkisráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laganna, m.a. um hvernig þeirri stjórnsýslu sem undir lögin fellur skuli fyrir komið.“

Þarna er ansi mikið sagt hvað varðar framsal til ráðherra um að ráða þessu algerlega sjálfur. Það má eiginlega spyrja: Er þá mikil þörf á lögunum nema hafa eina grein um að ráðherra ákveði þetta í reglugerð? Ég áskil mér rétt til að skoða síðar og betur ákvæði til bráðabirgða um starfsmenn sem lítur svolítið torkennilega út vegna þess að þar virðist gerður greinarmunur á mönnum sem eru annars vegar í störfum erlendis og hinum sem starfa heima.

Upphaf greinargerðarinnar hljómar ákaflega fallega: „Hinir nýju hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu eru mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og friðsamleg lausn deilumála.“ Ég segi bravó fyrir þessu og vonandi eru þá innstæður fyrir þessu öllu, að NATO og slíkt jukk sé orðið algert aukaatriði og skipti ekki teljandi máli í utanríkisstefnu okkar, hún sé núna grundvölluð á friðarstefnu og þróunarsamvinnu og vilja til að standa með öðrum þjóðum í slíku samhengi.

Margt fleira hefði mátt nefna, virðulegur hæstv. forseti, en tíminn er liðinn. Ég bendi mönnum á að lesa í greinargerð framan við umsögn um 1. gr. það sem þar er sagt um þátttöku í starfi friðar á vegum NATO til frekari rökstuðnings þess sem ég sagði um að þessum hlutum eigi ekki að blanda saman.