151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:18]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ætla að halda mig á svipuðum slóðum. Í fjármálaáætlun er talað um að geta atvinnulífs til að nýta viðspyrnuna þegar heimurinn opnast og svigrúm skapast á ný til vaxtar hafi ekki orðið til í tómarúmi. Síðasta fjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti í desember síðastliðinn endurspeglaði þörf fyrir að veita kröftugri stuðning við hagkerfið en dæmi eru um áður. Betri afkoma næstu misseri dregur vonandi úr aðhaldsaðgerðum en ný þjóðhagsspá gefur tilefni til nokkurrar bjartsýni. Spáin sýnir að hraður bati hagkerfisins skilar sér í bættri afkomu ríkissjóðs frá því sem talið var fyrr á árinu. Helsta viðfangsefnið fram undan er að skapa störf. Atvinnuleysi er áhyggjuefni og mikil hætta er á viðvarandi atvinnuleysi. Atvinnuþróun víðast hvar á landsbyggðinni líður fyrir hversu ótrygg raforka er í raun á þessum svæðum. Ótrygg raforka gerir landsvæðin ekki eins samkeppnishæf hvað varðar uppbyggingu í atvinnu og búsetu. Orkustefna Íslands til ársins 2050 leggur áherslu á sjálfbæra orkuframtíð. Því skal stefnt á öruggt framboð og trausta innviði. Sú framtíð sem við sjáum í orkustefnunni er nær en okkur grunar. Í fjármálaáætlun segir, undir fyrirsögninni Fjárfesting hins opinbera eykur framleiðslugetu, með leyfi forseta:

„Eins og fjallað er um í rammagrein hér að framan eru margföldunaráhrif fjárfestingarútgjalda meiri og langvinnari en annarra ríkisútgjalda við þær aðstæður efnahagsslaka sem nú ríkja og fyrirséð er að ríki áfram næstu misserin. Frá upphafi faraldursins hefur það því verið skýrt markmið stjórnvalda að ýta undir fjárfestingu til að milda hagsveifluna, bæði með því að sporna gegn samdrætti í fjárfestingu einkaaðila og með því að auka við opinbera fjárfestingu.“

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég spyrja hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hvort hún telji ekki nauðsynlegt að efla afhendingaröryggi raforku í landinu og þá sérstaklega að ljúka hringtengingu raforkukerfisins á Vestfjörðum og Norðausturlandi til að tryggja samkeppnishæfni og uppbyggingu bæði í atvinnu og búsetu. Hvenær og hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að því takmarki verði náð?