135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:54]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka upp annað mál en það sem hér hefur verið til umfjöllunar fram að þessu. Það er í raun framhald á umræðu sem ég hóf í gær í óundirbúnum fyrirspurnum til hæstv. félagsmálaráðherra og varðar málefni fatlaðra á Reykjanesi. Þá spurði ég hæstv. félagsmálaráðherra hvernig hún hygðist bregðast við og tryggja að fjárskortur komi ekki í veg fyrir að foreldrar fatlaðra barna á Reykjanesi geti fengið þá þjónustu sem þeir eiga að fá lögum samkvæmt, m.a. að því er varðar stuðningsfjölskyldur.

Í svari sínu sagði hæstv. ráðherra m.a. að of mikið væri gert úr málinu í fjölmiðlum. Ég held hins vegar að sannleikurinn sé sá að of lítið sé gert úr málinu í félagsmálaráðuneytinu.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði líka að engum foreldrum hefði verið neitað um áframhaldandi samning um stuðningsfjölskyldur á Reykjanesi. Um þetta mál er fjallað áfram í fjölmiðlum í dag, m.a. í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Þar er viðtal við föður fjölfatlaðs fimm ára drengs sem segir að ummæli hæstv. félagsmálaráðherra komi honum mjög á óvart vegna þess að þeim hafi einmitt verið synjað um áframhaldandi samning. Þau svör sem hæstv. félagsmálaráðherra gaf í þinginu í gær virðist mér að fái ekki staðist. Svo virðist sem hæstv. ráðherra hafi ekki sagt satt og rétt frá hér.

Ég vona að það sé óafvitandi að ráðherrann hafi ekki haft réttar upplýsingar um málið. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þingið uni því ekki að gefnar séu rangar upplýsingar þegar farið er fram á svör framkvæmdarvaldsins. Ég sé að hæstv. ráðherra er ekki hér í salnum til þess að svara þessu en ég hlýt að kalla eftir að hæstv. ráðherra sjái til þess að þeir foreldrar sem hér um ræðir fái þá samninga sem þeir eiga sannarlega (Forseti hringir.) rétt á samkvæmt lögum.