151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um þingsályktunartillögu um menntastefnu fyrir næstu tíu ár, eða níu, frá 2020–2030. Það varð mjög góð umræða í nefndinni og komu til okkar, eins og framsögumaður benti á, gestir sem lögðu ýmislegt gott til málanna og gögnuðust okkur vel við vinnuna og við að setja fram þetta nefndarálit og horfa með okkur til framtíðar.

Ég vil fyrst og fremst segja að þetta er rammi utan um þá vinnu sem fram undan er. Henni er skipt upp í þrjú innleiðingartímabil og við upphaf hvers tímabils á að leggja fram áætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum. Það er afskaplega mikilvægt að við getum mælt það sem við erum að gera og ekki síst í skólakerfinu. Ég held að það sé til þess fallið að bæta kerfið enn frekar. Það á að leggja fyrstu áætlunina fram innan sex mánaða, þ.e. í síðasta lagi í október. Skemmtilegast væri ef okkur tækist að gera það innan þess ramma en annars verður það í höndum nýs menntamálaráðherra í október að koma fram með slíka aðgerðaáætlun, ef það tekst ekki á þeim tíma sem eftir lifir fram að kosningum.

Lögð var áhersla á að gera þessar áætlanir í samvinnu við alla þá sem að þessum málum koma en ég vil sérstaklega minna á ungmennaráð. Ég held að það sé mjög mikilvægt, þegar lagt verður af stað við innleiðingaráætlanirnar, að þá séu ungmennaráðin höfð með í vinnunni. Þau gleymast of oft þegar við erum að fjalla um þeirra umhverfi. Auðvitað þarf að fylgja þessu vel eftir og við drögum það fram í nefndarálitinu að einnig þurfi að líta til þeirrar vinnu sem unnin hefur verið fram til þessa. Það er mjög mikið til af margs konar gögnum, skýrslum og ýmsu öðru, sem er hægt að nota og flýta þannig fyrir innleiðingunni í staðinn fyrir að byrja upp á nýtt eða eitthvað slíkt. Við erum hér með samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda. Það er t.d. skýrsla sem var unnin um náms- og starfsráðgjöf og margt fleira sem er til, um hlutverk samræmdra prófa, af því að þau hafa verið mikið í umræðunni, um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og eins og var nefnt hér síðast, um nýliðun í kennaranáminu. Það er því margt til sem við getum nýtt í vinnunni fram undan og til að hraða henni.

Það er rétt sem kom fram í gagnrýni áðan að þessari menntastefnu er ætlað að ná utan um allt menntakerfið, allt frá leikskóla til sí- og endurmenntunarkerfisins og sá þáttur varð dálítið út undan. Við leggjum hér til að það verði haft til hliðsjónar þegar aðgerðaáætlanirnar verða unnar. Þegar við vorum að fjalla um þetta vorum við líka að ræða að það þyrfti að liggja fyrir skýr verkáætlun og stefna, forgangsröðun og allt það, hverjir bæru ábyrgð og hefðu hlutverki að gegna við innleiðingu á hverjum tíma, og útfærsla þeirra aðgerðaáætlunar sem er undir hverju sinni, þ.e. að skýrt sé hverjir bera ábyrgð á verkefnunum sem sett verða í forgang á hverjum tíma og hverjum ber að fylgja þeim eftir fyrir utan Alþingi. Ég talaði um það áðan að hafa þyrfti samráð við alla og hér kemur fram að það á ekki bara við nemendurna í skólunum heldur skiptir líka miklu máli að hafa samband við ungmennaráðin. Þau ná oft utan um fjölbreyttari hópa og ég hugsa að það geti verið ákveðið úrtak.

