151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:28]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að við séum sammála um þetta. Ég er reyndar ekki alveg sammála henni um að ekki sé rétt að setja þetta inn í fjármálaáætlun núna, ég skal a.m.k. aðstoða hana við það ef vandamálið er að hún hafi ekki stuðning til þess.

En mig langar aðeins að víkja að öðru og það er ferðamannageirinn okkar sem á við gríðarleg vandkvæði að etja og þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Tíðindi gærdagsins vekja manni ekki sérstaka kátínu eða bjartsýni, því miður, þó að auðvitað vonum við öll að úr rætist. Við líktum þessu við fjallgöngu hér og að við sæjum toppinn en mér sýnist að hann sé aðeins að hverfa í ský þannig að við séum kannski búin að missa sjónar á honum.

Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig við getum brugðist við, hvort það séu einhver plön. Það gafst ágætlega í fyrra að örva mjög innlenda ferðamennsku og við skulum rétt vona að við sjálf verðum ferðafær í sumar og fram á haust. Því vil ég spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi íhugað tillögu Viðreisnar um að endurnýja svokallaða ferðagjöf, hækka hana talsvert og útvíkka gildissviðið til fleiri atriða og til stærri aldurshóps. Mér sýnist orðið einsýnt að grípa þurfi til örvunaraðgerða í sumar að þessu leyti og því fyrr sem tekin er ákvörðun um það því betra. Það vekur mönnum aftur vonir og menn geta reynt að fara að skipuleggja sumarið með hliðsjón af því.