150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:16]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg, það er mikilvægt að þingið komi strax að mögulegum efnahagsaðgerðum þegar svo fordæmalaust áfall skellur á hagkerfinu okkar eins og við stöndum núna frammi fyrir. Það er rétt að byrja á að hrósa stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum fyrir það hvernig tekið hefur verið á stærsta málinu í þessu, þeirri heilbrigðisvá sem blasir við okkur. Það er mjög hughreystandi að sjá hvernig okkar færustu sérfræðingar upplýsa þjóðina frá degi til dags, fræða okkur um það hvernig okkur beri að hegða okkur, hvernig við getum brugðist við, lágmarkað hættu á smiti og hjálpað heilbrigðiskerfinu að takast á við þennan vanda. Þetta er mjög traustvekjandi og verður ekki hrósað nægilega vel. Það er auðvitað mikilvægt að við hlítum öll þeim fyrirmælum sem veitt eru frá degi til dags.

Þegar kemur að efnahagsmálunum verðum við að horfast í augu við það að við vitum ekki frekar en aðrar þjóðir hvað er fram undan. Þetta er óvenjuleg staða vegna þeirrar miklu óvissu sem henni fylgir og afskaplega erfitt að segja til um hvað næstu vikur og mánuðir muni bera í skauti sér. Það gerir það svo mikilvægt að stjórnvöld dragi með efnahagsráðstöfunum sínum eins og unnt er úr þeirri óvissu sem fram undan er, geri fyrirtækjum og almenningi eins ljóst og skýrt og hægt er til hvaða ráðstafana verði gripið og til hvaða ráðstafana sé unnt að grípa til að draga úr þessu höggi.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er tvíþættur. Við erum að glíma við langvarandi niðursveiflu. Þessi efnahagsniðursveifla hófst fyrir rúmu ári og henni hefur því miður ekki verið mætt af nægjanlegri festu af þessari ríkisstjórn sem magnar upp áhrifin á atvinnulífið ofan í niðursveifluna. Við megum ekki gleyma því að ferðaþjónustan er búin að vera í mjög hörðu árferði í rúmt ár, sennilega eitt og hálft ár. Það gerir henni erfiðara en ella að takast á við það mikla högg sem kemur núna. Þess vegna þurfa viðbrögðin að vera skýr, afgerandi og fumlaus. Það er það sem ég sakna enn í yfirlýsingum stjórnvalda. Það vantar skýrleika. Hvað verður gert? Það er hughreystandi að heyra hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra tala um að við munum gera það sem þarf, en á allra næstu dögum þarf að skýrast nákvæmlega hvað felst í því.

Ég vek athygli á þeim mikla mun sem felst annars vegar í blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudaginn sem var harla innstæðulítill, því miður, mjög óskýr um aðgerðir, og hins vegar yfirlýsingu fjármálaráðherra Breta fyrir þingi í gær sem lagði fram mjög skýrar, tölusettar aðgerðir sem ríkisstjórn Bretlands hyggst ráðast í upp á 30 milljarða punda. Það samsvarar, ef við umreiknum það á höfðatölu hjá okkur, rétt tæpum 30 milljörðum kr. Það voru skýrar og afgerandi aðgerðir sem tóku mið af því sem mestu máli skiptir til skemmri tíma, að lina höggið fyrir almenning og fyrirtæki.

Hvað erum við að glíma við þar? Það er erfitt að reka fyrirtæki þegar tekjugrundvöllurinn hrynur undan rekstrinum nánast yfir nótt. Það er það sem ferðaþjónustan horfir framan í núna. Það er engin leið að sjá fyrir endann á því. Það þýðir að hætta verður á að viðbrögð fyrirtækjanna verði öfgafull, m.a. í uppsögnum, og geti ef ekki er á móti brugðist við með skýrum aðgerðum af hálfu stjórnvalda leitt til þess að það sem ætti að vera skammvinnt en mikið högg gæti orðið langvinn efnahagsniðursveifla. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að viðbrögðin séu skýr og nægjanlega mikil.

Við þurfum að hjálpa fyrirtækjum sem geta ekki gert annað en að fækka fólki við þessar kringumstæður. Það þarf að skapa svigrúm fyrir fyrirtæki til að geta sett fólk á atvinnuleysisbætur tímabundið með skömmum fyrirvara til þess einfaldlega að koma í veg fyrir að valkosturinn verði ella gjaldþrot. Það sem er hættulegast í þessu er að fyrirtæki sem standa frammi fyrir því að geta ekki fækkað fólki nægilega hratt eigi engan annan kost en að fara í gjaldþrot. Þess vegna er mikilvægt að nýta tímabundin úrræði til að færa fólk yfir á atvinnuleysisbætur til að fyrirtækin verði til staðar þegar við rísum svo aftur upp eftir það högg sem nú dynur á okkur.

Við megum ekki gleyma einyrkjum, sjálfstætt starfandi fólki sem á ekki uppsagnarrétt, veikindarétt eða neitt þess háttar. Stjórnvöld þurfa að taka undir með þessum hópi, gæta þess að réttindi hans til veikinda, atvinnuleysisbóta o.s.frv. séu til staðar og ganga frekar lengra en skemmra í þeim efnum. Í aðgerðaáætlun Breta er gert ráð fyrir því að allt að 20%, fimmtungur, vinnandi fólks kunni að vera í veikindaorlofi þegar veiran gengur hvað harðast yfir. Það er gríðarlegur baggi á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það þarf að horfa til þess í aðgerðum stjórnvalda hvernig hægt er að létta á þeirri fjárhagslegu byrði sem fylgir. Þetta eru skammtímaaðgerðirnar sem þurfa að vera afgerandi og nægjanlega miklar til að hjálpa að koma atvinnulífinu og fólkinu okkar í gegnum skaflinn fram undan.

Til lengri tíma litið megum við heldur ekki gleyma því að við þurfum að grípa til afgerandi fjárfestingaráforma á þessu ári, framkvæmda og fjárfestinga sem ráðist verði í sem allra fyrst þannig að vor og sumar nýtist okkur í framkvæmdunum og að við náum að byggja upp aðra atvinnuvegi á móti því höggi sem ferðaþjónustan er að fara að taka á sig.

Við megum heldur ekki gleyma því að hér kunna að leynast tækifæri eins og alltaf er í áföllum. Það getur vel verið að í skapandi greinum, tæknifyrirtækjunum okkar, kvikmyndaframleiðslu eða öðru leynist tækifæri við þessar kringumstæður. Þau þurfum við að nýta, gera það sem þarf, m.a. með jafnvel auknum stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki og kvikmyndaframleiðslu og annað þess háttar til að skapa störf þar sem tækifæri kunna að skapast.

Ég held að það sem mestu máli skipti sé að fyrstu aðgerðirnar núna sem verður að grípa til og kynna á næstu dögum séu afgerandi og til þess fallnar að létta verulega undir með atvinnulífinu til að koma í veg fyrir að það sem vonandi verður skammtímahögg breytist í langtímaefnahagslægð. Þar horfi ég til tryggingagjalds. Ég teldi skynsamlegt annars vegar að horfa til lækkunar þess til lengri tíma litið og jafnvel að fella það niður tímabundið gagnvart annaðhvort völdum atvinnugreinum eða atvinnulífinu í heild. Það verður líka að huga að því að það er mjög erfitt að kortleggja í þessari óvissu hversu víðfeðm áhrifin verða fyrir atvinnulífið allt. Hvernig við tökum síðan á atvinnuleysinu og skattalækkunum til lengri tíma litið er gríðarlega mikilvægt.

Síðast en ekki síst er lykilatriði að við í þessum sal stöndum saman, leggjumst öll á árarnar og grípum til þeirra úrræða sem nauðsynleg eru. Það kallar á gott samstarf meiri hlutans við minni hlutann á þingi, góða upplýsingagjöf, að þessir fordæmalausu erfiðleikar í íslensku efnahagslífi séu ekki notaðir til að slá pólitískar keilur, hvorki af hálfu meiri hluta né minni hluta, heldur að við tökumst á við þennan vanda eins og hann er. Við erum öll í sama bátnum. Við verðum öll fyrir áhrifum af þessu og við getum öll lagt okkar af mörkum til að tryggja að við komumst í gegnum þetta (Forseti hringir.) með sem minnstu tjóni.