Nú hefur auðvitað mikið og oft verið rætt um námsframboð fyrir fólk með fötlun og það hef ég sjálf tekið upp í þingsal. Það er sannarlega mikið verk fram undan þar. Það hefur í rauninni ein námsleið verið í boði í háskólanum sérstaklega eftir að nemendur hafa lokið framhaldsnámi og hún er bara í HÍ. Það er alls ekki ásættanlegt að nemendur hvaðanæva af landinu þurfi í raun að taka sig upp og fara þangað og þau geta það jafnvel ekki, eru ekki í færum til þess vegna fötlunar sinnar eða annars. Það skiptir máli að við horfum aðeins út fyrir rammann, ég tala nú ekki um í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum öðlast í kófinu með fjarkennslu og öðru slíku, að nemendur með fötlun geti einmitt notið þess með stuðningi að heiman eða úr heimaskóla. Þarna eigum við færi.

Auðvitað þarf að halda vel utan um alla nemendur, sérstaklega þá sem standa verr í kerfinu eins og nemendur af erlendum uppruna. Ég minnist aftur á landsbyggðina, að allir nemendur geti fundið sér nám við hæfi hvar sem þeir búa og hvaðan sem þeir koma. Þekkingin á tækninni sem við höfum öðlast skiptir hér gríðarlega miklu máli.

Svo er það stuðningurinn sem við tölum gjarnan um þegar kemur að skólamálum og í þinginu er einmitt mál félags- og barnamálaráðherra þar sem verið er að samþætta þjónustu gagnvart börnum. Þar er lögð áhersla á snemmtækan stuðning, samfellu í þjónustu og samvinnu þvert á málaflokka. Þetta er mjög mikilvægt þegar við hugsum til þess að veita nemendum, hvar sem er á landinu, viðhlítandi stuðning. Ég held að það þurfti ekki að vera óskaplega kostnaðarsamt eða flókið. Kennarastéttin þekkir þetta afskaplega vel sem og þeir fagaðilar sem hafa komið að slíkum stuðningi innan skólakerfisins.

Ég tek undir það þegar því er haldið fram að efla þurfi sérstaka áfanga þegar kemur að jafnrétti og kynjafræði og áhrifum þess og einnig slíka fræðslu fyrir kennara, svo að þeir geti veitt hana. Þannig verða nemendur meðvitaðir um stöðu sína og viðhorf þegar horft er til kynjamisréttis, bæði þegar kemur að vinnumarkaðinum og ekki síður í náminu fram að þeim tíma.

Við erum búin að ræða til fjölda ára, áratuga líklega, fjölbreytt nám, þ.e. að ekki bara bóknám heldur verk-, starfs- og listnám eigi að standa nemendum til boða. Ef einhver hefði nú svarið við því hvers vegna ekki hefur tekist betur til hingað til við það, af því að það snýr jú auðvitað ekki bara að peningum heldur að viðhorfi. Það snýr jafnvel að viðhorfi foreldra sem ýta gjarnan á að börnin klári stúdentsprófið svo þau eigi einhverja möguleika til framtíðar. Það er viðurkennt að þetta sé einn af stóru þáttunum þegar kemur að vali nemenda á námi og það er kannski partur af því að drengir, af því að þeir hafa verið nefndir, finna sig ekki endilega innan námskerfisins. Ég tek undir með framsögumanni, ég held að það sé lag núna að breyta. Það hefur sannarlega verið lögð mikil áhersla á þetta undanfarið og verið reynt að ýta því dálítið hraustlega úr vör og ég vona að það gangi eftir. Mér finnst samfélagið vera með annars konar viðhorf en oft hefur verið áður, maður finnur meira fyrir því í samtölum við fólk. Ég vona svo sannarlega að það sé eitthvað sem við sjáum fljótlega árangur af og að nemendur, strákar og stelpur og öll kyn, sæki meira í fjölbreyttara nám og brjótist út úr þessu kynjaða náms- og starfsvali. Þar er svo mikilvægt að margir komi að og hjálpi til við að brjóta glerþakið.

