150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[16:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

Ef mér væri gert að telja saman alla þá starfshópa sem hafa skilað tillögum um bættar forvarnir og allar þær áskoranir sem stjórnvöldum hafa borist þess efnis og alla þá alþjóðasamninga sem setja okkur þær skyldur á herðar að sporna gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi með forvörnum myndi mér tæplega endast ræðutíminn hér í slíka upptalningu. Með öðrum orðum vil ég segja að sú heildstæða stefna og aðgerðaáætlun sem hér er lögð fram er löngu tímabær. Þessi stefna er ekki afrakstur einnar nefndar þótt nefndin sem hafi unnið stefnuna eigi svo sannarlega heiður skilinn. Stefnan er afrakstur samfélagslegrar vitundarvakningar, pólitískrar umræðu, opinberrar stefnumótunar, fræðilegra rannsókna og þrotlausrar baráttu félagasamtaka og einstaklinga.

Vitundarvakning um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni hefur staðið yfir áratugum saman. Íslenskt samfélag stendur í þakkarskuld við öll þau sem hafa dregið vagninn og hannað fræðsluefni, unnið rannsóknir, mótað stefnu, dreift bæklingum, aðstoðað þolendur, tjáð sig opinberlega, heimsótt skóla, talað við börn og unglinga, fagfólk og foreldra, haldið úti umræðu á samfélagsmiðlum og svo mætti lengi telja.

Þingsályktunartillagan sem hér er mælt fyrir byggir á fyrri stefnumótunarvinnu stjórnvalda um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni. Hún sækir fyrirmynd til vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum sem stóð yfir á árunum 2012–2015, hófst sem sagt í ríkisstjórninni sem ég átti sæti í þá ásamt fleirum, og átti rót í samningi Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum, einnig þekktur sem Lanzarote-samningurinn. Með vitundarvakningunni var í fyrsta sinn unnið markvisst þvert á ráðuneyti að forvörnum gegn ofbeldi gegn börnum og var fræðslu og forvörnum fyrst og fremst beint að börnum, fólki sem vinnur með börnum og að réttarvörslukerfinu.

Við gerð tillögunnar er byggt á þessari reynslu og fulls samræmis hefur einnig verið gætt við áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, sem samþykkt var á þingi í júní 2019. Sú áætlun var unnin á grundvelli samstarfsyfirlýsingar fjögurra ráðherra í núverandi ríkisstjórn og viðamikils samráðs, bæði á landsvísu og innan svæða, milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds. Tryggt hefur verið að þessi stefnumótun sé einnig í takti við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í barnavernd sem samþykkt var á Alþingi vorið 2019 og samstarf félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra um breytingar í þágu barna. Þá hafa tillögurnar verið mótaðar með hliðsjón af lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, nr. 45/2019. Þessi áætlun er einnig í beinu samhengi við aðrar aðgerðir stjórnvalda til upprætingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Má þar nefna aðgerðir sem ráðist hefur verið í í kjölfar #églíka eða #metoo-bylgjunnar, mótun stefnu til verndar kynferðislegri friðhelgi, gegn stafrænu kynferðisofbeldi og tillögur um bætta réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum.

Þá er rétt að víkja að metnaðarfullri aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota sem nú er unnið eftir innan dómsmálaráðuneytisins en til hennar voru veittar tæplega 300 millj. kr. á ársgrundvelli, auk þess sem 280 milljónir eru veittar til að uppfæra verklagsreglur og gæðastaðla og tryggja rafrænt gagnaflæði.

Aðgerðaáætlunin á sér langa sögu og byggir á starfi sem hófst í tíð fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, og var svo haldið áfram af eftirrennurum hans allt til dagsins í dag. Það er áhugavert því að slík samfella næst sjaldnast í ráðuneytum þar sem ólíkir flokkar fara með forystu og ráðherraskipti geta verið tíð. Ég tel mikilvægt að halda þessu á lofti hér á Alþingi enda er mikilvægt að við myndum þverpólitíska samstöðu um aðgerðir til að uppræta kynbundið og kynferðislegt ofbeldi.

