138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

178. mál
[15:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka sérstaklega mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svörin. Af því að við stöndum oft hér í orðaskaki, stjórnarþingmenn og stjórnarandstaða, er rétt að fagna því og draga fram það sem vel er get. Í þessu mikilvæga máli um atvinnulaus ungmenni er gríðarlega mikilvægt hvernig kerfið getur farið í samvinnu til að byggja upp okkar unga fólk til lengri tíma litið, koma því í gegnum þá erfiðu tíma sem felast í því að standa frammi fyrir atvinnuleysi. Ég þakka fyrir það sem vel er gert.

Ég spyr hins vegar hæstv. menntamálaráðherra beint í þessu samhengi út í framhaldsfræðsluna. Ég veit að fyrir rúmu ári var nokkurn veginn tilbúið frumvarp í ráðuneytinu um framhaldsfræðslu, sumir kalla það fullorðinsfræðslu. Það þurfti að klára ákveðna þætti í tengslum við ASÍ og BSRB. Ég spyr hæstv. ráðherra hvar það mál er statt því að ég held að það geti verið mjög mikilvægt í því ástandi sem hér er núna að koma fram með þetta frumvarp til að klára heildarendurskoðunina á skólakerfinu.