149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir framlagningu málsins. Þetta er í sjálfu sér ekki í fyrsta skipti sem við hv. þingmaður höfum átt orðastað um akkúrat þetta mál í bæjarstjórn, margoft, og þar náðum við nú stundum saman um bókanir. En ég tek eftir því, og það er ánægjulegt, að hv. þingmaður hefur aðeins færst til í málinu. Fyrsta þingsályktunartillagan sem hann flutti á 146. þingi var ekki með þessum fyrirvara í lokin ef annar betri kostur fyndist. Og síðan hefur hann komið með það inn, sem sýnir að eitthvað eru menn að nálgast hver annan. Það er gott vegna þess að við getum ekki staðið árum og áratugum saman í þeim skotgröfum þar sem reynt er að stilla upp einhverjum meintum ólíkum hagsmunum landsbyggðar og höfuðborgar. Það er bara of dýrkeypt. Það gæti orðið til þess að flugvöllurinn yrði á endanum ónothæfur þar sem hann er, eða færi, áður en búið væri að skoða nýjan kost.

Tvær ástæður eru fyrir því að ég tek ekki þátt í þessari þingsályktunartillögu. Sem landsbyggðarþingmaður ber ég auðvitað alveg jafn mikinn hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti og hv. þingmaður, en ég vil nálgast hlutina öðruvísi. Ég vil nálgast framtíðina. Ég vil nálgast hana með meiri sátt.

Í fyrsta lagi tel ég rétt að Reykjavíkurflugvöllur verði í núverandi formi og starfhæfur á meðan ekki er kominn betri kostur eða jafn góður. Um það hefur ekki verið deilt síðustu misseri. Samhljómur er um það og ég veit ekki betur en að borgarstjórinn í Reykjavík hafi tekið þátt í þessum nefndum, Rögnunefndinni og öðrum.

Í öðru lagi er málið einfaldlega ekki tækt til afgreiðslu vegna þess að verið er að lofa upp í ermina á sér. Hvað ætla þingmenn að gera ef þjóðin segir já? Þá þarf að stíga næsta skref ef framfylgja á því og þá þarf væntanlega að fara að krukka í skipulagsvald eða skyldu, eftir því hvað við viljum kalla það, höfuðborgarinnar. Hv. þingmaður er náttúrlega bara að snúa hlutunum á haus og byrja á vitlausum enda.

Af því að hann talar réttilega um sænsku „riksintressen“-leiðina, sem hefur undir m.a. járnbrautir, línur og jafnvel flugvelli, er það umræðunnar virði og eitthvað sem við getum tekið hér í þingsal, hvort skipulagsvaldið eigi að vera með öðrum hætti en það er núna, hvort við eigum að geta hlutast til um hvaða línur fara í gegnum Hörgárdalinn, í gegnum Eyjafjörðinn, hvar flugvellir eigi að vera, hvort þeir eru í Reykjavík eða annars staðar o.s.frv. En fyrst þurfum við að eiga þá umræðu, hv. þingmaður, áður en komið er fram með svona tillögu.

Ég tel að eyða ætti miklu púðri í að blása lífi í vinnu við að finna núverandi Reykjavíkurflugvelli framtíðarstaðsetningu og fyrirkomulag annars staðar. En það er ekki af því að ég sé á móti landsbyggðinni eða á móti Akureyri hafandi búið þar í hartnær 54 ár. Nei, það er einmitt vegna þess að mér þykir vænt um landsbyggðina. Ég held að við getum stigið þar skref sem gerði það að verkum að hægt væri að laða fólk að með auðveldari hætti, erlenda ferðamenn, út á land, af því að ég held að ferðaþjónusta úti á landi sé óinnleyst hagnaðartækifæri og vaxtarbroddur. Ég er sannfærður um að það finnst staður á endanum sem uppfyllir fullnægjandi óskir og kröfur okkar allra, þeirra sem búa úti á landi og þurfa að sækja hingað menningarlíf, stjórnsýslu, spítala og skóla, en líka kröfuna um geðslegt, sjálfbært framtíðarmiðað höfuðborgarsvæði.

Stjórnmálafólk hefur einhvern veginn þá merkilegu áráttu að fara alltaf ofan í vélarhúddið á bílnum ef það ætlar að keyra eitthvað, í staðinn fyrir að reyna frekar að móta stefnu um hvert eigi að halda. Við eigum að vera að ræða hvað ætti að vera æskileg tíðni á flugi til höfuðborgarinnar, hvað æskilegt væri að það flug tæki langan tíma og hvað það mætti kosta. Síðan þyrftu verkfræðingar, skipulagsfræðingar og ýmsir aðrir, og auðvitað borgaryfirvöld, að ákveða á endanum hvar völlurinn yrði.

