145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

höfundalög.

333. mál
[12:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Píratar voru á tímabili orðnir vanir því að ef einhver lagði eitthvað til í höfundamálum var það hræðilegt og eitthvað sem bar að sporna við. Það er gleðiefni að svo er ekki í þessu tilfelli.

Mig langar aðeins til að fjalla um það sem ég tel mjög mikilvægt að náist í gegn með þessu frumvarpi en það er réttarbót milliliða sem verða fyrir lögbannsbeiðni. Ég er sjálfur á móti lögbannsheimild yfir höfuð í lögunum en mér finnst þó til bóta að auka réttarstöðu milliliða sem verða fyrir slíkri beiðni. Það er í frumvarpinu og kem ég til með að styðja það. Eins og kemur fram í nefndaráliti eftir 2. umr. er það mat hv. allsherjar- og menntamálanefndar að með ítarlegri ákvæðum um samningskvaðaleyfi sé réttarstaða þeirra sem kjósa ekki að vera meðlimir í höfundaréttarsamtökum mun skýrari en áður og aðgengi almennings að höfundaréttarvernduðum verkum aukið til muna. Mér þótti þess virði að koma upp og drepa á þetta vegna þess að um er að ræða frumvarp sem varðar líka aðra hluti og er að hluta til til þess að uppfæra lögin í samræmi við nútímann. Auðvitað eru skoðanir okkar pírata í þeim efnum mun róttækari en birtist í þessu frumvarpi og nálgun okkar á höfundarétt er ekki sú sama og ráðandi afla. Það verður að hafa það. Þótt maður mundi vilja breyta ýmsu öðru í höfundaréttarlögum snýst þetta frumvarp alla vega ekki eftir skoðun mína á því og samráð við aðra um það að gera hlutina verri en þeir eru samkvæmt gildum okkar.

Mér þykir mikilvægt að halda því til haga að sá sem hér stendur skrifaði undir nefndarálitið með þeim fyrirvara að nauðsynlegt væri að innleiða tilskipun 2014/26/ ESB og í hv. allsherjar- og menntamálanefnd í morgun var það einmitt til umfjöllunar. Mér þykir það mjög jákvætt. Ég sé fram á að þessi umræða muni halda áfram. Þetta eru vitaskuld ekki síðustu breytingar sem verða nokkurn tíma gerðar á höfundaréttarlögum og síst af öllu ef við píratar höfum eitthvað um það að segja, enda hugmyndir á ferð hjá okkur sem aðrir eru ekki endilega vanir og kannski ekki alveg sannfærðir enn þá um að séu skynsamlegar. En verk okkar snýst fyrst og fremst um að vernda borgararéttindi gegn vondum hugmyndum. Ég sé ekki vondar hugmyndir í þessu máli, þvert á móti sé ég að milliliðirnir öðlast réttarvernd, sem er mjög jákvætt. Þess vegna mun ég styðja málið.

Svo eru tvö önnur mál til umræðu. Annað þeirra varðar munaðarlaus verk eins og þau eru kölluð. Ég kem til með að styðja það líka en mun sennilega sitja hjá í málinu um lengri verndartíma.

Mér þótti rétt að halda stutta ræðu. Þetta er mál sem varðar okkur pírata mjög mikið og því mikilvægt að hafa á hreinu á hvaða forsendum við nálgumst það.