151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að ræða eða lesa nýja fjármálaáætlun til að komast að því hvort setja eigi meira í menntamálin því að það er gamla fjármálaáætlunin sem er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar og við erum búin að fjalla um hana og einmitt gagnrýna það að ekki sé nægilegt fjármagn sett í menntamál eða uppbyggingu sem þó er verið að tala um í þeirri stefnu. Fjallað er um starfs-, iðn- og tækninám. Gera á skurk í því að fá ungt fólk til að læra meira á því sviði. Það er nú samt svo, forseti, að undanfarna áratugi hafa verið sett upp slík markmið og framhaldsskólarnir og starfsmenntaskólarnir hafa reynt að kynna það, og grunnskólarnir líka. Það er búið að búa til bækur og myndbönd og spil og ég veit ekki hvað, og enn stöndum við í nákvæmlega sömu prósentuskiptingu á milli starfsnáms og bóknáms. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji eitthvað í samfélagsgerðinni öðruvísi núna þannig að betur takist til við þetta en undanfarna áratugi.