141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skipting makrílkvótans.

[13:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir það með honum að auðvitað er ekki eftir neinu að bíða að úthluta okkar kvóta. Tónninn sem hæstv. ráðherra gefur er að við munum lækka kvótann okkar í samræmi við það sem gerist við lækkunina á ráðgjöf fiskifræðinganna, sem væri þá í samræmi við það sem aðrir hafa gert.

Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að við komum sjónarmiðum okkar á framfæri, sem ég held fram að ekki hafi verið gert, til móts við áróður Evrópusambandsins og Noregs um að þeir taki sér 90% og skilji síðan 10% eftir fyrir alla hina, Rússa, okkur og Færeyinga, og síðan saka þeir okkur um óábyrgar veiðar. Þetta er mjög ósanngjörn umræða og við þurfum að standa saman um að bregðast við henni.

Ég hvet líka hæstv. ráðherra til að skoða mjög vandlega og fara yfir úthlutunina milli útgerðarflokkanna. Það er mikilvægt verkefni sem má ekki bíða of lengi. Það er gríðarlega mikilvægt að það fari fram fyrr en seinna. Ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að gera það við fyrsta tækifæri.