Virðulegur forseti. Gjarnan er spurt, af hverju kynferðislegt og kynbundið ofbeldi en ekki bara allt ofbeldi. Slíkar spurningar eiga rétt á sér og vissulega er markmiðið að uppræta allt ofbeldi í samfélaginu. Hins vegar verðum við líka að líta til sérstöðu kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni, enda er sérhæfð umfjöllun nauðsynleg til að geta upprætt það. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni á sér oft stað í samskiptum þar sem valdaójafnvægi er fyrir hendi, til að mynda að fullorðinn eða eldri einstaklingur beiti barn ofbeldi eða karl beiti konu ofbeldi. Ofbeldi og áreitni getur jafnframt haft mismunandi birtingarmyndir eftir því að hverjum það beinist. Ofbeldi gegn fötluðu fólki getur haft aðra birtingarmynd og fötluð börn og ungmenni geta verið útsett fyrir ofbeldi og áreitni á annan hátt og á öðrum stöðum en börn sem ekki eru fötluð. Konur eru í miklum meiri hluta þolenda og karlar í miklum meiri hluta gerenda og umfjöllun þarf að taka mið af því. Þó skal ætíð gæta að því að ofbeldi og áreitni getur beinst gegn einstaklingum af öllum kynjum. Gerendur geta jafnframt verið af öllum kynjum.

Í samfélagsmiðlabylgjum á borð við #églíka eða #metoo og #höfumhátt var dregið fram hversu algengt kynbundið ofbeldi og áreitni er í okkar samfélagi, svo algengt að það jaðrar við að vera hversdagslegt. Viðfangsefnið er að breyta því og til að breyta því þurfum við að geta fjallað sérhæft um eðli og afleiðingar slíks ofbeldis.

Í tillögunni er sett fram sú framtíðarsýn að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér hvergi stað í íslensku samfélagi. Vísað er til þess að ofbeldi og áreitni er samfélagslegur vandi og því þarf að uppræta þá þætti í samfélagsgerðinni sem leyfa slíku ofbeldi að viðgangast. Það er bæði orsök og afleiðing annars kynjamisréttis og verður einungis upprætt með samhentu átaki sem byggir á djúpstæðum skilningi á eðli og afleiðingum slíks ofbeldis. Öflug forvarnastefna er lykilþáttur í þeirri vegferð. Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja ofbeldi og áreitni en einnig að draga úr þeim skaða sem slík háttsemi hefur á þolendur og aðstandendur þeirra. Markviss viðbrögð við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og hegðun sem ýtir undir slíkt er liður í forvörnum til framtíðar. Þannig er ekki einungis nægjanlegt að fjalla um ofbeldi og áreitni heldur þarf einnig að ýta undir samskipti sem einkennast af virðingu og jafnrétti milli fólks.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að forvarnir verði samþættar kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum og eigi sér einnig stað innan frístundaheimila og félagsmiðstöðva, í íþrótta- og æskulýðsstarfi og í öðru tómstundastarfi. Þannig er leitast við að ná til allra barna og ungmenna og byggja upp samskipti þar sem kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni fær ekki þrifist. Mikilvægt er að beina forvörnum í gegnum skólastarf til að tryggja að öll börn öðlist þekkingu á eðli og afleiðingum ofbeldis. Gert er ráð fyrir að ráðast í gerð námsefnis fyrir öll skólastig auk fræðsluefnis um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum.

Til að tryggja framfylgni áætlunarinnar er lagt til að Samband íslenskra sveitarfélaga ráði sérstakan forvarnafulltrúa sem vinni með skólaskrifstofum sveitarfélaga, og skólum og leikskólum utan skólaskrifstofu, að því að miðla þekkingu og fræðslu til grunnskóla og leikskóla um land allt. Fulltrúinn hafi jafnframt skilgreint hlutverk gagnvart framhaldsskólum þó að þeir heyri ekki undir sveitarfélögin en með því móti má tryggja bæði sérhæfingu og samræmingu forvarna milli skólastiga. Þá er gert ráð fyrir að beina fræðslu að fólki sem starfar með börnum, bæði til að tryggja heilbrigð samskipti og inngrip þar sem við á og til að tryggja að hlustunarskilyrði séu í lagi þegar börn greina frá ofbeldi. Meðal annars verði útbúin sérstök netnámskeið og er vonin sú að allt starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum geti tekið slík námskeið. Þau eru þó aðeins grunnurinn og mikilvægt að fræðsla fari einnig fram innan skóla, stofnana og félaga með opinskárri umræðu. Allt of mörg dæmi eru um að börn reyni að greina frá reynslu af ofbeldi og áreitni oftar en einu sinni áður en þau fá viðeigandi aðstoð. Í slíkum tilfellum geta ofbeldismenn tekið sér skilgreiningarvald yfir því hvað hefur í raun og veru gerst og fyrir vikið líður oft langur tími frá því að ofbeldi er framið þar til þolandi leitar sér aðstoðar. Að stytta þennan tíma er til mikilla hagsbóta bæði fyrir þolendur sem fá þá aðstoð fyrr og losna ef til vill úr vítahring ofbeldis og fyrir samfélagið þar sem meiri líkur eru á að gerendur þurfi að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Það hefur forvarnagildi í sjálfu sér að rjúfa þögnina þar sem ofbeldismenn eru ólíklegri til að geta haldið áfram að beita ofbeldi í skjóli þagnar.

Í tengslum við stefnumótunina sem liggur til grundvallar þingsályktunartillögunni var efnt til víðtæks samráðs við stofnanir, félagasamtök og fræðafólk sem starfar að forvörnum og drögin voru jafnframt kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Voru nokkrar breytingar gerðar á áætluninni til að bregðast við athugasemdum umsagnaraðila. Einkum lúta þær að betri útfærslu hvað varðar forvarnir gegn ofbeldi og áreitni sem beinist gegn fötluðum börnum og ungmennum. Fötluð börn og ungmenni eiga að fá sömu fræðslu og önnur börn, bæði hvað varðar kynlíf og kynheilbrigði og hvað varðar ofbeldi og áreitni, þótt í einhverjum tilfellum kunni að vera ástæða til að vinna að nánari útfærslu á námsefni, t.d. á auðlesnu máli.

Ætlunin er að forsætisráðherra muni bera stjórnsýslulega ábyrgð á aðgerðaáætluninni en hún byggir augljóslega á náinni samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra vegna þátttöku ráðuneyta þeirra og fagstofnana þeirra. Heildarkostnaður við framkvæmdina er metinn töluverður eða á tæpar 160 millj. kr. næstu fimm árin, en hljóti tillagan brautargengi hér á Alþingi verður tryggt fé til áætlunarinnar innan ramma forsætisráðuneytis.

Herra forseti. Ég hóf mitt mál á því að vísa til þess að sú stefnumótun sem hér liggur fyrir er löngu tímabær. Þrátt fyrir mjög viðamikið starf víða í samfélaginu í þágu forvarna hefur aldrei verið mótuð heildstæð stefna um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Eftir slíku hefur þó ítrekað verið kallað auk þess sem ríkar kröfur hvíla á íslenskum stjórnvöldum vegna alþjóðlegra skuldbindinga, m.a. í tengslum við samninga sem tryggja réttindi barna, réttindi kvenna og réttindi fatlaðs fólks. Eins og okkur finnst nú ekkert leiðinlegt að segja frá hefur Ísland vakið athygli fyrir góðan árangur í kynjajafnréttismálum á heimsvísu, en ef við ætlum að standa undir nafni þá er það skylda okkar að láta ekki þar staðar numið heldur halda áfram að uppræta kynbundið misrétti. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er skýrasta birtingarmynd misréttisins, bæði orsök þess og afleiðing.

Ég vona því að tillagan fái góðan hljómgrunn á Alþingi og faglega umfjöllun. Ég óska eftir því að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.