141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir svörin. Ég kom stuttlega inn á það í ræðu minni að manni líður oft illa með það þegar sett eru í lögin, hvort sem það eru þessi lög eða einhver önnur, mjög matskennd atriði. Kannski er það þannig að ekki sé hægt að koma í veg fyrir það í þessu máli, ég er ekki að halda því fram. En þetta er umhugsunarvert eins og hv. þingmaður sagði áðan þegar verið er að leggja mat á skráningu félaga eða sömu skilyrði til skráningar annars vegar trúfélaga og hins vegar lífsskoðunarfélaga. Það er umhugsunarvert hvernig að því er staðið. Ég skil hv. þingmann þannig að menn þurfi að sjá hvernig þetta þróast verði lögin samþykkt á þinginu.

Ég held að betra væri, hvort heldur sem er í þessu máli eða einhverju öðru, að þingið skildi það ekki eftir svo matskennt hvernig menn mundu síðan túlka skráninguna á viðkomandi félögum í hvora áttina sem það gengi. Þetta er umhugsunarefni.

Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns að bregðast við þeim spurningum sem ég hafði í ræðu minni. Ég er þakklátur fyrir það.