Það er dálítið sláandi þegar maður fær umsögn frá sálfræðingum sem segja okkur að þroskaprófin sem eiga að mæla stöðu nemenda séu úrelt, þau séu bara ónýt og ekki hægt að nota þau, að það beri enginn ábyrgð á því að þau séu til staðar og hvað þá að þau uppfylli þau skilyrði sem þeim ber. Við áréttum það í þessu nefndaráliti og hvetjum ráðherra til að kippa því í liðinn og bæta úr ekki seinna en strax þannig að þau góðu mælitæki nýtist til aðstoðar við þá nemendur sem þess þurfa og skólar hjálpi kennurum og starfsfólki við að aðstoða þá nemendur á sem bestan hátt.

Þegar rætt er um kennarastarfið og starfsumhverfi í skólum þarf að huga að því að það sé gott. Við heyrum allt of mikið um kulnun í kennarastéttinni sem segir okkur að eitthvað sé ekki alveg eins og það á að vera. Við höfum t.d. ekki náð þeim viðmiðum sem við ætluðum okkur þegar kemur að leikskólakennurum. Þar er allt of margt ófaglært fólk, sem er hreint ágætt og allt það, en við höfum sett okkur markmið um að fjölga menntuðu fólki. Það hefur ekki tekist. Við þurfum að ná utan um vinnuumhverfið. Við þurfum að ná utan um launaþáttinn. Þetta þarf að vera vel borgað starf þannig að fólk endist í því og finnist gaman að mæta í vinnuna og þar segi ég enn og aftur; ekki bara konur heldur líka karlar og öll þau kyn sem þar vilja starfa.

Það komu fram sjónarmið um að bæta þurfi ákveðnum þáttum í kennaramenntun, ekki bara ólíkum kennsluaðferðum, sem eru jú sannarlega til staðar og eru í kennaranáminu, heldur kynfræðslu og fræðslu um öryggi í stafrænu samfélagi, alls konar læsi, fjármálalæsi eða hvað það nú er annað, og fræða um fjölbreytni samfélagsins þannig að kennarar séu betur í stakk búnir til þess að miðla því áfram til nemenda sinna. Komið hefur fram að það eru ekki allir sem telja sig í stakk búna til að gera það svo sómi sé að og hefur verið rætt að ekki sé nógu vel farið yfir þau mál í náminu.

Við ræðum líka í nefndarálitinu um annað fagfólk í menntakerfinu en kennara og það tengist oftast nær umræðunni um þau úrræði sem nemendur og börn þurfa á að halda innan skólakerfisins til þess að þau njóti sín sem best og fái stuðning og hjálp til að eflast í námi. Þar skiptir fjölbreytni mjög miklu máli. Hafandi starfað í skóla þar sem voru fyrir utan kennara og almennt stuðningsfólk iðjuþjálfi, þroskaþjálfi, sálfræðingur og náms- og starfsráðgjafi þá þekki ég það af eigin raun hvað slíkt þverfaglegt samstarf skiptir gríðarlega miklu máli og gengur nemendum í kjölfarið miklu betur. Þeim gengur miklu betur, það er bara svo einfalt. Eitt af því sem við þurfum að gera, eins og hér er nefnt, til að standast samanburð við nágrannalöndin er akkúrat þetta sem ég hef verið að fara yfir.

Þegar við tölum um hæfni- og þekkingarþróun, sem sagt starfsfólk innan kennarasamfélagsins, þá erum við ekki bara að meina kennara og skólastjórnendur heldur m.a. þær fagstéttir sem ég hef talið upp. Vil ég þá sérstaklega árétta náms- og starfsráðgjafa af því að þeir hafa hlutverki að gegna innan skólanna, þetta er lögverndað heiti, og eiga t.d. að vera í hverjum grunnskóla.

