133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:34]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að hv. þingmaður notaði langmestan hluta ræðutíma síns til að tala um andstöðu við stóriðju og ímyndaðan niðurskurð framkvæmda. Hann fór ekki á nokkurn hátt efnislega ofan í þær tillögur sem hér eru, það hvarflaði ekki að honum. Hann kom hvergi að því að taka afstöðu til einstakra verkefna, taka afstöðu til flugvalla, hafna og vegagerðar heldur fyrst og fremst að velta sér upp úr því á alla enda og kanta hvort ekki sé líklegt að einhverju verði frestað.

Er þetta málefnaleg umræða, virðulegur forseti, og tala síðan um rekstur Spalar og reyna að gera það tortryggilegt að fyrirtækið Spölur, sem hefur fulla heimild til þeirrar starfsemi sem þar fer fram, sé í samstarfi við Vegagerðina? Ég er satt að segja alveg undrandi á þessum rýra málflutningi þingmannsins sem sér það eitt í framtíðinni að það sé nauðsynlegt að hætta við framkvæmdir á sviði uppbyggingar orkufreks iðnaðar.

Ég hef sagt það, virðulegur forseti, að ég tel komið að því að við verðum að gera það stórátak sem boðað er í samgönguáætluninni og að allt annað eigi að víkja fyrir þeim áformum sem fram koma í henni. Hv. þingmaður vék lítið að þessu og við fengum lítið að vita um það hvort þingmaðurinn mundi greiða atkvæði með áætluninni. Það væri fróðlegt að vita það.