136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Með miklum ólíkindum er að hlusta á þingmenn Framsóknarflokksins, sem hafa lagt til að skipt verði um hæstv. forseta á hinu háa Alþingi, halda því fram að það hafi ekkert með persónu hv. þingmanns Sturlu Böðvarssonar að gera þegar þeir í hinu orðinu leggja til að honum verði skipt út af forsetastóli. Ótrúlegt er að horfa á hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem náði ekki andanum af hrifningu þegar hún mærði núverandi forseta fyrir þingskapabreytingarnar sem hann lagði til og hafði forgöngu um, leggja til að honum verði skipt út af forsetastóli.

Mér finnst þetta allt vera með miklum ólíkindum og ég sakna þess að heyra hvorki hósta né stunu frá hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni sem oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur lagt til að forseti þingsins komi úr stjórnarandstöðunni. Af hverju (Forseti hringir.) tekur hæstv. fjármálaráðherra ekki til máls hér og flytur fyrri tillögur sínar um þetta efni? [Frammíköll í þingsal.] Af hverju heyrist ekkert í honum? [Órói í þingsal.]