151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:08]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, skeytingarleysið er algjört og það er svo sem ekki þannig að þetta sé eina ríkisstofnunin sem núverandi ríkisstjórn ætlar sér að tortíma. Það hefur verið gengið ansi hratt niður listann. Mig grunar að þetta hafi verið hin mesta skemmtun á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hv. þingmaður lýsti. En ég verð samt að ganga aðeins eftir þessu vegna þess að ef það er ekki misbeiting á valdi þegar farið er í það ferli að leggja niður stofnun sem á að vera til samkvæmt lögum áður en lagaleg heimild er til staðar — og ég veit að þetta eru stór orð og ég fer ekkert létt með slík hugtök, en ég velti því samt í alvörunni fyrir mér — hvað er þetta þá? Hvar liggja mörkin? Hversu langt þarf að ganga án þess að hafa fengið vilyrði þingsins fyrir svona ráðstöfun áður en við segjum: Heyrðu, nú er komið gott? Þetta mátt þú ekki sem ráðherra. (Forseti hringir.) Ég held að við verðum að vita hvert svarið er við því vegna þess að annars er mjög erfitt að hemja ráðherrana þegar þeir fá svona stofnananiðurlagningarblæti.