150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem fer hérna fram sem sýnir hvernig við getum unnið saman og komið á umræðu þegar þörf er á. Í nýjustu fréttatilkynningu sem ég hef fengið í dag kemur fram að 103 einstaklingar hafi greinst með Covid-19 hér á landi. Frá því í gærkvöldi hafa 15 tilfelli af veirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum verið greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Samtals hafa 103 einstaklingar verið greindir hér á landi, 80 smit tengjast ferðum erlendis, 23 innanlandssmit. Uppruni flestra þessara smita er rakinn til Norður-Ítalíu eins og við vitum og skíðasvæða í Ölpunum. Þrjú smit hafa greinst frá einstaklingum sem komu hingað frá Bandaríkjunum.

Um 1.000 sýni hafa verið tekin í heild. Þetta segir okkur að af hverjum tíu sýnum sem hafa verið tekin er einn sýktur. Við erum í þeirri furðulegu stöðu að við erum eiginlega komin á svipaðan stað og við vorum á fyrir hrun. Við verðum og eigum að læra af því sem þar var gert. VR var að senda frá sér tilkynningu og þar kemur skýrt fram að verðtryggð húsnæðislán verði fryst tafarlaust. Hvers vegna er þessi tilkynning komin til? Jú, við vitum hvernig fór í hruninu fyrir tugþúsundum heimila og við verðum líka að átta okkur á því að þeir einstaklingar sem þar urðu undir og misstu heimili sín eru að reyna í dag að byggja upp heimili sín aftur. Þeir geta ekki lent í nákvæmlega því sama og skeði á þeim tíma þegar verðbólgan fór fram úr öllu og verðtryggingin var ekki tekin úr sambandi. Okkur ber skylda til að sjá til þess að það verði gert og það strax.

Þá er einnig í gangi illvíg flensa þar sem einkennin eru ótrúlega lík Covid-19. Örugglega eru margir skelfingu lostnir yfir því hvort þeir eru með Covid-19 veiruna eða þessa venjulegu flensu. Sem betur fer ætlar Kári í Íslenskri erfðagreiningu að sjá til þess og byrja að skima fyrir henni og fólk getur þá fengið upplýsingar um það hvora veiruna það hefur.

Landspítali – háskólasjúkrahús er að fresta öllum aðgerðum nema lífsnauðsynlegum frá 12.3.–15.3. vegna þess að 11 starfsmenn Landspítalans eru í einangrun. 11 í einangrun og 92 í sóttkví. Þetta sýnir okkur svart á hvítu hversu alvarlegt ástandið er. Hæstv. forsætisráðherra talaði um laun í sóttkví. Það er frábært en í því samhengi megum við alls ekki gleyma þeim sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi, fólki sem hefur verið skilið eftir, liggur við að sagt hafi verið við það að það geti bara étið það sem úti frýs vegna þess að fullt af því hefur ekki efni á, ekki bara í byrjun mánaðarins eftir að hafa fengið lífeyrislaun sín útborguð, að kaupa mat heldur þarf að reiða sig á hjálparstofnanir. Þetta fólk hefur ekki efni á spritti, þetta fólk hefur ekki efni á mat. Þetta fólk þarf að fá hjálp og okkur ber að sjá til þess. Ég hef fulla trú á því að ríkisstjórnin muni sjá til þess með sveitarfélögunum að enginn þarna heima þurfi að hafa áhyggjur af því hvort hann eigi til matar eða ekki.

Noregur og Danmörk hafa gripið til mjög strangra aðgerða. Við erum ekki enn komin á þann stað en allt bendir til að við munum sennilega fara á þann stað. Þá þurfum við, eins og áður hefur verið sagt, að huga að því að allir sitji við sama borð. Mestu máli skiptir að aðgerðum verði hrundið af stað sem fyrst, að aðgerðir komi ekki til framkvæmda í haust heldur núna fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Ferðaþjónustan nær hámarki á sumrin og við verðum að sjá til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki fái alla þá hjálp sem þau þurfa á að halda vegna þess að þar er okkar gullegg, þar er aðalstarfsemi og mesta vinnu að hafa. Okkur ber skylda til að sjá til þess að þar verði vel tekið á og að þau lifi af þá krísu sem nú er í gangi.

Það þarf að tryggja að rekstur Icelandair verði ekki fyrir miklum skakkaföllum. Það er nauðsynlegt að við höfum a.m.k. eitt flugfélag sem flýgur til og frá landinu og við verðum að senda Bandaríkjamönnum skýr skilaboð um að við líðum ekki að þeir setji á okkur ferðabann.

Mikilvægt er að grípa til félagslegra aðgerða. Veiran hefur áhrif á þá sem reiða sig á félagslega aðstoð samfélagsins, eins og ég sagði áðan, og það þarf að athuga hvort efla þurfi aðstoð við fólk með fötlun og sjúkdóma. Mikilvægt er að efla mönnun á sjúkrastofnunum og umönnunarstofnunum, sambýlum og annarri samfélagsþjónustu. Við þurfum að undirbúa aðgerðir sem hægt verður að grípa til ef stór hluti fólks sem sinnir umönnunarstörfum þarf að fella þau niður vegna veikinda eða vegna þess að þau fara í sóttkví eins og hefur komið fram á Landspítalanum. Ef við fjölgum tímabundnum stöðugildum í þessum greinum getum við samtímis fyrirbyggt mönnunarvanda ef faraldur versnar og dregið úr atvinnuleysi. Það þarf að tryggja betur aðstoð til hinna fátæku eins og ég hef komið inn á. Ríkisstjórnin þarf að grípa til aðgerða sem koma í veg fyrir að fátækt fólk sem veikist eða þarf að fara í sóttkví verði fyrir tekjumissi eða útgjaldaaukningu vegna þess.

Við verðum að sjá til þess að allir fái þá aðstoð sem á þarf að halda. Við verðum líka að hafa í huga að við erum með stóran hóp af fólki þarna úti, um 30.000 manns, sem er í fátækt og hefur lifað í fátækt áratugum saman, fátækt sem hefur valdið því að heilsa þess hefur versnað og er mun verri en annarra þegna þjóðfélagsins. Það hefur sýnt sig að það er að missa um tíu ár af ævi sinni vegna fátæktar, lélegs fæðis og lélegrar heilbrigðisþjónustu, af því að það hefur ekki efni á öðru. Þetta verðum við að tryggja vegna þess að við höfum gert það að einhverjum vana að skilja þetta fólk eftir uppreiknað samkvæmt neysluvísitölu, ekki látið launavísitöluna fylgja því. Við verðum líka að tryggja og sjá til þess að þeir sem eru á lífeyrislaunum, öryrkjar, eldri borgarar og atvinnulausir, lægst launaða fólkið í landinu, fái líka nýgerða kjarasamninga. Við eigum að tryggja að þeir verði ekki lakar settir en þeir sem eru á lægstu launum í þjóðfélaginu og því ber líka að þakka og við eigum að sjá til þess og eigum að vera viðbúin því að standa saman vegna þess að þetta varðar okkur öll. Við eigum að sjá til þess að enginn verði skilinn út undan. Við berum ábyrgð á því að hlutirnir gangi upp eins og til var sáð.