138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

305. mál
[18:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég kem hingað af sama tilefni og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, ekki til að fara beinlínis í andsvar við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, heldur til að lýsa yfir ánægju minni með þetta frumvarp og ég vonast til að það verði tekið til rækilegrar skoðunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þegar það kemur til kasta hennar að fjalla um það.

Ég held að ekki sé langt á milli okkar sem hér sitjum í þessum málum. Ég vil vekja athygli á því að fyrir þremur árum lagði ég fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.

Þar sagði m.a., með leyfi forseta, í kafla sem heitir Sjómenn græða hafið:

„Á undanförnum árum hefur orðið verulegur ágreiningur á milli vísindamanna Hafrannsóknastofnunarinnar annars vegar og sjómanna og útgerðar hins vegar varðandi mat á ástandi fiskstofna og lífríki hafsins og þær aðferðir sem notaðar eru við stofnstærðarmat fiskstofna. Hin síðari ár má reyndar segja að myndast hafi gjá á milli þessara aðila með tilheyrandi deilum sem hafa harðnað með hverju árinu sem líður. Það er brýnt að skapa gagnkvæmt traust og virðingu fyrir skoðunum þeirra sem að þessum málum koma og að reynsla aðila sem starfa í sjávarútvegi ásamt vísindalegum rannsóknum haldist í hendur við mat á náttúru hafsins. Það er nauðsynlegt að brúa það bil sem þarna hefur orðið með öllum tiltækum ráðum.“

Þetta var í frumvarpi sem við hv. þm. Atli Gíslasyni og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, fluttum hér á þingi. Það var ekki alveg stemning fyrir því frumvarpi eins og þingið var þá skipað og það hlaut þau dapurlegu örlög að bíða bana í þáverandi sjávarútvegsnefnd. Ég ætla að vona að það frumvarp sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson flytur fái ekki þau sömu örlög og ég mun beita mér fyrir því.