140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

almenn hegningarlög.

98. mál
[15:42]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (U):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir, Eygló Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að 1. mgr. 194. gr. laganna orðist svo, með leyfi frú forseta:

„Hver sem gerist sekur um nauðgun skal sæta fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 16 árum.“

Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.

Frú forseti. Frumvarp þetta var flutt á 135., 136. og 138. löggjafarþingi af þeim sem hér stendur og fleiri þingmönnum, og á 139. löggjafarþingi var það flutt af hv. þm. Jórunni Einarsdóttur og fleiri þingmönnum. Varð málið ekki útrætt og er því endurflutt hér.

Í XXII. kafla almennra hegningarlaga er fjallað um kynferðisbrot og 1. mgr. 194. gr. laganna er svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“

Eins og heyra má er hér lögð megináhersla á verknaðaraðferð, ofbeldi og hótanir. Sú áhersla hefur endurspeglast í rannsóknum nauðgunarmála þar sem andlegum áverkum hefur verið of lítill gaumur gefinn. Aukin þekking á afleiðingum nauðgana hefur hins vegar fært okkur vitneskju um að andlegir áverkar eru alvarlegustu afleiðingar nauðgana. Það er nauðsynlegt að lögin endurspegli þekkingu á málum er snerta kynbundið ofbeldi. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að áhersla á verknaðaraðferðina verði felld út úr textanum enda ljóst að orðalag greinarinnar samrýmist ekki þeirri grundvallarhugsun sem býr að baki mannréttindaákvæðum um friðhelgi einkalífs eins og rækilega er fjallað um í greinargerð með frumvarpinu. Það má líka gera samanburð við önnur lagaákvæði er varða friðhelgi einkalífs, svo sem húsbrot og aðgengi að gögnum, og þá sést að kynfrelsið nýtur minni réttarverndar. Það er líka mismunun eftir ofbeldisbrotaflokkum, þ.e. manndráps og líkamsmeiðinga gagnvart nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga. Þar er mismunun og frumvarpi þessu er ætlað að leiðrétta þá mismunun.

Friðhelgi einkalífs er safnheiti ýmissa mannréttinda sem varin eru af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, mannréttindasáttmála Evrópu og ýmsum alþjóðasamningum. Friðhelgin nær yfir heimili, fjölskyldu og persónulega hagi manns, og umfram allt það að hver maður hefur rétt til lífs og rétt til að ráða yfir eigin líkama og sálarlífi sem eru mikilvægustu einkalífsréttindin. Kynfrelsi fellur hér undir. Kynfrelsi tengist réttinum til frelsis, mannhelgi og réttinum til að ráða yfir eigin líkama.

Í bók sinni „Unwanted Sex“ leggur Stephen Schulhofer, lagaprófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, áherslu á að refsiákvæði um nauðganir ættu að snúast um hugmyndina um kynfrelsi einstaklingsins, þ.e. „réttinn til að velja og hafna kynferðislegu samneyti“. Schulhofer telur að kynferðislegt sjálfræði eða kynfrelsi eigi að vera grundvallarhugtak í lagasetningu um kynferðisofbeldi og að brotið sé gegn kynfrelsi þegar gerandinn sýnir kynferðislega hegðun án þess að tryggja sér að hann hafi til þess fullgilt samþykki hjá þeim sem hegðunin beinist að. Eins og staðan er núna er áherslan frekar lögð á verknaðaraðferð í stað þess að leggja megináherslu á afleiðingarnar, verndarhagsmunina og samþykkið.

Í nauðgunarmáli þarf ásetningur gerandans að ná til allra efnisþátta núgildandi nauðgunarákvæðis og þess virðist krafist að gerandinn hafi gert sér grein fyrir því að verknaðurinn hafi verið framinn gegn vilja brotaþola. Til samanburðar má vísa til 228. gr. almennra hegningarlaga þar sem segir meðal annars að það varði refsingu ef maður hnýsist í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur slík gögn sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns. Nauðgunarákvæði núgildandi almennra hegningarlaga veitir ekki sömu réttarvernd líkömum og sálarlífi kvenna og bréfum, skjölum og dagbókum.

