141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla að staldra aðeins við seinni hluta ræðu hv. þingmanns og það sem sneri að þjóðkirkjunni. Þá vil ég rifja upp að gerð var sérstök skýrsla sem var kynnt fyrir Alþingi af hálfu hæstv. innanríkisráðherra þar sem fram kom að þjóðkirkjan hefði orðið fyrir 25% meiri niðurskurði en aðrar stofnanir.

Þá var einmitt verið að vísa í þau lög sem hv. þingmaður vísaði til, ég held að þau séu síðan 1997, ég ætla þó ekki að fullyrða það. Það kemur mjög skýrt fram í greinargerð með frumvarpi til fjárlaga, í texta frá innanríkisráðuneytinu, að til þess að þær skerðingar sem boðaðar eru í frumvarpi til fjárlaga gangi fram verði að breyta viðkomandi lögum til samræmis við það. Þess vegna kemur þetta svona fram og það er búið að viðurkenna það, og hæstv. innanríkisráðherra viðurkenndi það á fundi í hv. fjárlaganefnd, að það hefði gleymst að verðlagsuppfæra þann þátt sem var í raun og veru bundinn við lögin, ef ég má orða það þannig.

Við hv. þingmaður þurfum kannski ekki að deila um það en maður hafði svona á tilfinningunni að stjórnvöld væru í raun og veru að setja fram kröfu um að forsvarsmenn þjóðkirkjunnar mundu samþykkja ákveðna niðurstöðu, þ.e. að til þess að ganga frá samkomulaginu yrði að taka hitt upp. Manni fannst þetta vera óþægilegur þrýstingur, ef ég má orða það þannig, af hálfu stjórnvalda á þeim tíma þegar við vorum að samþykkja fjárlögin.

Þannig að ég vildi koma hér upp og benda hv. þingmanni á að þetta eru held ég lögin síðan 1997 og það þurfti að breyta lögunum til að framkvæmd fjárlaga gæti gengið eftir.