136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Allt aðrar aðstæður eru uppi nú en á síðustu 18 árum. Við erum að tala um minnihlutastjórn, sem einn flokkur ver vantrausti, en ekki um meirihlutastjórn. Vinstri grænir hafa í gegnum tíðina sagt að hleypa ætti stjórnarandstöðunni að, t.d. með því að hún fái þingforseta. Fyrsta verk minnihlutastjórnar er að keyra í gegnum þingið breytingar á embættinu. Þannig að þetta er mjög sérstakt og ég vil ítreka að Framsóknarflokkurinn stendur greinilega að þessu.

Ég vil nýta tækifærið og þakka hæstv. forseta Sturlu Böðvarssyni sérstaklega fyrir vel unnin störf. Hann hefur sinnt starfi sínu af mikilli fórnfýsi og hefur svo sannarlega styrkt þingið með þeim breytingum sem hann hefur komið í gegn með okkar tilstuðlan. Þingið hefur eflst og styrkst á síðustu árum. Um það er enginn efi.