Varðandi hæfni fyrir framtíðina, og það er hægt að tala lengi og mikið um þetta þegar maður þekkir geirann ágætlega, þá er farið aðeins í lestrarkennsluna og það sem henni tilheyrir. Ég hef verið talsmaður þess að við einblínum ekki eingöngu á leshraða heldur á lesskilning. Það er gríðarlega mikilvægt að geta lesið sér til gangs og að mínu mati það fyrsta sem við eigum að gera þegar við erum að kenna börnunum okkar að lesa að ræða við þau um það sem þau eru að lesa til að vita hvort þau skilji orðin og samhengi þeirra. Það sýnir að mínu mati hæfileikann til að lesa sér til gagns. Við erum auðvitað búin að vera með þjóðarsáttmála um læsi og höfum tekist á við það og þetta er eitt af því sem við teljum að við eigum að líta til þegar við förum í framhaldsvinnuna. Eins og hér hefur verið sagt og talið upp þá er til alls konar læsi og fyrir utan það sem kemur fram í nefndarálitinu, tæknilæsi, upplýsingalæsi, náttúrulæsi og allt þetta, er mikilvægt að geta metið t.d. þær stafrænu upplýsingar sem maður sækir sér. Það kom nefnilega til tals þegar nemendur fóru að taka heimapróf í Covid hvort það væri hægt að svindla og annað slíkt. Ég lít eiginlega ekki á það sem svindl vegna þess að það er fyrst og fremst hæfni til að greina upplýsingar sem maður finnur á netinu, af því að þær eru ekki allar sannar. Það er eitt af því mikilvæga.

Ég vil líka taka undir að bókasöfnin eru gríðarlega mikilvægur þáttur í því að hafa gaman af því að lesa og njóta þess að eiga samverustundir, skólahópar og annað slíkt. Það kennir nemendum að nýta söfnin og eykur lestraráhugann.

Varðandi aftur starfs-, iðn- og tækninám þá heyrðum við það hjá framhaldsskólanemum á fundi allsherjar- og menntamálanefndar, og það kemur fram í umsögn þeirra um annað mál sem við erum með til umfjöllunar, að byrjað sé of seint að fræða nemendur um það sem fram undan er sem sé kannski hluti af því að nemendur eru seinir að ákveða sig og rati frekar í bóknám, af því að hinir eru að fara þangað og það er ákveðin hjarðhegðun í gangi. Ég vil ítreka, af því að ég þekki aðeins til eins og ég hef sagt hér nokkrum sinnum, að náms- og starfsráðgjafar hafa sérstaklega það hlutverk í grunnskólum að fræða nemendur um starfsval og námsval og annað slíkt. Ég brýni bara alla þá sem að þessu koma til að viðhalda því jafnt og þétt, bæði í grunnskólanum og eins þegar kemur á framhaldsskólastigið, hvað sé fram undan, hvað það þýði að ætla að leggja eitthvað fyrir sig og hvað maður þurfi til að geta farið í svona eða hinsegin háskólanám, að það sé gert frekar snemma en seint.

Hér komum við aðeins inn á, virðulegi forseti, að kortleggja þurfi menntunar- og færniþörf þegar við erum að horfa á áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Þó að ég sé frekar á þeirri línu að við eigum að læra það sem okkur langar til en ekki endilega það sem samfélagið kallar eftir þá þarf mjög mikilvægt samtal að eiga sér stað á milli nemenda, foreldra, kennara og náms- og starfsráðgjafa um hvað sé fram undan.

Í lok álitsins, virðulegi forseti, er talað aðeins um námsefni og námsefnisgerð. Eitt af því sem við þurfum að huga mjög vel að er að vera ekki að endurnýja úrelt námsefni heldur auka útgáfu fjölbreytts námsefni og á fjölbreyttum miðlum, ekki bara bókina heldur líka á hinu stafræna formi. Við þurfum líka að sameina og samþætta dálítið. Það er verið að gefa út víðar en bara hjá þeim sem tilheyra námsgagnaútgáfu ríkisins, t.d. eru gefnar út almennar bækur sem eru nýttar í námi. Það á að nýta peningana vel og eiga samtal og samstarf við slíka aðila.

Virðulegi forseti. Nú er tíminn að verða búinn. Að lokum vil ég segja að það gleymdist í stefnunni að íslenskt táknmál er jafn rétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna. Það er mjög vont en við leiðréttum það í nefndarálitinu.