135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:51]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu ætla ég mér ekki að breyta niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, enda er það ekki í mínu valdi. Ég er lýðræðissinni og tel að menn eigi alltaf að virða niðurstöðu í lýðræðislegum kosningum, það eru ekki efnisatriði í þessari umræðu. Það liggur líka fyrir að þingmenn stjórnarflokkanna eru fleiri en stjórnarandstöðunnar.

Ég var bara að benda á þetta af því að það var haft að yfirvarpi varðandi flutning frumvarpsins að sérstaklega væri verið að styðja stjórnarandstöðuflokkana. Ég hefði talið að nauðsynlegt væri að gera það, fara jafnvel að eins og Norðmenn gera en þeir styrkja minni flokka sérstaklega. Ég tel því að við hefðum þurft að fara heildstætt í gegnum þetta mál og með miklu vandaðri hætti en gert er. Gagnrýni mín lýtur að hluta til að því að við höfum ekki farið nógu vandlega í gegnum hlutina til að skoða hvernig við ætlum að leysa málið heildstætt, þannig að við höldum uppi eðlilegum þingræðishefðum og styrkjum stöðu stjórnarandstöðunnar til þess að lýðræðishefðum verið við haldið.

Varðandi það að færa megi málefnaleg rök fyrir því að hafa skiptingu með þeim hætti að þingmenn sumra kjördæma fái sérstakan aðstoðarmann en ekki annarra þá verð ég að segja að ég hef ekki heyrt gild málefnaleg rök hvað það varðar. Ég hef ekki heyrt skilgreiningu á því hvað aðstoðarmennirnir eiga að gera. Við hefðum þurft að byrja á því að skilgreina til hvers væri ætlast af aðstoðarmönnunum til að geta áttað okkur á því hvort málefnaleg rök væru fyrir þeirri mismunun sem um er að ræða. Við höfum því hvorki upphaf né endi. Meðan svo er stend ég við það að ég tel orka tvímælis að frumvarpið standist jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar.