Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

greiðslumark sauðfjárbænda.

554. mál
[18:29]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Forsaga þessa máls er talsvert löng og ég vil í upphafi fá að fara yfir nokkur mikilvæg atriði. Í fyrsta lagi er hér ekki um að ræða sjálfstæða ákvörðun mína sem ráðherra. Það er í gildi samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar, sem var samþykktur af fulltrúum ríkisins annars vegar og fulltrúum bænda hins vegar árið 2016, sem gildir í tíu ár eða til ársins 2026. Á samningstímanum eru ákvæði um tvær endurskoðanir. Sú fyrri fór fram árið 2019 og sú seinni er á dagskrá á þessu ári. Þar var m.a. samið um að svokallað greiðslumark, sem hér er til umræðu, myndi falla niður í áföngum á samningstímanum. Um þetta var sem sagt samið.

Í kjölfar samþykktar samningsins í atkvæðagreiðslu meðal bænda í lok mars 2016 voru gerðar viðeigandi breytingar á búvörulögum á Alþingi þann 20. september 2016. Lögin voru sem sagt sett til að undirbyggja nýsamþykktan búvörusamning. Þessar breytingar kveða m.a. á um að 1. janúar 2026 falli greiðslumark úr gildi. Það ákvæði er óbreytt síðan í lögum. Það eru gildandi lög, virðulegi forseti, samþykkt af Alþingi. Þetta er staðan og svona hefur staðan verið í sjö ár að verða. Ég vil undirstrika að við niðurtröppunina eru ekki gerðar breytingar á heildarfjárhæðum opinbers stuðnings við sauðfjárrækt. Það fjármagn sem afmarkað er í samningum til greiðslu út á greiðslumark er fært á aðra liði samningsins. Það eru aðrir sem njóta þá góðs af því þegar þessi hliðrun verður. 1,9% af stuðningnum í heild færast sem sé milli framleiðenda. Stuðningur samkvæmt fjárlögum 2023 er ríflega 6,2 milljarðar kr. og u.þ.b. 2,3 milljarðar þar af renna til beingreiðslna út á greiðslumark. Samkvæmt ákvæðum samningsins frá 2016 skyldi niðurtröppun gegn greiðslumarki endurskoðuð við fyrri endurskoðun samningsins árið 2019 ef afurðaverð til bænda þróaðist ekki með ákveðnum hætti á fyrstu árum samningsins. Á þetta ákvæði reyndi sannarlega og við endurskoðunina var ákveðið að seinka upphafi niðurtröppunar til 1. janúar 2023. Niðurstaða endurskoðunarinnar fór í almenna atkvæðagreiðslu meðal bænda og var samþykkt með 68% atkvæða.

Virðulegi forseti. Bændasamtökin hafa í tvígang farið fram á það við mig að vikið verði frá gildandi samningi um samningsbundna niðurtröppun á greiðslumarki á árinu 2023. Mitt ráðuneyti telur að slíkt fari gegn ákvæðum samningsins og gildandi búvörulögum og þess vegna var ekki fallist á þessar beiðnir. Bændasamtökin lögðu fram tillögu í framkvæmdanefnd búvörusamninga um að nýta heimild framkvæmdanefndarinnar til að færa fjármuni milli einstakra samningsleiða, óskuðu sem sé eftir því að það ákvæði yrði nýtt. Tillagan fólst í því að færa 20% framlaga ársins 2023 af býlisstuðningi, ullarnýtingu og fjárfestingarstuðningi yfir á beingreiðslur ársins eða greiðslumark. Með samþykkt tillögunnar hefði samningsbundið greiðslumark, eða niðurtröppunin, helmingast. Málið var rætt á fundum framkvæmdanefndarinnar. Á fundi framkvæmdanefndar í desember 2017 var svipað erindi tekið fyrir. Í fundargerð þar kemur fram að það hafi verið mat framkvæmdanefndarinnar að það að stöðva niðurtröppun á beingreiðslum teljist grundvallarbreyting á forsendum gildandi samnings og myndi þar að auki ganga í berhögg við skýran texta samningsins. Slík breyting yrði ekki endurskoðuð fyrr en við fyrri samningsbundna endurskoðun árið 2019 samkvæmt skýru orðalagi samnings. Og það var síðan gert, eins og fyrr segir, og samið um breytingar. Vegna tillögu Bændasamtakanna nú í desember sl. óskaði ráðuneytið eftir frekara lögfræðiáliti frá lögmannsstofu og þar var niðurstaðan skýr þess efnis að tilfærslan væri ekki heimil samkvæmt gildandi lögum og gildandi samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Af þeim sökum og með hliðsjón af fyrri niðurstöðu gátu fulltrúar ríkisins í framkvæmdanefnd ekki fallist á tillöguna og því varð það niðurstaða nefndarinnar að hafna umræddri breytingu. Fulltrúar Bændasamtakanna lýstu sig ósammála því mati og þeir óskuðu þar með eftir því að virkja ákvæði 17. gr. samningsins um skipan gerðardóms. Unnið er að skipan gerðardóms í samræmi við beiðni Bændasamtakanna þar um og það er staða málsins.