Enn verður þessi samanburður augljósari varðandi friðhelgi einkalífsins þegar litið er til 231. gr. almennra hegningarlaga sem mælir fyrir um refsingu ef maður ryðst heimildarlaust inn í hús eða niður í skip annars manns eða annan honum óheimilan stað. Ég ítreka orðalagið „ryðst heimildarlaust“. Hér er húsum og híbýlum veitt meiri réttarvernd en líkömum og sálarlífi kvenna.

Það er líka verulegur munur á ákvæðum almennra hegningarlaga um manndráp og líkamsmeiðingar annars vegar og ofbeldisbrot sem varða kynferði hins vegar. Í 211. gr. almennra hegningarlaga segir að hver sem sviptir annan mann lífi skuli sæta fangelsi ekki skemur en fimm ár eða ævilangt. Hér skiptir ekki nokkru máli hvernig manndráp er framið. Líknarmorð eru einnig refsiverð. Í líkamsárásarmálum skipta afleiðingarnar einnig mestu máli varðandi sönnun en ekki verknaðaraðferðin. Afleiðingarnar eru refsiverðar jafnt í manndráps- sem líkamsárásarmálum, burt séð frá því hvernig að ofbeldinu var staðið. Afleiðingarnar, líkið eða líkamstjónið, ráða sönnun finnist gerandinn.

Staðreyndin er sú að réttarvörslukerfið gefur andlegum afleiðingum nauðgana of lítinn gaum. Sú staðreynd er einn meginhvati þess að þetta frumvarp er flutt.

Með hliðsjón af framansögðu og þeim verndarhagsmunum líkama og sálarlífs sem eru í húfi er í frumvarpi þessu lagt til að nauðgunarákvæði hegningarlaga verði breytt og tilvísanir í hótanir og ofbeldi felld út. Það samrýmist nútímamannréttindahugsun. Nauðgun er þekkt og skilgreint hugtak, samanber það sem ég hef áður sagt, og það mun ekki vefjast fyrir dómstólum að taka afstöðu út frá heildarmati á hverju broti. Gildir hér sama og um önnur þekkt hugtök úr almennum hegningarlögum, svo sem skjalafals, almannahættu, manndráp, líkamsárás, ærumeiðingar, þjófnað, gripdeild, skilasvik og gertæki, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Ég vil þá víkja, frú forseti, að afleiðingum nauðgana í stuttu máli. Fyrst er smáinngangur.

Í mars 2005 lýsti mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna yfir áhyggjum vegna ofbeldis gegn konum á Íslandi og þá sérstaklega vegna kynferðisofbeldis. Aðallega var kvartað yfir því í hve fáum nauðgunarmálum er ákært miðað við fjölda kæra sem berast. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem áhyggjur af þessu tagi eru orðaðar um íslenskt réttarkerfi. Finnskur sérfræðingur mannréttindanefndarinnar gerði svohljóðandi athugasemd í lauslegri þýðingu minni, með leyfi frú forseta:

„Voru allar konurnar að ljúga eða stóð yfirvöldum á sama? Voru skilaboðin þau að konur ættu ekki að kæra nauðgun þar sem þær mundu aðeins lenda í vandræðum?“

Staðan hefur lítið breyst frá árinu 2005 að því er varðar fjölda kæra gagnvart fjölda dóma sem síðar falla.

Það sem hér skiptir öllu máli er að andlegar afleiðingar eru mun meiri, alvarlegri og varanlegri en hinar líkamlegu. Það eru beinlínis löglíkur á því að nauðgun hafi verið framin ef fyrir liggur að áliti sérfræðinga að þolandi hafi orðið fyrir slíku áfalli við kynmök ef þau andlegu einkenni koma fram sem ég vík að hér á eftir og rakin eru í greinargerð með frumvarpinu.

Ég vek sérstaka athygli á því að í skýrslu nauðgunarmálanefndar frá árinu 1989 kemur fram að umtalsverðir líkamlegir áverkar voru aðeins í um 10% tilvika nauðgana. Þá var átt við marbletti á útlimum, brjóstkassa og mjöðmum, áverka í andliti, sprungnar varir og blæðingar úr tannholdi. Sönnun verður því vart sótt í líkamlegar afleiðingar nema í miklum minni hluta tilvika.

