132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:30]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Tilefni þeirrar umræðu sem óskað var eftir að fram færi hér er sú ólga sem hefur orðið víða í nágrannalöndum okkar og reyndar um heim allan vegna frægra teikninga í Jyllandsposten. Það er rétt að velta fyrir sér um hvað sú umræða snýst í raun og veru. Það má segja að hún snúist um ólíka menningu þar sem ólíkir menningarheimar mætast og ólík viðhorf almennt til lífsins. Annars vegar getum við sagt að þar fari fram sú skoðun að hafa ómælda virðingu fyrir tjáningarfrelsinu og hins vegar virðing fyrir umfjöllun um trúarbrögð. Þar mætast menningarheimar og ólík sjónarmið. Þessi ólíku viðhorf hafa leitt til að upp úr sauð og það má segja að heimurinn óbeint logi af átökum vegna þessa.

Frú forseti. Það hafa orðið miklar breytingar í heiminum, ekki síst í formi þess að fólk hreyfir sig á milli landa og heimshluta. Um orsakir þessara flutninga má hafa mörg orð en líklega er misskipting auðæfa heimsins meginorsök en líka má finna skýringu í að víða á Vesturlöndum skortir hreinlega vinnuafl. Á mörgum stöðum bæði í Evrópu og Ameríku hafa þúsundir nýbúa sest að í nýju landi. Sú þróun hefur ágerst á síðustu árum. Allur gangur er á því hvernig sá flutningur og aðlögun hefur gengið. Þó má segja að undir niðri hafi kraumað ólga nokkuð víða. Ólga sem á rætur í ólíkum menningarviðhorfum. Viðbrögð við teikningum Jyllandsposten sýna einmitt hversu viðkvæmt þetta ástand er.

Í kjölfar þess finnst mér ástæða til að ræða ögn hvernig ástandið er hérlendis. Umræðan um útlendinga hér á landi hefur mikið snúist um erlent vinnuafl sem kemur tímabundið hingað til starfa. Ég vil hins vegar beina sjónum mínum að öðrum nýbúum, þeim sem setjast hér að til langframa. Hér hefur orðið mikil breyting á allra síðustu árum. Ætla má að þúsundir nýbúa hafi sest hér að, komandi úr ólíkum menningarheimum. Þannig munu samkvæmt tölum Hagstofunnar vera um 1.600 börn í grunnskólum landsins sem tala annað móðurmál en íslensku og hefur fjölgað um meira en helming á sjö ára tímabili. Þessi börn tala um 40 erlend mál sem sitt móðurmál. Ég hygg að um margt megi segja að aðlögun þessa hóps hafi gengið allvel hér á landi enda má ætla að Íslendingar séu nokkuð opnir fyrir nýbúum og taki þeim nokkuð opnum örmum. Við höfum líka gert margt til að létta nýjum Íslendingum hingaðkomuna. Nægir að benda á rekstur Alþjóðahúss, Alþjóðamiðstöðvar á Ísafirði, ýmiss konar námskeið á vegum félagsmálaráðuneytis, verkalýðsfélaga, atvinnurekenda, sveitarfélaga og þar fram eftir götunum, en ekki síst því að almenningur hefur upp til hópa brugðist við á jákvæðan hátt. En við hljótum að spyrja, hvort nóg sé að gert. Hættan er vitaskuld sú að þróunin hér geti orðið sem víða í borgum Evrópu þar sem heilu hverfi nýbúa hafa orðið til, íbúar þess læra ekki tungumál hins nýja lands og mynda nokkurs konar ríki í ríkinu. Þær aðstæður virðast víða hafa kallað fram menningarlega árekstra. Aðlögun þessara hópa hefur orðið lítil, börn falla ekki að skólakerfi, m.a. vegna tungumálaörðugleika og óhjákvæmilegrar spennu verður vart. Með atburðum eins og teikningum Jyllandsposten verður svo sprenging.

Ég beini því til hæstv. félagsmálaráðherra hvort ráðuneyti hans sjái fyrir sér hvernig til hafi tekist. Hvort við séum í stakk búin til að bjóða nýbúa velkomna með þeim hætti sem sómi er að fyrir þá og fyrir okkur. Þurfum við að skerpa á aðgerðum okkar þannig að nýbúar sem eiga að vera aufúsugestir í landi okkar geti lagað sig að íslenskum veruleika og notið þess að vera Íslendingar og aðrir landsmenn notið veru þeirra hér á landi? Íslendingar eru orðnir alþjóðlega sinnaðir í starfi sínu og daglegu lífi hvernig sem á er litið. Við höfum séð hvernig aðlögun nýbúa hefur misfarist í nokkrum löndum, fyrst og fremst vegna ónógs undirbúnings og aðlögunar sem hefur svo aftur leitt til menningarlegra árekstra. Við eigum að hafa þann metnað og lýðræðislegan þroska að aðlögun nýbúa hér gangi sem hnökralausast fyrir sig. Þannig leggjum við okkar af mörkum til alþjóðasamfélagsins og þannig eflum við innviði okkar sem opinnar þjóðar.