139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[16:17]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þegar menn nefna svokallaða samningaleið sem á að hafa komið út úr svokallaðri sáttanefnd er óskað eftir því, forseti, að þeir sem hana nefna leggi fram þá leið. Í hverju felst hún? Það er því miður ekki ljóst. Það eina sem menn hafa sagt er það að — (Gripið fram í.) m.a.s. hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi hæstv. ráðherra, sem að vísu þurfti að víkja sér af þingi svolitla stund vegna þátttöku sinnar í þeim málum sem leiddu til hruns þjóðarinnar (ÞKG: Þetta var …) þar sem hv. þingmaður hafði haft persónulegan hag af þeim aðferðum sem við nú fordæmum, sem m.a.s. hún getur skilið, að það eina sem hægt er að leggja út úr þessari leið er að menn séu á móti tiltekinni (Gripið fram í.) annarri leið, forseti, og læt ég þar (Gripið fram í.) lokið (Gripið fram í.) hugleiðingum um mál þess þingmanns sem enn hefur ekki lokið máli sínu hér frammi í sal vegna þess að eitthvað hefur sannleikurinn snert hana illilega að þessu sinni, (Gripið fram í.) einu sinni sem oftar. Þingmaðurinn lifir meira í eigin heimi og vill helst hlusta á sjálfa sig hér í ræðustólnum, en þá list er betra að stunda heima hjá sér fyrir framan spegil. Ég vona að þingmaðurinn taki til við það eftir þessa ágætu umræðu. (Gripið fram í.)

Um orð hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um samlyndi okkar hv. þm. Kristjáns Möllers er það að segja að við Kristján Möller erum algjörlega sammála um að atvinna sé (Gripið fram í.) númer eitt, tvö og þrjú hér á landi, ýmiss konar atvinna, framkvæmdir af margvíslegu tagi, (Gripið fram í.) stóriðja vissulega þar sem hún á heima, uppbygging í ferðamennsku líka, smáiðnaður og sprotafyrirtæki, meiri menntun. Við erum líka sammála um það (Forseti hringir.) að ekki megi til frambúðar eyðileggja sóknarfæri okkar í umhverfismálum og náttúruvernd með neinum stórkarlalegum framkvæmdum (Forseti hringir.) af því tagi sem Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur flutt um hverja tillöguna eftir aðra á þingi.