Þá eru það sálrænu afleiðingarnar. Í greinargerð með frumvarpinu er gerð grein fyrir því að samkvæmt alþjóðlegum sjúkdómsgreiningaskrám er áfallið í kjölfar nauðgunar líkt því sem einstaklingar verða fyrir við stórfelldar náttúruhamfarir, stríðsátök og stórslys. Þar á milli er sett samasemmerki. Það er sameiginlegt með þessum aðstæðum að þolandinn hefur það ekki í hendi sér hvort hann lifir eða deyr. Þessum áföllum fylgja oft mjög sterk viðbrögð sem kallast áfallastreituröskun. Almennt getur slík lífsreynsla leitt til viðvarandi ástands. Fyrstu viðbrögð sem þolandi sýnir á neyðarmóttöku einkennast oft af doða, tómleika, óraunveruleikatilfinningu, brengluðu tímaskyni, spennu og öðrum áfallseinkennum. Erfitt er fyrir þolendur að átta sig á hvað hafi gerst í raun og veru og oftar en ekki er frásögn þeirra af atburðinum samhengislaus. Algengt er að þessi viðbrögð séu notuð gegn þolandanum.

Líkamlegu viðbrögðin eru til að mynda skjálfti, hraður hjartsláttur, kviðverkir, niðurgangur, ógleði, uppköst og sviti, einnig eirðarleysi, grátköst og ótti. Eitt er víst að þessar tímabundnu afleiðingar nauðgunar koma aldrei fram í kjölfar sjálfviljugra kynmaka, það er aldeilis víst.

Síðan hefur nauðgunin alvarlegar langtímaafleiðingar. Þar koma fram tölur sem manni finnast í fljótu bragði sérkennilegar. Skömm er algengasta afleiðingin og einkennandi fyrir 85% þolenda afbrota. Til samanburðar get ég nefnt að reiði kemur aðeins fram í 55% tilvika. Það er einkennandi fyrir þolendur að kenna sjálfum sér um og varpa ábyrgðinni ekki á gerandann. Léleg sjálfsmynd, sektarkennd og depurð eru mjög algengar afleiðingar og koma fram í 70% tilvika. Þunglyndi eftir nauðgun getur orðið langvarandi og endurspeglast í því að þolandanum finnst hann ekki hafa neina stjórn á eigin lífi. Þunglyndi og depurð leiða oft til kvíða, svefntruflana og einangrunar. Einnig er hætta á sjálfsvígstilraunum.

Uppspretta erfiðleika í kynlífi eftir nauðgun og svokallaðar svipmyndir eru einnig mjög algengar, þ.e. í 51% tilvika. Svipmynd er það þegar myndir og upplifanir tengdar ofbeldinu skjóta skyndilega upp kollinum án fyrirvara og valda miklu hugarangri.

Í mörgum tilvikum koma fram alvarleg hegðunarvandamál, einbeitingarskortur og sjálfssköðun. Þessar afleiðingar segja þó ekki alla söguna, afleiðingarnar eru öllu alvarlegri til langs tíma litið sé ekkert að gert. Sumir þolendur þróa með sér varanlegan sjúkdóm sem mótar alla tilveru þeirra og fjölskyldna þeirra til frambúðar. Þá er ég að tala um börn og barnabörn og jafnvel barnabarnabörn. Þetta gengur áfram í fjölskyldunni. Stöðug spenna getur fylgt í kjölfarið og ef ekkert er að gert gefur sig eitthvað, líkamlegt eða andlegt. Það hefur komið fram í viðtölum við sérfræðinga að 60–70% kvenna með geðraskanir og kvenna sem missa tök á lífi sínu, lenda til að mynda í neyslu fíkniefna og í afbrotum, eiga að baki sögu um kynferðislegt ofbeldi. Komi þær alvarlegu afleiðingar fram sem ég hef hér gert að umtalsefni, þ.e. varanlegar afleiðingar, er einsýnt að um nauðgun hafi verið að ræða. Ég vil halda því til haga hér, frú forseti, að afleiðingar kynferðisofbeldis eru eitt stærsta heilbrigðisvandamál heimsins sem snýr að konum.