Það er hin tæknilega útfærsla. Við erum ekki alltaf komin um borð í byggingarkrana þó að við tökum ákvörðun um að byggja þjóðarspítala.

Ég held líka að það sé margt sem knýr á um að við tökum þetta mál föstum tökum áður en það verður of seint. Eitt af því er hin náttúrulega þróun borga sem við höfum verið að horfa á í gegnum aldir. Á 20. öldinni gerist dálítið óvænt og vont fyrir borgir. Við fáum einkabíla. Einkabíllinn er ekki bara vondur af því að hann er knúinn áfram af jarðefnaeldsneyti og ekki leysist allt með því að fara yfir í rafmagn. Ókostur einkabílsins er ekki síður hreyfanleiki hans, þ.e. fólk getur búið í Kópavogi, farið á knattspyrnuleik í Vesturbænum og verslað uppi á Kjalarnesi, og öll byggð verður gisnari.

Á 20. öldinni sjáum við borgir sem voru skipulagðar eins og ameríska bílaborgin, sem er byggð á flokkun og aðgreiningu sem kallar sífellt á meiri, stærri og dýrari umferðarmannvirki, sem eru loftslagsfjandsamleg og ekki gott að búa við.

Nú er talað mikið um afturhvarf til hinna evrópsku hefðbundnu borga sem byggja á blöndun. Þangað eigum við að fara. Við þurfum að hugsa: Hvernig getur höfuðborgin þróast næstu áratugi? Af því að það er misskilningur að bara sé um hagsmuni höfuðborgarinnar að ræða — alveg nákvæmlega eins og höfuðborgarbúar hafa hag af sterkri landsbyggð, sumir þar veiða fisk, aðrir standa fyrir landbúnaðarframleiðslu og ýmsu öðru mikilvægu, þarf landsbyggðin líka á mjög öflugri höfuðborg að halda.

Það var ekki að ástæðulausu sem þessi þjónusta var sett miðlægt niður í jafn fámennu ríki og jafn stóru landi og Íslandi. Til þess að eiga fyrsta flokks háskóla, fyrsta flokks spítala og fyrsta flokks listastofnanir þurftum við einfaldlega að skipta þessu með okkur.

Við eigum að einbeita okkur núna að því að taka jákvæða nálgun á málið og finna lausn sem við getum öll sameinast um, þ.e. að gera höfuðborginni kleift að vera sjálfbær og umhverfisvæn á sama tíma og við, sem búum úti á landi og þurfum að sækja þá hluti sem ég talaði um áðan, getum átt auðvelt aðgengi að.

Ég verð, herra forseti, rétt í lokin að nefna annað sem knýr á um það að við leysum þetta í sameiningu og það eru loftslagsmálin, langstærsti og mikilvægasti málaflokkurinn sem við munum þurfa að glíma við næstu ár og áratugi hugsanlega. Þar er staðreyndin sú að árið 2050 býr helmingur allra jarðarbúa í borgum. Í dag búa yfir 70% allra Íslendinga í þéttbýli og borgum. Við eigum einfaldlega langmest undir því að skipuleggja þéttbýli á umhverfisvænan hátt og með aðgerðum þar næðum við langbestum árangri í loftslagsmálum.

Ég ætla að enda á að lesa úr grein eftir Róbert Guðfinnsson athafnamann — ég ætla að leyfa mér að kalla hann jafnvel athafnaskáld — frá Siglufirði, hann hefur gert stórkostlega hluti þar. Hann skrifaði í október 2016 einmitt um þetta mál þar sem hann rekur atvinnuhætti þjóðarinnar og þá möguleika sem við stöndum frammi fyrir og hvað við ættum að gera. Með leyfi herra forseta:

„Mín niðurstaða er sú að beint flug frá alþjóðaflugvelli með öflugu innanlandsflugi tryggi best hagsmuni ferðamennsku á landsbyggðinni. Með tengiflugi út á land aukast möguleikar til að selja áfangastaði í fegurð minni byggða. Við verðum að læra að horfa á landið allt sem eina auðlind sem okkur ber að nýta á skynsamlegan hátt.“

Ég ætla að gera þau orð að mínum. Ég held nefnilega að við séum ekki í einhverri varnarbaráttu, eins og hv. þingmaður í þunglyndi sínu virðist álíta. Við getum sótt fram og við getum fundið (Forseti hringir.) lausn sem er betri en núverandi lausn.