149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

585. mál
[11:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018 sem mælir fyrir um að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/720 verði felld inn í EES-samninginn.

Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir tilskipuninni var ákvörðun tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Í tilskipun 2015/720 eru lagðar þær skyldur á aðildarríki Evrópusambandsins að minnka notkun á plastpokum sem eru þynnri en 0,05 millimetrar, en undir það falla bæði þunnir grænmetispokar og hefðbundnir innkaupapokar úr plasti. Með tilskipuninni er stefnt að því að a.m.k. öðru eftirfarandi markmiða verði náð: Annars vegar að notkun burðarpoka úr plasti sem falla undir tilskipunina verði ekki meiri en sem nemur 90 slíkum pokum á einstakling fyrir árslok 2019 og 40 slíkum pokum fyrir árslok 2025. Hins vegar að slíkum pokum verði ekki dreift af söluaðilum án endurgjalds nema öðrum úrræðum sem skila ekki lakari niðurstöðu hafi verið hrint í framkvæmd. Aðildarríkin skulu einnig tryggja að lífbrjótanlegir og myltanlegir burðarpokar úr plasti hafi að geyma merkingu þar um. Gert er ráð fyrir að EES/EFTA-ríkin skili tölulegum upplýsingum til Eftirlitsstofnunar EFTA um notkun á burðarpokum úr plasti sem falla undir ákvæði tilskipunarinnar.

Virðulegi forseti. Í þingsályktunartillögunni kemur fram að við upphaflega greiningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á efni gerðarinnar var talið að ekki þyrfti að breyta lögum vegna innleiðingar gerðarinnar. Hún var af þeim sökum ekki send til utanríkismálanefndar til hefðbundinnar umfjöllunar eins og ber að gera með gerðir sem kalla á lagabreytingar, samanber 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn hafði umhverfis- og auðlindaráðuneytið hins vegar ákveðið að gera tilteknar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir í tengslum við innleiðingu gerðarinnar enda þótt einnig hefði verið mögulegt að innleiða gerðina án lagabreytinga eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að mismunandi kostir geta verið til staðar hvað varðar innleiðingu á ákvæðum tilskipana ESB í íslenska löggjöf. Af þessum sökum þótti varlegra að taka ákvörðunina með stjórnskipulegum fyrirvara. Gerðin var kynnt sérstaklega í utanríkismálanefnd fyrir upptöku hennar í EES-samningnum með kynningu á EES-pakka þar sem gerðin var tekin upp í samningnum.

Fyrirhugað er að innleiða ákvæði umræddrar tilskipunar með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Nýverið mælti umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir frumvarpi þess efnis og gekk málið til umhverfis- og samgöngunefndar. Ég vek athygli þingheims á því að í umræddu frumvarpi eru ákvæði sem ekki byggja beinlínis á skuldbindingum sem leiða af EES-tilskipuninni heldur ganga lengra. Um þetta er fjallað í greinargerð umrædds frumvarps.

Ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á þetta, virðulegi forseti, er ekki sú að ég sé með neinum hætti að mæla gegn því hvernig þetta er gert heldur skiptir mig miklu máli í afgreiðslu þessara mála að við séum meðvituð um það þegar ráðherrar úr ríkisstjórn ganga lengra en viðkomandi tilskipun kveður á um. Borið hefur á því, t.d. í umræðu um EES-samninginn, að verið sé að kenna EES-samningnum um eitthvað sem eru ákvarðanir okkar sem á þjóðþinginu sitjum. Það er mjög mikilvægt að við gerum greinarmun á því hvað við þurfum að gera út af þeim samningum sem við höfum gert og þeim samningi sem við erum með um Evrópska efnahagssvæðið og það sem við ákveðum síðan að gera sjálf sem er bara pólitísk ákvörðun íslenskra stjórnvalda.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.