Að lokum vil ég segja þetta: Á síðustu rúmum tveimur áratugum hafa orðið verulegar breytingar á afstöðu manna hér á landi til mannréttinda og þýðingar þeirra og vægis sem grundvallarréttarheimilda. Af mannréttindaákvæðum leiðir að allan vafa ber að túlka mannréttindum og einstaklingum í hag. Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu eru meðal dýrmætustu réttinda hvers einstaklings. Þar trónir efst rétturinn til lífsins en síðan til líkama og sálarlífs, þar með talið kynfrelsis.

Orðalag áður gildandi og núgildandi ákvæða almennra hegningarlaga um kynferðisbrot endurspeglar ekki þessa réttarþróun. Hið sama gildir um rannsóknir, sönnunarmat, ákærur og dóma í þessum málaflokki eins og tölulegar staðreyndir sýna. Af 103 tilkynningum til lögreglu árið 2003 um kynferðisbrot leiddu aðeins fimm til sakfellingar fyrir dómi. Þessar tölur segja allt sem segja þarf um réttarvernd kynfrelsis en vel að merkja, frú forseti, skýrir orðalag núgildandi ákvæða almennra hegningarlaga um kynferðisbrot alls ekki eitt og sér þessar dapurlegu staðreyndir.

Það hefur orðið umtalsverð þróun í þessum málaflokki síðustu ár, enn fremur eftir lagabreytinguna sem varð árið 2007, þróun til batnaðar. En þrátt fyrir umtalsverðar framfarir í málaflokknum má setja spurningarmerki við rannsóknir, sönnunarmat og sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. Það fær illa samrýmst 71. gr. stjórnarskrárinnar að unnt sé refsilaust að skerða kynfrelsi þegar upplýst samþykki til kynmaka er ekki fyrir hendi. Ástæða er til þess að árétta að tímabundnar og varanlegar andlegar afleiðingar nauðgunar eru augljósar og þekktar og einatt alvarlegri og síður læknanlegar en líkamlegir áverkar eftir meiri háttar líkamsárás. Komi þessar andlegu afleiðingar fram eftir kynmök eru komnar fram fullnægjandi sannanir fyrir því, löglíkur, að þolandanum hafi verið þröngvað til kynmaka, að ofbeldi hafi verið beitt eða hótun um ofbeldi.

Með frumvarpi þessu um breytingu á 194. gr. almennra hegningarlaga er lagt til að réttarvörslukerfið taki upp aðra hugsun og nálgun í kynferðisbrotamálum, að réttarvernd kynfrelsis verði lagalega tryggð. Horfa þarf fyrst og síðast til afleiðinga nauðgunar þótt auðvitað þurfi að fara fram heildstæð rannsókn og mat á öllum þáttum brotsins eins og gildir um manndráp og líkamsárásarbrot. Með þessu frumvarpi er sjónum réttarvörslukerfisins beint að sönnunargögnum sem það hefur ekki sinnt sem skyldi að afla. Með frumvarpinu er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að slakað sé á meginreglum opinbers réttarfars um sönnun enda engin þörf á því til að ná fram sakfellingu ef réttra aðferða er gætt við rannsókn lögreglu og öflun sönnunargagna. Frumvarpið sýnir einnig þann vilja löggjafarvaldsins að dómstólar þyngi refsingar fyrir kynferðislegt ofbeldi með því að færa lágmarksrefsingu úr einu ári í tvö.

Frumvarpið og greinargerð sem því fylgir byggir á fræðigreininni „Réttarvernd kynfrelsis“ eftir þann sem hér stendur og Jóhönnu Katrínu Magnúsdóttur sem birtist í afmælisriti Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara, Guðrúnarbók, sem gefin var út í Reykjavík í júní 2006. Við samningu fræðigreinarinnar og frumvarpsins var leitað til fjölda sérfræðinga á þessu sviði og nýtur frumvarpið breiðs stuðnings þeirra.

Að umræðu lokinni óskast málinu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar.